15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (1990)

115. mál, heildsala

Flm. (Magnús Torfason):

Hæstv. forseti fann ástæðu til að vita það, að jeg sagði eitthvað á þá leið, að heildsalar hafi gert tilraun til þess að fá þm. til að bregðast skyldu sinni við þjóðina. Jeg hygg, að forseti hefði ekki gert þetta, ef hann hefði vitað, að jeg hefi orðið fyrir móðgun, eigi að eins í orði, heldur og líkamlegri móðgun. Og ef jeg segði frá öllu því, sem jeg veit um, að unnið hefir verið móti þessu máli hjer í þinginu, mundi forseta ekki finnast ástæða til að vita jafnvæg orð. Annars mun hæstv. forseti ekki hafa heyrt það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að till. væri „bíræfnisleg“.

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. Snæf. (H. St.), fremur en öðrum fulltrúum kaupmanna á þingi; alt, sem þeir segja, er margþvælt og rekið ofan í þá hvað eftir annað. Hann talaði um pöntun mótmæla. Jeg hefi ekki borið neinum þm. það á brýn; jeg talaði að eins um heildsala og ekki aðra.

Hv. sami þm. (H. St.) var að tala um, að lög um álagningu á vörum nægðu til þess að gera verðjöfnuð. En jeg get fullyrt það, eftir verslunarfróðum manni, að besti og eini ábyggilegi verðjöfnuðurinn sje, að nægar vörubirgðir sjeu til í landinu.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að aðalástæðan til þess, að hann hvarf frá till., hafi verið sú, að fje vantaði til vörukaupa. En hann gleymir, að till. endar á orðunum: „eins fljótt og við verður komið“. Með þessum orðum er sleginn fullur varnagli, að því er snertir fjárskort og aðrar tálmanir.

Hæstv. forsætisráðherra og fleiri hafa talað um það, að fljótráðið hefði verið að senda till. í sameinað þing. Til þess er að svara, að gert var ráð fyrir, að till. kæmi ekki til umr. fyr en löngu eftir að hún kom fram, til þess að þm. gætu borið sig saman. Við höfum líka bjargráðanefndir hjer í þinginu. Ef þær litu svo á, að till. væri athugaverð, var skylda þeirra að athuga hana. Annars get jeg ekki kannast við, að till. hafi verið fljótráðin. Það er langt síðan mjer datt í hug að flytja hana. Og ástæðan til þess var sú, að jeg er ekki í neinum vafa um, að eftir því sem lengra líður, verður æ meiri skortur á þessum vörum og því meiri nauðsyn á að landsstjórnin afli þeirra, áður en þær verða svo dýrar, að úr öllu hófi keyri.

Þá hefir verið talað um, að verið væri að spilla samvinnu milli kaupmana og landsverslunarinnar. Jeg hefi aldrei gert neina tilraun til að spilla þeirri samvinnu, og jeg get ekki skilið, að nokkur geti borið mjer slíkt á brýn. Landsstjórnin hefir líka girt sig kínverskum kaupmannamúr. Þeir eru nú „8 í kringum kónginn“. Þess vegna er engin ástæða til að ætla, að ekki yrði altaf tekið nægilegt tillit til verslunarstjettarinnar.

Jeg get ekki ljeð dagskrá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) fylgi mitt. Hún fer að nokkru leyti lengra en þingsál., en líka skemra að sumu leyti. Hún gerir ráð fyrir, að landsstjórnin taki í sínar hendur kaup á öllum þurftarvörum. (S. St.: „Öllum“ er strikað út). Það var þó mikið! Flm. hafa þá athugað það, að þetta var vitleysa. En svo er annað. Í dagskrá þessari stendur: „ef nauðsyn krefur“, en lögunum: „ef á þarf að halda“. Það er mun linara, svo að verið er að draga úr stjórninni að nota lögin frá 1. febrúar 1917. Mjer kom það kynlega fyrir sjónir, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þm. V.-Sk. (G. Sv.) og þm. Stranda. (M. P.) skuli bera svo ákaflega mikið traust til röggsemdar stjórnarinnar; því að eitt, sem henni hefir verið fundið til foráttu meðal annars, er, að hún hafi farið heldur á seinagangi. Og þessi till. er sjerstaklega fram komin til þess að hotta svolítið á hana.

Það hefir verið sagt, að landsverslunin hafi ákveðið að versla ekki með annað en nauðsynjavöru. Jeg veit, að þetta er rjett. En þess ber að gæta, að bresku samningarnir voru ekki komnir, þegar þetta var ákveðið.

Jeg verð að vísa því tali frá mjer, að hjer sje verið að ofsækja verslunarstjettina. Því fer fjarri, að þetta sje gert, enda kom það skýrt fram í ræðu minni, að jeg óska ekki að taka fje af henni, fremur en nauðsyn krefur.

Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að till. væri óþörf, því að með lögum frá 1. febr. 1917 væri stjórninni gefin fullkomin heimild til að gera hið sama og till. heimilar. Þetta er rjett þegar um er að ræða einokun, en ekki þegar á að byrja þessa nýju stefnu. Þá átti við að sæist, hver þingviljinn væri. Jeg vildi, að ekki yrði beðið með þetta þangað til stjórnin neyddist til þess.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði um það, að þetta hefði ekki verið borið undir landsverslunina. En svo vill vel til, að jeg hefi margtalað um þetta við verslunarfróða menn og menn í landsversluninni, og gat jeg ekki skilið á orðum þeirra, að þeir væru móti till. í þessa átt. Þar að auki talaði jeg við einn mann í innflutningsnefndinni. Annars er ilt fyrir mig að skýra nánar frá viðtali mínu við þessa menn. þetta voru „privat“samtöl og ekki leyfilegt að skýra frá samtali okkar.

