11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

36. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Torfason):

Þessi nýja brtt., er háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) hefir flutt, gerir það að verkum, að fært er að samþykkja 5. brtt. á þgskj. 322, og úr því að svo er, þá vil jeg ekki meina það og læt brtt. afskiftalausa.

Um 4. brtt. háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) verð jeg að halda því föstu, að hún sje með öllu óþörf, því að það kemur skýrt fram í 3. gr. staflið c, að greiða eigi stimpilgjaldið þegar leigusamningurinn er þinglesinn, því að leigumálinn á að koma fram í skjalinu einmitt þess vegna. Og þetta gildir um alla leigusamninga. Þetta er ekkert karp, en jeg hefi eins mikinn rjett og háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) til þess að skýra mitt mál.

Mjer þótti það harla einkennilegt, að háttv. þm. Seyðf. (Jóh Jóh.) skyldi stökka upp á sitt háa nef út af því, að jeg tók það fram, að hann væri maður ósjerdrægur, jafnframt að geta þess, að hann væri vel launaður; Það var sannarlega engin ástæða fyrir hann til þess að taka það sem öfugmæli, enda sjá allir, að svo er ekki, því að það væri brot á öllum rjettum hugsunarreglum.

Afbrigði um skriflega brtt. frá þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) (sjá A. 343) leyfð og samþ.