18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (2035)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg veit ekki, hvort hv. 1. þm. Húnv. (Þór J.) samþykti þingsályktunartill. síðasta Alþingis, sem var orsök til þess, að frv. þetta kom fram. En hafi hv. þm. (Þór. J.) samþ. hana, þá minnist hann þess ekki nú, hvernig hún er orðuð og hvað hún fer fram á. Þar er um tvö atriði talað, fyrst hverjar breytingar þurfi að gera á fræðslulögunum, svo að þau geti orðið til frambúðar, og annað, eins og það stendur í þingsályktunartill., hvernig megi komast hjá að láta kennara sæta miskunarlausri meðferð. Það ætlast þingsályktunartill. til að sje gert þegar áður en menn hafi komið sjer niður á gagngerðum breytingum á fræðslulögunum.

Það getur vel verið, að þingið álíti, að þessar breytingar geti komist á öðruvísi en með lögum, en þegar hv. deild er búin að viðurkenna, að kennarar sæti, af hálfu hins opinbera, miskunarlausri meðferð, þá vill hún líklega gera eitthvað til að bæta úr því, svo að jeg vona, að frv. fái að fara í nefnd, hvað sem um það verður að öðru leyti. Það er rjett, að ef þingið hyggur, að engin kensla verði að vetri, þá getur það haft mikil áhrif á það, hvort samþykkja beri þetta frv. nú þegar, eða láta það koma til framkvæmdar þegar í stað. En, sem sagt, verulegum mótmælum átti jeg ekki von á hjá þessari hv. deild, sem samþykti þingsályktunartill. eins og hún var orðuð.

Jeg skal annars geta þess, að þeir hv. kennarar, sem reiknuðu út kostnaðinn, hafa reiknað hann heldur ríflegan. Þeir hafa t. d. gert ráð fyrir 36 kennurum við barnaskóla Reykjavíkur, í stað 32. Aukin útgjöld landssjóðs til barnakenslu yrðu þá ekki 47 þús. kr. í byrjun, heldur 40 þús. Þetta er ekkert aðalatriði, en jeg vildi að eins láta þess getið, til upplýsinga fyrir hv. mentamálanefnd.

Jeg þori ekki að segja, hvaða aðstöðu hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hefir til þessa máls, en mjer er sagt, að fram hafi komið frá honum á síðasta þingi till. til dagskrár, þess efnis, að stjórnin legði þegar fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. til laga um bráðabirgðabætur á kjörum kennara. Ef hann hefir þá ætlast til, að kjör kennara yrðu bætt með lögum, getur hann ekki verið því mótfallinn að gera það nú þegar. Það er engin ástæða til að fresta því lengur.

Annars eru menn yfirleitt svo sammála um þetta mál, að ekki er þörf að ræða það frekar á þessu stigi. Vona jeg því, að hv. deild leyfi málinu að ganga til hv. mentamálanefndar, og ræði hún það síðan í samráði við fjárveitinganefnd, svo sem venja er til um slík mál.