15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (1987)

115. mál, heildsala

Gísli Sveinsson:

Þegar vjer þm., aðrir en þeir tólf, sem eru eða voru flm. tillögunnar, sáum hana, þótti oss hún allkynleg, eins og hún er orðuð og hana verður að skilja. Og sömuleiðis fanst oss það furðulegt, að allir þessir menn skyldu hafa skrifað undir tillöguna. það hefir þá og komið í ljós, að þessir menn hafa skrifað nöfn sín undir hana meira eða minna í hugsunarleysi; þeir hafa ekki áttað sig á því þegar, sem tillagan fór fram á, og enn fremur hafa þeir vafalaust ekki áttað sig á því, að tillagan var alt of mikilfeng, til þess að hægt væri að bera hana svona fram. Þessir hv. þm. hafa þá líka hugsað sig um nú; hafa nokkrir þeirra komið fram með rökstudda dagskrá, sem fer að sjálfsögðu ekki nærri eins langt og tillagan, og er það vel farið. Jeg býst auðvitað við, að hv. aðalflm. (M. T.), sem orðað hefir tillöguna, sigli sinn sjó, hvort sem þeir, sem ráðið hafa sig á skútuna með honum, segja nú slitið fylgdinni eða ekki.

Annað höfuðatriði var það, sem vakti athygli mína, og það var að flm. hafa alls ekki, eftir því sem brátt varð kunnugt, leitað ráða, hvorki til forstjóra landsverslunarinnar, landsstjórnarinnar eða innflutningsnefndarinnar. Það hefir þá líka komið fram frá hv. landsstjórn, og styðst hún við álit verslunarforstjóranna, að hún sje andvíg tillögunni og telji hana að minsta kosti gersamlega þýðingarlausa, ef ekki blátt áfram skaðlega, væri eftir henni farið út í æsar. Eftir ræðu hv. aðalflm. (M. T.) fyrir tillögunni er komið svo, að hún er orðin að engu, já, blátt áfram „húmbúg“, og hefir það verið staðfest af orðum hæstv. forsætisráðherra. Því að ef nokkur skynsamleg meining á að leggjast í orðalag þessarar till., þá yrði það að vera það, að landsstjórnin taki svo fljótt sem auðið er alla heildsöluverslun landsins í sínar hendur, og að hún innleiði blábera einokun á vöruflutningum hingað. Það er kunnugt, að landsverslunin hefir, svo sem nú, einokun á nauðsynjavörum, og hún hefir heimild til að taka, samkvæmt gildandi lögum, þegar þörf krefur, verslunina í sínar hendur. Þegar nú þess er gætt, að landsverslunin hefir þessa heimild með lögum, þá skyldi maður ætla, að ekki væri þörf á þessari till., nema ef það ætti að vera ætlun hennar að knýja stjórnina nú þegar til þess að innleiða einokun á þessum vörutegundum, sem till. kallar þurftarvörur, eða með öðrum orðum, að till. væri fram komin til þess að herða á lagaákvæðunum.

Svo er það auðvitað athugavert við þessa till., eins og hæstv. forsætisráðh. tók fram, að hún er borin hjer fram sem einföld áskorun frá sameinuðu þingi, og í ályktunarformi, í staðinn fyrir í lagaformi, ef henni væri ætlað að komast í framkvæmd.

En nú hefir hv. aðalflm. (M. T.) með skýringum sínum „reducerað“ till. „in absurdum“, sem kallað er, það er að segja gert hana að bláberu „húmbúgi“. Og er því síst að furða, þó að augu meðflm. hafi opnast, svo að þeir nú koma fram með dagskrá, til þess að eyða málinu. Og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefði ekki þurft að reifa þessa aðferð þeirra með svona mörgum orðum, því að það lá í augum uppi, að þetta urðu þeir að gera, til þess að komast hjá því að greiða atkv. móti till.