Háttv. sami þm. (G. Sv.) sagði, að landsverslunin ætti að haga sjer sem kaupmaður, og að það yrði að skoða hana sem slíka. Jeg verð að mótmæla þessu sem stórhættulegri villu. Kaupmaður setur upp sína verslun til þess að græða. Aðaltakmark hans er að græða. Eftir staðhæfingu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ætti þetta að vera aðaltakmark landsverslunarinnar, og ef hallaðist hjá henni, ætti hún að kasta öllu frá sjer, eins og sumir kaupmenn gerðu í stríðsbyrjun, er þeir seldu skipakost sinn. En það er svo langt frá því, að landsverslunin geti hlaupið af hólminum undir eins og tvísýnt verður um gróðann, að hún er einmitt skyld til að halda versluninni áfram.

Jeg get borið um það af eigin reynslu, að landsverslunin selur ekki dýrar en aðrar verslanir. Á Ísafirði hefir verið bæjarverslun með landsverslunarvörur, og mjer er kunnugt um, að fólk hefir sælst til að versla fremur við landsverslunina, af því að hún hefir selt vörur sína lægra verði en kaupmenn.

Þá hefir verið talað um það, að mikið fje þyrfti til þess að reka verslunina. Jeg skal ekki dæma um það. En þess ber að gæta, að talsvert fje sparast við það, að ýmsar vörur fást alls ekki, og þess vegna hafa bankarnir meira fje undir höndum en ella. Þeir gætu því fremur hjálpað.

Mjer þykir hátt farið, ef landsverslunin hefði miljón í veltu, því vörur þær, sem hún selur, ættu að ganga út nær því strax, og því þarf hún ekki eins mikið veltufje. En ef til vill líta aðrir svo á, sem rjettast væri,að hún seldi ekki strax vörubirgðir sínar, en það er fyrirkomulagsatriði.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) litu svo á, sem landsverslunina vantaði þekkingu til að annast innkaup á hinum ýmsu þurftarvörum landsmanna. Jeg ætlaðist aldrei til, að stjórnarráðið sjálft annaðist þetta, heldur landsverslunin, og jeg hjelt, að landsverslunin, með þeim kaupmannahring, sem myndar hana, forstöðumönnum verslunarinnar sjálfrar og innflutningsnefndinni, hefði fullkomið verslunarvit, svo að þeir væru fullfærir til að kaupa skinn eða húðir, alveg eins og hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) var að tala um, og auk þess hafa þeir þeim kröftum á að skipa, sem kunnugastir eru versluninni í Ameríku, en þar er verslunin sennilega mest nú orðið.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að þetta væri gert til að koma á landsheildsöluverslun eftir stríðið, en það er fjarri öllu lagi. Þetta er að eins stríðsráðstöfun. Sami hv. þm. (B. K.), var líka að tala um það, að með þessu væri verið að ráðast á kaupmannastjettina. Það eru mjög órjettmæt ummæli. Jeg veit, að á Ísafirði t. d. hafa einn eða tveir kaupmenn haft örlítil bein viðskifti við Ameríku, hinir kaupmennirnir hafa orðið að kaupa vörur sínar hjer í Reykjavík, stundum hjá útsölum.

Þessi sami hv. þm. (B. K.), talaði einnig mjög fagurlega um það, að til þess að kaupmenn gætu kept við aðra, þá yrðu þeir fyrst og fremst að kunna að kaupa á rjettum tíma. En síðan stríðið skall á þá er þessi „rjetti“ tími að kaupa sem fyrst — kaupa strax, og tap á öllum drætti, og það, sem landsversluninni hefir mest verið álasað fyrir, er það, hversu hún hefir dregið kaup sín. Þannig voru skipakaupin ekki gerð nógu fljótt, og átti hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sinn fulla þátt í því, að það var dregið á langinn og landssjóður beið af stórtjón.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði enn fremur, að það væri aðaltilgangur till. að minka gróða stórkaupmannanna. (B. K.: Jeg sagði það ekki!) Jú, — en það eru getsakir og fjarstæða, sem ekki nær nokkurri átt. Tillagan er komin fram af því, að kaupmenn hafa ekki birgt landið nægum þurftarvörum, og hafa þeir þó selt varning sinn við okurverði. (B. K.: Vörurnar fást ekki.) Það er ósannað, að svo sje, og það hefir enn fremur komið fram, að landsverslunin hefir getað fengið vöru, þótt einstakir kaupmenn hafi ekki getað það. Ljóst dæmi þess er sykurinn frá Danmörku; ekki gátu kaupmenn fengið hann.

Aðaltilgangur tillögunnar er sá, að landsstjórnin og landsverslunin dragi ekki að birgja landið upp af nauðsynlegum þurftarvörum, og það verður að gerast áður en verð þeirra er komið upp úr öllu hófi. Og ástæðan til að jeg ber fram till. er sú, að jeg vil taka af mínum herðum alla ábyrgð á því, ef svo verður ekki gert. Verði till. feld, þá er ábyrgðin komin yfir á þá hv. þm., er það gera, og jeg öfunda þá ekki af því verki þeirra.

Fleiru þarf jeg ekki að svara að sinni, en jeg hygg, að það sje ekki ofsögum sagt af því, hvað heildsalamir halda vel utan að sínu í þessu máli.

Þegar hjer var komið, kom fram ósk um, að slitið yrði umræðum, þá er talað hefðu þeir, er nú hefðu beðið sjer hljóðs, frá þessum þm.: E. Árna., P. O., J. J., G. Ó., M. P., M. G., B. St., M. Ó., S. S., St. St.