04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (1940)

110. mál, lán til kolanáms

Flm. (Matthías Ólafsson):

Það stendur svo á þessu máli, að þessir hreppar, sem hjer um ræðir, hafa tekið mókolanámu í Botni í Súgandafirði til leigu í næstu 3 ár. Í þessum hreppum eru þrjú einhver stærstu kauptún á Vesturlandi, hvert með 3—400 íbúa, og ekkert mótak í nánd við þorpin, og víða ókleift að ná í mó til eldsneytis þar nálægt. Íbúum þessara hreppa hefir því virst, eftir því sem kolanám hefir gengið í Súgandafirði, að það mundi auðveldust eldsneytisöflun fyrir sig að taka þar upp kol. Hafa þeir svo komist að samningum við eiganda námunnar, með tiltölulega hagfeldum kjörum. Eiga þeir að gjalda honum af fyrstu 300 smál. 20%, af þeim næstu 15% og af þriðju 300 smál. að eins 10%. En ef þeir taka upp meira en 600 smál., fellur gjaldið af fyrstu 300 smál. strax niður í 15%. En nú er óhjákvæmilegt að byggja hús á staðnum, bæði yfir verkafólk og til geymslu áhalda. Enn fremur þarf að leggja akveg frá námunni til sjávar, svo sem 1 km., borga verkafólki o. s. frv. En til þessa þarf fje í bili, þar til er kolin verða borguð, sem ekki getur orðið fyr en veturinn 1918—19.

Þessi náma er nú talin einhver hin besta kolanáma vestra. Kolin geta heitið góð, eins og hv. þm. hafa getað sjeð á sýnishorni því, sem jeg hefi haft hjer við hendina. Mun það sýnishorn ekki vera neitt úrval, heldur vera tekið úr kolunum af handahófi, eins og þau koma fyrir. Menn hafa nú áður reynt kolin úr Dufansdal og Þernudal í Arnarfirði, og er mjer sjálfum kunnugt um það, að þau hafa reynst alveg ónýt, alls ekki kol, heldur eins konar steinn, sem logar á að vísu, en getur þó ekki brunnið.

Nú hafa viðkomandi hreppar leitað til bankanna til þess að fá lán, en ætluðu sjer ekki að leita landssjóðs. En bankarnir hafa verið tregir, þóst lítið fje hafa aflögu, en mikið fje útistandandi, sem þeir búist ekki við að fá bráðlega, og í öðru lagi telja þeir sjer ekki skylt að lána til slíkra fyrirtækja, en telja það miklu fremur skyldu landssjóðs, og er nokkuð til í því. Nú hafði hreppsbúum skilist, að á meðal annara ráðstafana, sem þingið vildi gera út af stríðinu, væri sú ein, að afla sem flestum landsmönnum á sem auðveldastan hátt eldsneytis. Nú eru þarna margir menn, eins og jeg hefi tekið fram. Var mjer svo, sem þingmann kjördæmisins, sent skeyti frá hreppunum um þetta og farið fram á 50.000 kr. lán. En eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið síðan, mundi það geta nægt, sem hjer er farið fram á. Jeg býst sem sje við, að strax í sept. eða október muni fást talsvert fje frá þeim, er þurfa kolanna.

Jeg get nú ekki sjeð ástæðu til að halda um þetta mál langar eða mærðarfullar ræður, því að þetta mál liggur svo opið fyrir. Ef mennirnir verða að hætta við kolanámið vegna fjeleysis, verða þeir ekki einungis að gjalda eiganda námunnar skaðabætur, heldur verða þeir og að vera án eldsneytisins, því að nú er þegar of seint að gera ráðstafanir til þess að fá mó, og sumstaðar ókleift að ná honum. Jeg býst ekki við, að lögin um mótak verði komin í gildi, en veit, að mótak, t. d. nálægt Þingeyri er ekki fáanlegt, því að eigendur vilja ekki láta landið.

Vænti jeg því, að hv. deild líti á nauðsyn þessara hreppa og verði við tilmælum þessum.

Hvað snertir borgun lánsins, þá er farið fram á, að lánið sje veitt til 5 ára afborgunarlaust fyrsta árið, að sjálfsögðu með þeim skilyrðum, er landssjóður venjulega setur, sem sje ábyrgð sýslufjelagsins. Mun sú ábyrgð þegar fengin.