Það voru nokkur ummæli, sem hv. aðalflm. (M. T.) ljet falla, sem eru þannig vaxin, að þau geta ekki staðist. Jeg nenni ekki að tína þau öll til, því yfirleitt var ræða hans að meiru eða minnu leyti samtíningur af fullyrðingum, sem hvorki hann eða aðrir gætu staðið við. Hann gat þess, að þau mótmæli, sem kæmu fram frá kaupmönnum utan af landi, hafi verið pöntuð, og vildi hann telja það stórkostlega goðgá. Jeg skal að vísu ekkert um þetta segja, en jeg get hugsað mjer, að gangur málsins hafi verið sá, að þegar till. kom fram, hafi kaupmenn, sem aðra, rekið í rogastans, út af þeirri bíræfni, sem kom fram í henni. Og jeg sje ekki neitt ósæmilegt í því, að þeir hafi látið stjettarbræður sína, sem þeir standa í sambandi við úti um land, vita af þessu, og beðið þá um að láta álit sitt uppi um það, hvernig þeim litist á þetta. Nú hafa kaupmenn hjer í bænum og verslunarráð haldið fundi með sjer og mótmælt till., og mótmæli hafa líka komið frá mönnum utan af landi, og jeg sje ekki annað en að þetta hafi verið sjálfsagt af þeim. Jeg get ekki heldur rekið augun í það, að þetta hafi verið nein ósvinna gagnvart þinginu, því að jeg tel það ekki nema heppilegt fyrir það að fá þessar eða aðrar upplýsingar hjá mönnum, sem vit hafa á. En auðvitað er þetta ekki sem ákjósanlegast fyrir þá menn, sem vilja „tromma“ gegnum þingið viti firtum till. í einum fleng. Auk þess bjóst jeg ekki við, að þessi hv. þm. (M. T.) mundi fara svo hörðum orðum um þetta athæfi, sem hann nefndi svo, því að það er kunnugt, að í fyrra safnaði hann mótmælum úti um land, er það kom til mála að hækka tekjuskattinn hjer á þingi.

Og þótt hann kæmist nú svo að orði, að hagsmunir einstakra manna mundu hafa legið á bak við þessar „pantanir“ og að þær væru þaðan sprottnar, þá var það líka svo, að bæði hann og aðrir, sem pöntuðu mótmælin á síðasa þingi, voru einmitt grunaðir um þetta sama.

Hv. aðalflm. (M. T.) taldi það ekki felast í till., að til þess væri ætlast, að landsverslunin tæki í sínar hendur alla heildsölu á þessum umræddu vörutegundum. Hún færi ekki fram á annað en það, að landsverslunin hefði þær á boðstólum, til þess að fylla í skörðin, þar sem þess þyrfti og þegar þess þyrfti. Það væri ætlunin að láta heildsalana vinna að því, eins og áður, að útvega þessar vörur og líklega dreifa þeim út um landið. Ef þetta hefði verið tilgangurinn með till., þá er alveg óskiljanlegt, að hún skuli vera orðuð eins og hún er. Þá hefði hún ekki átt að vera til annars en að skora á landsstjórn eða landsverslunina að birgja landið upp að þessum vörum. Jeg hygg, að þessi skýring, sem alls ekki fær staðist eftir orðalagi till., hafi ekki komið upp fyr en eftir samningu hennar.

Eitt var það, sem kom fram í ræðu hv. aðalflm. (M. T.), að landsverslunin sje ekkert annað en landskaupfjelag, sem takist á hendur að útvega landsbúum þær vörur, sem þeir þurfa að brúka, fyrir þeirra eigin reikning, og víst líka til þess að draga úr þeim gróða, sem einstakir kaupmenn hafa af því að versla með þessar vörur. Ef hugsunin er hugsuð til enda, þá ætti landsverslunin að vinna að því að útrýma kaupmönnunum að lokum. En þetta er alls ekki rjett. Þessi misskilningur byggist á röngum ályktunum eða rangri athugun á fyrirkomulagi verslunarinnar, ef þessari staðhæfingu er ekki beinlínis slegið fram gegn betri vitund. Landsverslunin er að eins kaupmaður, — hefir aldrei verið annað og getur aldrei orðið annað. Þeir, sem segja, að landsverslunin hljóti að vera eitthvað annað en kaupmaður, þeir eru furðu fáfróðir um það, hvað einkennir kaupfjelög og kaupmannaverslun. Þetta sýnir, að þeir, sem samið hafa þessa till. og ráðast í að koma fram með hana, kunna ekki að gera greinarmun á þessu tvennu. Enda sýnir till. það sjálf, að hún byggist ekki á neinni þekkingu á verslunarmálum.

