18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (2043)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi að eins mótmæla því, — þó frv. sje samið um laun barnakennara — að það sje óveruleg breyting á fræðslulögunum, því fræðslulögin ákveða líka laun kennaranna.

Það er verið að kvarta um, að barnafræðslan sje ekki eins góð og menn vildu óska.En er nú ekki í rauninni ofureðlilegt, að barnafræðslunni sje ekki vel fyrir komið, þegar launin, sem kennararnir fá, eru sex krónur á viku, auk fæðis? Ætli það sje völ á mjög hæfum mönnum fyrir slíka borgun, þegar óbreyttir verkamenn fá þetta 5—10 sinnum hærra vikukaup eða meira? Þess vegna var það alveg rjettmætt, þegar þingið sagði, að meðferðin á barnakennurunum væri óforsvaranleg. Ætli ólagið á barnakenslunni stafi annars ekki einatt, í sambandi við þetta, beint af því, að til kennara eru teknir menn, sem bókstaflega ekkert annað geta gert? Þeir eru jafnvel stundum teknir til að fara bæ frá bæ og kenna, til þess eins að komast hjá, að þeir þurfi að þiggja af sveitinni; þá er ekki svo óeðlilegt, að kenslan fari sumstaðar í mola.

Það, sem frv. þetta hefir sjerstaklega fyrir augum, er það, að skapa þau launakjör svo sæmileg og ábyggileg, að hæfir menn vilji gera kensluna að lífsstarfi sínu. Sje það ekki gert, þá verður kenslunni altaf mjög ábótavant, því að það, sem sjerstaklega ríður á, til þess að fræðslan komi að notum, það er góður kennari.

Jeg skal ekki tala meira um þetta að sinni. Jeg vona, að þetta frv. fái að koma fyrir hv. deild og að hún liti á sanngirniskröfu frá kennurum, eins og hún gerir frá öðrum mönnum.