15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (1988)

115. mál, heildsala

Magnús Pjetursson:

Jeg skal ekki lengja mikið umr., en út af þessu, sem fram hefir komið, vildi jeg gera ofurlitla athugasemd. Það er þá fyrst út af ræðu hv. aðalflm. (M. T.). Mjer finst það vaka fyrir honum, eftir því sem honum fórust orð, að þessi tólf manna till. væri aðallega fram komin til þess að varna því, að heildsalarnir græddu mjög mikið í framtíðinni, því að þeir væru „bólgnir af stríðsgróða frá undanförnum árum“. Jeg get nú ekki skilið þetta, eftir þeim hugsunargangi, sem fram kom hjá hv. aðalflm. (M. T.), því að hann var að tala um, að landsverslunin þyrfti að taka þessa vöru í sínar hendur, til þess að fá ágóðann sjálf, svo að hún gæti verið við því búin að tapa þegar stríðið hætti. Mjer finst, að það mætti snúa þessu dálítið við, í fullu samræmi við hugsanagang hv. flm. (M. T.), sem sje þannig, að hann væri hjer að bera þetta fram fyrir heildsalana til þess, að þeir töpuðu ekki, eða að þeir þyrftu ekki að eiga það á hættu að tapa neinu, þegar varan fjelli í verði, svo að þeir mistu ekkert af þeim gróða, sem þeir þegar hefðu fengið. Annars er það nú komið í ljós í umr. um þessa till., að hún er bæði hvatvíslega og ranglega fram komin; hæstv. forsætisráðherra benti á, að það er algerlega rangt að bera slíka till. sem þessa fram í sameinuðu þingi, þegar ekki er hægt að athuga hana í nefnd, en sjerstaklega stendur það þó ómótmælt, að það er ekki hægt að koma með þetta í þingsályktunarformi, því eins og hæstv. forsætisráðherra tók svo greinilega fram, er ekki hægt að breyta lögum með þingsályktun. Jeg býst þess vegna við, að hv. flm. hafi ekki athugað, hvað var innifalið í lögum nr. 5,1. febr. 1917, þegar þeir báru fram þessa till.

Jeg verð líka að taka undir með hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að jeg get heldur ekki felt mig við þessa rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, því að hún er of skyld till., og þar sem það er nú upplýst, að bæði landsstjórnin og forstjórar landsverslunarinnar hafa haft á móti þessari till., og landsstjórnin meira að segja sagt, að þótt till. yrði samþykt, þá yrði ekki hægt að framfylgja henni, og þegar það hefir líka sannast, að það þarf ekki neina nýja heimild til þess að geta framkvæmt alt þetta, þá mun vera nóg að vísa að eins til þessara laga, sem áður voru nefnd, en á hinn bóginn er ekki rjett að fella till., því að það mætti kann ske skilja svo, að þingið væri á móti því, að landsstjórnin gerði eitthvað í þessa átt, ef til þyrfti að taka. Því hefi jeg leyft mjer að koma fram með svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Með því að landsstjórnin hefir þegar, samkvæmt lögum nr. 5, 1. febr. 1917, og nýlega samþyktum lögum, nægilega heimild til þeirra framkvæmda, sem till. fer fram á, þá álítur Alþingi hana óþarfa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.