Þá sagði hv. aðalflm. (M. T.), að landsverslunin þurfi að safna í sarpinn. Það er ekkert móti vegi, að landsverslunin græði, ef kostur er, því að hún getur hæglega tapað síðar meir. Hún hefir meira að segja tapað svo stórkostlega, sem ekki eru dæmi til um nokkra verslun í þessu landi. Þó reikningar hennar hafi verið þannig upp gerðir við síðustu áramót, að svo teljist, sem hún hafi grætt nálega 800.000 kr., þá þurfti sá gróði ekki að vera nema á tveimur vörutegundum, — kolum og salti. Verslunin græddi fyllilega þessa upphæð á þessu tvennu, svo að allur gróðinn á öðrum vörutegundum var enginn, eða minni en enginn. Því er ekki ástæða til að ætla, að verslunin græði fremur, þótt hún hafi fleiri vörutegundir í takinu. En það, að ekki hefir orðið gróði yfirleitt á öðrum vörutegundum en þessum tveimur, sýnir hve mikil skakkaföllin hafa verið. Því að þrátt fyrir alt hefir verslunin oft og einatt verið með verðlag ofar en kaupmenn. Að vísu hafa vörur verið seldar tiltölulega líku verði úti um land, en vöruverðið hefir frá upphafi verið svo hátt, að kaupmenn hjer hafa getað hækkað verð á sínum vörum í skjóli þess. En hverjir hafa grætt á þessu fyrirkomulagi?

Hv. aðalflm. (M. T.) sagði, að þessi till. ætti að verða til þess, að landsverslunin gæti lagt minna á vörur sínar. Ef hún ætti að leggja minna á en hún hefir gert, þá ætti hún alls ekkert að græða. (M.T.: Jeg sagði, að hún gæti þá lagt minna á nauðsynjavörur). — Á nauðsynjavörur ? Það má nú kalla flestar vörur nauðsynjavörur, því varla ætlast hv. þm. (M. T.) til, að landsverslunin fari að flytja óþarfa glingur, til að græða á. Og það er undir atvikum komið, á hvaða vöru er lagt.

Nú er eftir ein aðalhliðin á þessu máli, sem jeg ætla að koma að að lokum. Hv. aðalflm. (M. T.) áleit, að með þessari till. væri það unnið, að hægra væri að hafa eftirlit með verðlagi á ýmsum varningi, ef landsverslunin verslaði sjálf með þær vörutegundir. Jeg get ekki sjeð, að þetta eftirlit sje á neinn hátt hægara, ef landsverslunin á ekki að taka að sjer verslun með þessar vörutegundir nema að nokkru leyti, þegar hún hefir ekki alla verslunina í sinni hendi, eins og helst virtist vera meining í, frá sjónarmiði hv. aðalflm. (M. T.).

Svo er enn nokkuð, sem útilokar, að ástæða hefði verið til að semja þingsályktunartill., til þess að herða á eða styðja að fullkomnara eftirliti með verðlagi eða innflutningi. Það eru til ákvæði í lögum frá 1. febr. 1917, sem heimila landsstjórninni að taka í sínar hendur alla verslun landsins, ef þörf gerist, og í lögum frá þessu þingi eru ákvæði um það, að landsstjórnin megi ákveða, hve mikið skuli lagt á útlenda vöru. Um dreifingu á innfluttum vörum um landið er það að segja, að landsverslunin hefir algerlega eða eingöngu í höndum innflutning á öllum nauðsynjavörum, hlýtur að hafa hann, samkvæmt samningunum við Breta. Innflutningsnefnd er enn fremur fengið í hendur að annast um dreifingu á öðrum vörutegundum um landið. Hvað á þá að segja um það, að svona till. sje komin fram til þess að ljetta eftirlit með verðlagi á vörum og „regulera“ dreifingu þeirra um landið? Þar sem skýr lagaákvæði eru til, þá þarf enga till. til þess, enda væri hún í því efni gagnslaus.

