18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (2036)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Bjarni Jónsson:

Jeg man vel eftir þingsályktunartill. síðasta þings og því orðalagi hennar, sem var frá mjer, að kennarar sættu miskunarlausri meðferð. það er rjettmæli, því að hún hefir verið það og er. En í þessari till. var og farið fram á að rannsaka öll fræðslumálin, hversu hentugast yrði skólafyrirkomulagið, bæði um skólaskyldualdur og annað, með öðrum orðum, hvort ekki þyrfti að strika út núgildandi fræðslulög og semja önnur. Jeg vil halda fast við þetta atriði, því að jeg hygg, að margir sjeu nú orðið sammála um, að endanleg bót á fræðslufyrirkomulaginu verði ekki gerð fyr en þeirri spurningu er svarað.

En hins vegar er sjálfsagt, að skjótt sje ráðin bót á kjörum kennara, og legg jeg þar enga áherslu á, hvort skólar starfa í vetur eða ekki. Kennurum er engu betra að deyja iðjulausum en starfandi.

En í þeim ákvæðum, sem sett yrðu um bætur á kjörum kennara, yrði að taka tillit til annars þess er þingsályktunin fal sjer. En með því að samþ. þessi lög er bygt á þessu gamla kerfi, og verður það aldrei með mínu samþykki.

Jeg furða mig á brjefi fræðslumálastjóra út af þingsályktun síðasta þings, því sem prentað er sem fylgiskjal við frv. Jeg hefi ekki lesið það alt, en fljótt á litið virðist það út í bláinn og ekki koma þingsályktuninni við. En ef það á að heita úrlausn eða svar við þingsályktuninni, þá má stjórnin gera betur, því að þessi maður hefði síst átt að rannsaka málið, þar sem hann er höfundur núgildandi fræðslulaga, eða hefir ljeð þeim nafn og ábyrgð.