18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2041)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Gísli Sveinsson:

Jeg vil leyfa mjer að segja hjer nokkur orð, vegna þess, að á síðasta þingi bar jeg fram, ásamt hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), till., sem fór í svipaða átt og till. sú, er þá var samþ.

Mjer skilst, að þetta frv., ásamt ályktunum þeim, er því fylgja frá fræðslumálastjóra, sje sú endalykt, sem till. hafi fengið og búast megi við að hún fái. Jeg get ekki skilið það öðruvísi en svo, að það, sem stjórnin hafi getað gert, sje ný hjer fram komið, og jeg tel það eðlilegt. Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að stjórnin hefði, lögum samkvæmt, leitað til fræðslumálastjóra. Jeg geri nú ráð fyrir, að hún hafi einnig leitað til einhverra annara, en þetta álitsskjal í málinu mun þó mest vera á ábyrgð fræðslumálastjórans. Jeg get nú ekki skilið, hvernig stjórnin getur haldið áfram að spyrja þennan mann ráða, þegar litið er á þetta brjef hans, og þá einkum á það, sem stendur á bls. 29 í A-deild og hann kallar þá „niðurstöðu, er hann hafi komist að um 6 liði þingsályktunarinnar. Um fyrsta lið byrjar hann svo, „að það sje með öllu ótiltækilegt, að landsstjórnin sleppi hendinni af barnamentuninni“ o. s. frv. Gangurinn í svörunum er yfirleitt þessi, að ekki verði fallist á grundvallaratriði þingsályktunarinnar.

Nú vildi jeg fá það fram hjá hæstv. stjórn, hvort ekki sje svo, að hjer sje ekki meira fyrir hana að rannsaka. Því að sje meira að rannsaka, verður ekki hjá komist að fara þá leið, sem jeg og hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) stungum upp á, að fje sje veitt til rannsóknarinnar og nefnd skipuð til að framkvæma hana. Það þýðir ekki að skora á stjórnina að rannsaka mál, ef henni er neitað um fje til að framkvæma rannsóknina. Vjer höfum sjeð, hvert stjórnin fer, og það er ekki nema eðlilegt, að hún fari til ráðunauta sinna. Jeg skil það vel, að stjórnin getur ekki framkvæmt rannsókn þessa sjálf, enda heyrir það ekki beint undir verksvið stjórnarráðsins. Verður því stjórnin framvegis annaðhvort að fá sjer aðstoð hæfra manna, eða svo verður að líta á, sem þessu máli sje hjer með lokið. Það verður að skipa nefnd eða hætta algerlega við rannsóknina, og það hygg jeg, að hv. þm. Dala. (B. J.) geri sig ekki ánægðan með. Og við því er ekki að búast, því að ýms atriði þingsályktunarinnar eru svo mikilsverð, að nauðsyn ber til að rannsaka þau til hlítar. Fræðsluástandið hjá oss er komið í það horf, að það á ekki afturkvæmt á rjettar stöðvar nema ráð sje tekið í tíma. En með þessari rannsókn, sem hjer hefir verið gerð, er ekki sannað, að enn sje of seint að bæta úr þessu, Jeg er ekki fús á, að svona lög sje samþykt um eitt einstakt atriði, meðan ekki er gerð gangskör að því að komast að fastri niðurstöðu um alt málið í heild. Jeg er á sömu skoðun og hv. þm. Dala. (B. J.) um það, að kjör kennara sjeu algerlega óviðunandi. En hvort rjett sje að rjúka í að semja lög um þau og láta þegar koma fram sem endanlega niðurstöðu, tel jeg mikið vafamál.

Jeg er ekki á móti því, að frv. gangi til nefndar, en ekki býst jeg við, að það verði samþykt orðalaust í þessari mynd, er það nú hefir.