04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

110. mál, lán til kolanáms

Flm. (Matthías Ólafsson):

Jeg skal ekki karpa við hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), því að honum verður aldrei sýnt með svo glöggum rökum fram á þann sannleika, að hann þekkir ekki til á Vestfjörðum, að hann viðurkenni það. Hann talaði um að kaupa kol af fjelögum, er vinna kol á Vestfjörðum. Jeg þekki vel til þessara fjelaga, því að jeg hefi keypt kol hjá einu þeirra. Vestfirðingar þekkja of vel kolin hjá þeim, til þess að vilja kaupa þau. Þau eru oftast mjög ljeleg og illa tínd, og auk þess margfalt dýrari en þörf er á. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) nefndi Stálfjallsnámuna. Þar hagar svo til, að skip geta legið þar vikum saman, án þess að ná í einn tunnusekk af kolum, og eru menn löngu orðnir leiðir á að eiga við slíkt. Og yfirleitt býst jeg við, að íbúar hreppa þeirra, sem hjer um ræðir, hafi miklu betra vit á að afla eldsneytis en þessi hv. þm.

En hvað það snertir, að hjer sje farið fram á óvanalega góð kjör, þá vil jeg enn einu sinni neita því. Og það er ekki nema eðlilegt nú, að menn leiti til landssjóðs, er hann hefir tjáð sig vilja hjálpa sveitarfjelögunum í baráttunni við dýrtíðina. Honum er ekki nema skylt að hlaupa undir baggann, ef það er meira en orðin tóm, að hann vilji hjálpa.

Að fara nú að setja málið í nefnd og þannig seinka því, eru banaráð við það.

Jeg veit ekki, hvort þessir hreppar kynnu að geta fengið lán annarsstaðar en jeg veit, að þeir hafa leitað til bankanna. .Jeg hefi ekki skrifleg svör frá þeim, en hefði fengið þau og lagt fram, ef jeg hefði vitað, að einhver myndi krefjast þess. Jeg tók það strax fram, að bankarnir hefðu tregðast við að lána, en það var ekki af því, að það væri ekki óhætt að lána, en þeir töldu landssjóði það skyldara en sjer, og sjálfir hefðu þeir í mörg horn að líta með peninga. Enda er líka betra fyrir hlutaðeigendur að fá lánið með 5% en þeim kjörum, sem bankarnir bjóða. Enn fremur er það mjög óþægilegt að þurfa að borga svo og svo mikið af láninu aftur þegar á fyrsta ári, áður en nokkuð er komið inn fyrir kolin.

Jeg vona nú, að þeir, sem vilja þessu máli vel, falli frá því að vísa til nefndar og samþykki það nú. Það gæti vel sofnað í nefndinni. Slíkt er ekki eins dæmi.

Annars man jeg ekki betur en að landssjóður hafi áður veitt styrk til kolanáms í Strandasýslu. (G. Sv.: Landssjóður á landið.) Já, landssjóður á landið. Það er mikill munur. Og það er dauðans leiðinlegt, og dálítið önugt fyrir Vestfirði, að landssjóður skuli ekki eiga Botn í Súgandafirði. En þess utan er hjer ekki farið fram á neitt annað en heimild. Ef landssjóður hefir ekki fje, þá skuldbindur hann sig auðvitað ekki til að veita lánið. En það verður strax auðveldara að fá fólk til vinnu, ef það veit, að landssjóður stendur á bak við. (E. J.: En hvernig fer, ef landssjóður lánar ekki?) Jeg er enginn spámaður. En sjái þingið sjer fært að veita heimildina, þá efa jeg varla, að fjeð muni fást. Annars gætu hreppsbúar má ske tekið upp eitthvert annað ráð, t. d. selt námureksturinn í hendur einhverjum ,,spekúlöntum“ að sunnan.

Skal jeg svo ekki ræða málið frekar, en fel það sanngirni hv. meiri hluta þessarar deildar.