18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í C-deild Alþingistíðinda. (2039)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Þórarinn Jónsson:

Hæstv. forsætisráðherra hefir tekið svo í þetta mál, sem jeg muni hafa verið á móti þingsályktuninni frá síðasta þingi. En það var ekki, enda þóttist jeg ekki taka svo í málið, að ástæða væri til að ætla, að jeg sje á móti því í sjálfu sjer. En hinu hjelt jeg fram, að það væri óheppilegt, að það gengi fram nema samhliða öðrum endurbótum,sem þingsályktunin fór fram á. Og þótt það væri tekið fram um þetta atriði, laun kennara, að þeir sættu miskunarlausri meðferð, þá gat jeg ekki skilið það öðruvísi en svo, að breytingar á því ættu að vera öðrum breytingum samfara. Orð hv. þm. Dala. (B. J.) urðu og ekki skilin á annan veg, og var hann höfundur till. þeirrar, er samþ. var. En hvað viðvíkur bráðabirgðabreytingum á launum kennara, þá getur þetta frv. engan veginn skoðast svo, og þarf ekki að leiða það inn í umræður.

Mjer virðist það í sjálfu sjer ekki gera mikinn mun, eins og nú stendur, þótt þessar breytingar allar sjeu látnar bíða næsta þings, og finst miklu eðlilegra, að svo sje gert, og set jeg það sjerstaklega í samband við breytingu á takmörkum fræðsluhjeraða. Og væntanlega verða þá allar breytingar á fræðslulögunum undirbúnar frá hálfu stjórnarinnar.