04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (1943)

110. mál, lán til kolanáms

Gísli Sveinsson:

Af því að mjer heyrðist það vera till. hv. þm. N.-Ísf. (S. St), að máli þessu væri vísað í fjárhagsnefnd (S. St.: Svo var ekki.), vildi jeg segja nokkur orð. Mín vegna má málið gjarnan fara nefndarlaust. En ef því er vísað til nefndar, þá er það auðvitað frá sjónarmiði hv. flm. (M. Ó.) bjargráðamál, þótt í sjer feli fjárhagsatriði. En jeg vil að eins geta þess, að ef svo færi, að málinu verði ekki vísað í nefnd, þá mun jeg, og fleiri að því er jeg hygg, ekki geta greitt því atkvæði. Jeg vil að eins geta þess til viðbótar, að mjer virðist Vestfjarðahrepparnir teknir að gerast nokkuð áleitnir í umsóknum sínum um lán til landssjóðsins. Það hefir nú komið fram áður hjer á þinginu, að það kvæði nokkuð mikið að þessari áleitni, enda þótt málaleitanir þeirra hafi verið teknar til greina, þrátt fyrir þá röskun á hlutfallinu milli þessa landshluta og annara, sem af þessu hefir leitt. En þegar svo í viðbót er tekið tillit til þess, að þessi hluti landsins stendur líklega allra best að vígi með að afla eldsneytis alveg hjá sjer, kola eða surtarbrands, þá sje jeg ekki, að ástæða sje til að veita búandmönnum þar vestra sjerstök vilkjör í þeim efnum, framar öðrum landslýð. Væri miklu fremur ástæða til að veita slíkan styrk hjeruðum, þar sem menn hafa enga von eldsneytis, nema brenna áburði sínum. Væri miklu skyldara að veita styrk bændum á slíkum stöðum, til þess að flytja að sjer eldsneyti, svo að þeir taki það ekki hjá sjálfum sjer, til stórskaða fyrir framleiðsluna, en margir líta eðlilega svo á mikla brenslu áburðarins. Þessi till. fer líka fram á alveg sjerstök vilkjör, 5% vexti, og það þótt enginn viti, hvar landssjóður á að taka fje, og enda þótt hann verði að sæta miklu verri kjörum í öflun síns fjár.