Sú heimild, sem landsstjórninni var gefin í lögunum í fyrra, til þess að taka í sínar hendur alla verslun landsins, var miðuð við það, að hún gerði það þegar þörf gerðist. Landsverslunin er til orðin af þörf. Hún varð til í upphafi af þörf, hún hefir haldið áfram og fært út kvíarnar af þörf, og það dettur engum í hug að halda því fram, að hún eigi vera til af öðru en þörf, eða halda áfram lengur en þörf gerist. Á þá nú að fara að samþykkja till. um það, að landsverslunin taki í sínar hendur verslun á vörutegundum, án þess að brýn þörf sje til? Jeg fyrir mitt leyti segi nei. Og jeg veit ekki til þess, að ein einasta rödd hafi heyrst, sem fer fram á þetta, fyr en þessi till. kemur. Eins og margsinnis hefir verið tekið fram hjer í þessum umr., hefir landsstjórnin heimildina svo fulla, sem ástæða er til að hún hafi hana, — svo fulla, sem nokkurt vit er í að láta hana hafa hana.

Að lokum vil jeg leyfa mjer að benda á það, að ef landið á að taka upp einokun á öllum vörum, sem hlýtur að hafa verið ætlun tillögumanna, ef nokkurt vit eða meining á að geta verið í tillögunni, eins og hún er orðuð, þá verður að gera ráð fyrir því fyrst og fremst, að landssjóður hafi allmikið veltufje handbært. Til þess þarf hann að hafa, — ekki nokkur hundruð þúsund, heldur tugi miljóna á reiðum höndum, og mjer er ekki kunnugt um það, að þessar miljónir sjeu til taks. Jeg er hræddur um, að háttv. aðalflm. (M. T.) hafi ekki leitað upplýsinga um það hjá landsstjórninni eða landsversluninni, hvort hægt væri að ná í fje. Svo er í öðru lagi meginreglan þessi í verslunarmálum um heim allan, nú á þessum tímum: Vörurnar verður að fá, þegar mögulegt er og þar sem mögulegt er. Og það verður að neyta allra meðala, til að koma þeim heim. Það hefir hvergi veitt af því, að hafðar væru úti allar klær, til þess að náívörur í öðrum löndum og flytja þær heim. Það hefir ekki veitt af því í neinu landi, að heildsalarnir beittu allri sinni orku, öllu sínu fjármagni og öllum sínum verslunarhyggindum til þessa.

Hvaða vit eða trygging er þá í því fyrir oss Íslendinga að ætlast til þess, að landsstjórnin ein fái orkað þessu? Það er engin trygging fyrir því, að henni takist að birgja landið upp af því, sem það þarf. Meira að segja bendir margt til þess, að landsstjórnin geti ekki fljótlega gert sjer það kleift, og mjög vafasamt, að hún geti það nokkurn tíma.

Jeg verð nú að álíta, að ekki geti komið til mála, að þessi þingsályktunartillaga geti náð samþykki þingsins. Það sýnir líka það, að fram komin er rökstudd dagskrá, frá sumum þeirra manna, sem með tillögunni voru í upphafi. Að vísu verð jeg að líta svo á, að þessi rökstudda dagskrá sje allsendis óþörf, og engin ástæða til að aðhyllast hana, heldur hreint og beint að fella tillöguna. En jeg hefi hlerað, að fleiri dagskrártillögur muni vera á leiðinni, sem ef til vill má greiða atkvæði; læt jeg hjer við sitja að sinni.