08.07.1918
Neðri deild: 65. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (1966)

114. mál, laun tveggja kennara Flensborgarskólans

Flm. (Bjarni Jónsson):

Þetta er mjög einfalt mál í öllum hlutum. Tel jeg víst, að hv. þm. samþykki tillöguna af því að þingið hefir í þessi skifti, sem fjallað hefir verið um laun manna, viljað sjá borgið hag kennara, þó þeir væru ekki beinlínis í þjónustu landsins. Jeg þarf ekki að minna sjerstaklega á árið 1916, er öllum kennurum var veitt dýrtíðaruppbót. Nú stendur svo á hjer, að Flensborgarskólinn treystir sjer ekki til þess að starfa næsta vetur, og því hefir verið sagt upp tveimur kennurum. Menn munu nú spyrja, hvort þetta hafi verið gert með nægilegum fyrirvara, og mun mega segja, að hann sje nægilegur, — ef á annað borð nokkur fyrirvari er nægilegur, þegar menn eru sviftir stöðu sinni — því þeir gætu fyrirvarans vegna fengið stöðu við aðra skóla, þar sem laus væru sæti. En ef svo færi, að þessir tveir kennarar fengju stöður við aðra skóla, þá mundi auðvitað þessi styrkur falla niður af sjálfu sjer. Nú er þess og að gæta, að þó þessir kennarar vildu taka upp önnur störf en kenslu, þá er svo lítið um atvinnu, að engin uppgrip eru, þar sem ýmsir atvinnuvegir landsmanna eru nærri því í kalda koli, sakir þeirrar kreppu, sem landið komst í af samningum við eina stríðsþjóðina.

Annars er annar þessara manna hniginn að aldri, og getur því t. d. ekki farið í kaupavinnu. Hinn hefir ekki nægilega atvinnu til þess að lifa sómasamlegu lífi, enda þarf hann að halda áfram að starfa að kenslubók, sem hann ætlar sjer að gefa út. Mjer er sagður maðurinn vel lærður, þó hann hafi að mestu leyti mentast af sjálfum sjer. Þessi styrkur yrði ekki heldur ný fjárveiting, því að Flensborgarskólanum munu vera veittar í fjárlögunum 8.500 kr., sem mundu mikið til sparast, ef skólinn hætti að starfa. En farið er fram á, að laun þessara kennara tveggja verði svo, að þeir geti lifað næsta vetur og sint þeim störfum, sem þeir eru byrjaðir á, því að hætt er við, að ekki dugi skemri tími fyrir þá að bíða eftir að fá annað að gera, sem er við þeirra hæfi. Jeg hefi látið prenta sem greinargerð fyrir tillögu þessari brjef frá Ögmundi Sigurðssyni skólastjóra, þar sem hann fer lofsorðum um þessa menn báða og mælir með því, að þingið verði við óskum þeirra. Jeg vona, að hv. þm. taki vel þessu máli og leyfi því fyrst og fremst að ganga til síðari umr.