04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (1944)

110. mál, lán til kolanáms

Flm. (Matthías Ólafsson):

Jeg veit ekki, hvaðan hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) kemur sú viska, að það sje sjerlega þægilegt að afla eldsneytis á Vestfjörðum. (G. Sv.: Það er öllum vitanlegt, að þar eru kol unnvörpum). Það væri heppilegt, að þessi hv. þm. (G. Sv.) væri kostaður vestur á fjörðu til þess að rannsaka kolalög, þótt hann hafi ekkert sjerstakt námavit. Hann mundi þá sjálfur kynnast staðháttum og væntanlega líta öðrum augum á kolavinsluskilyrðin þar. Það er að eins á örfáum stöðum þar, sem hægt getur talist aðstöðu. Víða eru kolalög þar framan í flugabjörgum, örþunn lög, sem enginn kemst að, nema einstöku sinnum sjávarleiðina, þegar best og blíðast er, og er ekki að tala um verulega kolatöku á slíkum stöðum. Það er hrein hending, að námar sjeu á heppilegum, aðgengilegum stað. Og þessi staður er einn af fáum. Það er því langt frá því, að Vestfirðir sjeu betur settir öðrum landshlutum að þessu leyti.

Jeg get nú naumast skilið, að til þess sje að ætlast, að menn þeir, er fara heiman frá sjer til að vinna kol, geti legið úti, og verður því að sjá þeim fyrir húsnæði og auðvitað vinnukaupi. Verða þeir og að vera talsvert margir, ef mikið á að taka upp.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) segir, að það fari mikið í vöxt, að hreppar landsins, og þá einkum á Vestfjörðum, leiti til landssjóðs um lán. Hvert eiga þeir að leita annað en til landssjóðs? Hann er þó sameiginleg eign allra Íslendinga, og þá allra hreppa landsins. Hv. þm. (G. Sv.) segir, að farið sje fram á óhæfilega góð kjör, 5%. Jeg veit nú ekki til, og efast um, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) viti um það, að landssjóður fái lán með verri kjörum.

Jeg verð nú að segja, að ef neita ætti um lán þetta, þá væri þessum landshluta sýnd sjerstök óbilgirni. Það getur nú vel verið, að mál þetta verði felt, en þá vil jeg segja, að það sje eitt, að jeg vona af fáum, ranglætisverkum, sem þetta þing hefir unnið.