06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (1956)

110. mál, lán til kolanáms

Matthías Ólafsson:

Jeg þarf ekki að svara miklu ræðu hv. frsm. nefndarinnar (B. K.). Hann var að tala um ýmislegt, er hann taldi sjer trú um að styrkti málstað hans, en jeg verð að segja, að rök hans voru fremur til þess löguð, að hnekkja áliti nefndarinnar, heldur en til þess að styrkja það. Hann gekk fram hjá mörgu í minni ræðu, og er það ekki nema eðlilegt, því það tíðka góðir menn oft að ganga fram hjá góðum rökum andstæðinga sinna, rökum, sem þeir treysta sjer ekki að eiga við. Jeg benti honum á það í fyrri ræðu minni, að það þyrfti að byggja yfir verkamennina, og svo þyrfti að borga þeim kaup sitt af lánsfjenu, þar til er kolin seldust og vinnan gæti farið að borga kostnaðinn. Auk þess geta þeir, sem efnið útvega, ekki átt andvirði þess hjá fjelaginu þangað til kolin eru seld o. s. frv. það er þýðingarlaust að vera að karpa um það hjer, hvort hægt hefði verið að fá lánið annarsstaðar, því mjer finst engum skyldara en landssjóði að lána slík lán. Jeg rjeði sjálfur vöxtunum, því að þeir vestra ljetu mig um það, og mjer finst þeir á engan hátt of lágt settir, því jeg þykist þess viss, að landssjóður fái peninga með engu verri kjörum, og að þetta væri þær hæstu rentur, sem hann greiddi af sínum lánum. En ef þessi fjárupphæð skyldi verða þyrnir í augum hv. þingm., þá er ósköp einfalt að lækka hana nokkuð, en það er auðsjeð á öllu, að það vakti ekki fyrir nefndinni að breyta þessari tillögu til batnaðar, heldur að leggja það eitt til, að hún yrði drepin.