15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (1995)

115. mál, heildsala

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil að eins gera stutta athugasemd, einkum vegna þess, að jeg hefi ekki haft tækifæri til að hlusta á umræðurnar, og því síður til að taka þátt í þeim.

Hv. flm. (M. T.) gat þess, að hann hefði átt tal við fleiri eða færri úr landsversluninni um till., og vil jeg í tilefni af því lýsa því yfir, að jeg minnist þess ekki, að við höfum borið saman ráð okkar um þetta mál, eða jeg hafi nokkurn dóm á það lagt.

Það er fjarri því, að jeg telji mál þeirra, sem telja till. þessa illa og óviðeigandi, vera rjett, en álit mitt liggur skriflega fyrir, annaðhvort hjá bjargráðanefnd hv. Nd. eða hjá landsstjórninni, svo jeg þarf ekki að fara að útskýra það nánar.

Þegar forstjórar landsverslunarinnar voru spurðir að því, hvernig þeir teldu haganlegast fyrirkomulag á aðflutningi og sölu nauðsynjavöru, þá var það samhljóða álit þeirra, að heppilegast myndi, að landsstjórnin hefði ein sölu og aðflutning á kornvöru og sykri, en ljetu jafnframt í ljós, að heppilegast myndi, að kaupmenn sæju um aðrar vörur, að svo miklu leyti, sem þeir væru færir um það. Þetta er stefna forstjórnar landsverslunarinnar, það er auðgert að sanna.

En þetta gerir ekki það að verkum, að jeg telji nokkra fjarstæðu, þótt þessi till. hafi komið fram, því nú vantar margar vörutegundir, þótt engar hindranir hafi verið lagðar í veginn, frá hálfu þings eða stjórnar, fyrir frjálsa verslun, hvað þær snertir. Þetta bendir til þess, að kaupmenn hafi ekki getað birgt landið nægilega, og tilgangur till. hlýtur að vera sá, að hvetja landsstjórnina til að bæta úr þessari vöruvöntun, að meira eða minna leyti. Jeg sje því ekki á bak við till. neina alvarlega tilraun til verulegrar stefnubreytingar á verslunarfyrirkomulaginu.

Þetta er um málið alment, en jeg verð að minnast stuttlega á einstök atriði.

Jeg get ekki komist hjá því að beina orðum mínum til einstakra þm. út af smáglepsum, sem voru ekki á sem bestum rökum bygðar. En jeg skal fara fljótt yfir sögu.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hjelt því fram, að landsverslunin hafi gert mikið ógagn með því að setja svo hátt verð á vörur, að kaupmenn hefðu leiðst til að selja enn dýrar en ella. En það má sanna það, að þetta er sagt út í loftið. Landsverslunin hefir átt við miklu hærra flutningsgjald að búa en kaupmenn, sem flutt hafa með skipum Eimskipafjelagsins, og þó má segja, að henni hafi tekist að selja með svo hagfeldum kjörum, að kaupmenn hafi ekki fengið tækifæri til að selja vörur sínar með hærra verði en þeir hafa gert. Landsverslunin hefir því haldið niðri vöruverði í landinu. Þetta er sannleikurinn í málinu, og er, sem vænta mátti, þveröfugur við ummæli hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).

Þá skal jeg koma að hv. 1. þm. G.-K. (B. K.). Það yrði of langt mál að fara að eltast við allar hans fullyrðingar. Hjelt hann á lofti ýmsum furðulegum skoðunum. Jeg tel það tæpast viðeigandi að auglýsa það öllum heiminum, að fjárhagur landsins sje svo bágborinn, að það sje ekki hægt að gera nauðsynlegar bjargráðaráðstafanir. Þetta er varhugaverð yfirlýsing. Jeg verð að halda því fram, að allur vöruforði og skipastóll, sem landið á, sje fullkomlega þess virði, sem hann var keyptur. Það nær því engri átt, að það sje rjett, sem hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) var að fara með. (B. K.: Jeg get ekki svarað). Jeg man það og skal fara vægt í sakirnar, fyrst ekki er tækifæri til andsvara. Það var ekki nóg með þessa fullyrðingu. Þingmaðurinn (B. K.) hjelt því líka fram, að landið kæmist venjulega að verri kaupum en einstaklingar, að það fengi venjulega verri vörur, að það hefði ekki tök á að kaupa og selja á rjettum tíma, að þeir menn, sem gegndu kaupstörfum fyrir landið, yrðu sljórri og óduglegri en þeir, sem starfa fyrir sjálfa sig, og að útlendir kaupmenn og stórsalar myndu neita að selja landinu vörur.

Fleira en þetta þarf jeg ekki að telja. Jeg vil að eins geta þess, að fullyrðingar þessar voru gersamlega órökstuddar og sanna ekkert af því, sem þær áttu að sanna.

Jeg hefi ekki ætlað mjer að greiða atkv. með þingsál.till., þó jeg líti svona á málið. Nýlega voru samþ. af þinginu heimildarlög til að banna innflutning á sumum vörutegundum og ákveða vöruverð; jeg var á móti þessum lögum, af því jeg áleit þau óþörf; landsstjórnin hefði þessa heimild í gildandi lögum. Sömu afstöðu hefi jeg gagnvart þessari till. Jeg álít hana óþarfa, en hins vegar meinlausa.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) taldi það eitt meðal annars, sem gerði ókleift að samþykkja till., að landssjóður yrði að verja 6 miljónum kr. til síldarkaupa. Þetta er spádómur, og ekki líklegt að hann rætist. Það þarf ekki spámann til að sjá, að langlíklegast er, að landssjóður þurfi ekki að verja einum eyri til síldarkaupa; hver eyrir verði að líkindum innborgaður, þegar þarf að greiða andvirði síldarinnar.