23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (1918)

58. mál, harðærisuppbót handa orðabókarhöfundunum

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að eyða mörgum orðum, tillögu þessari til meðmæla. Það er sjálfsagt, að þessum mönnum sje gert jafnhátt undir höfði sem öðrum, er vinna í landsins þágu fyrir ákveðið kaup. Þó að menn þessir sjeu ekki embættismenn, eru þeir ráðnir til þessa ákveðna starfa, er endist þeim lífstíð, og geta ekki haft önnur störf með höndum.

Það liggur í augum uppi, að verðfall peninga kemur engu síður hart niður á þeim en öðrum starfsmönnum landsins, þar sem öðrum er ákveðið að eins 3.000 og hinum 2.400 kr. árskaup. Minni hluti fjárveitinganefndar hefir því lagt til, að þeim yrði veitt hallærisuppbót, eftir sömu reglu og öðrum starfsmönnum landssjóðs. Það er ekki af því, að minni hlutinn sæi þess ekki þörf, að hann fór ekki fram á hærri uppbót, en hann þóttist sjá, að það mundi ekki bera neinn árangur.

Dr. Björn Bjarnason hefir átt um mörg ár við heilsuleysi að stríða og orðið að dvelja langvistum erlendis, til þess að ná aftur heilsunni. Hann hefir nú, sem betur fer, fengið bata, en geta má nærri, hvort þetta áfall hefir ekki komið við efni fátæks manns. Það er þess vegna eigi ófyrirsynju, að honum sje veit þessi litla uppbót á launum sínum.

Hinn maðurinn er fátækur barnamaður, sem sagt hefir af sjer embætti og flyst hingað til bæjarins í vor, til þess að takast á hendur þetta verk. Munu honum skamt hrökkva þessar 2.400 kr., og hygg jeg, að menn finni, að öll sanngirni mælir með því, að honum sje veitt þessi uppbót.

Þriðji maðurinn er ungur maður, er Alþingi ákvað styrk til þess að vinna að orðabókinni, og verður sennilega fastur starfsmaður við það verk framvegis. Og fæ jeg ekki betur sjeð en honum beri þessi uppbót, sem öðrum starfsmönnum landssjóðs.