16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

37. mál, hækkun á vörutolli

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi að eins gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Jeg játa það, að fjárhag landsins er illa komið. En sá er munurinn á mjer og mörgum háttv. þm. hjer í þessari deild, að mjer finst það eðlilegt, að svo sje, eins og ástandið nú er. Jeg vil því ekki leggja á neinar kvaðir, sem falla á allan almenning, án tillits til gjaldþols. Þess vegna get jeg verið með þessu frv., að það er ekki nema nokkur hluti þeirrar hækkunar, sem það fer fram á, sem kemur niður á almenningi yfirleitt. En ef fylgja á þeirri stefnu, að tvöfalda allan vörutoll, þá er það kvöð, sem legst á alla menn í landinu, því að enginn getur með neinu móti komist hjá því að kaupa einhverja aðflutta vöru. Þessi kvöð legst sjerstaklega hart á þann hluta þjóðarinnar, sem erfiðast verður úti, það er að segja á þá, sem búa við sjávarsíðuna eða í bæjum og kauptúnum og ekki hafa neinn landbúnað að styðjast við. Mjer er það í raun og veru móti skapi að hækka vörutollinn, þótt ekki sje nema á 2 flokkum vörutegunda, en jeg er algerlega mótfallinn tillögu nefndarinnar, að hækka allan vörutoll.

Þótt við sjeum ekki að berjast með vopnum, þá verðum við samt að vinna eftir skipun ófriðarþjóðanna, og við verðum að sitja og standa eins og þær vilja. Á okkur hvílir því alt böl styrjaldarinnar, nema sjálft mannfallið. Að vísu hvílir ófriðurinn ekki eins þungt á okkur og á stríðsþjóðunum sjálfum, en allþungt samt og álíka þungt og á öðrum hlutlausum þjóðum. Það er því ekki til neins að fárast um það, þótt landssjóður beri halla á þessum tímum. Það lán, sem hann þarf að taka, til þess að standast þennan halla, er herlán, sem verður að veltast yfir á komandi kynslóðir. Þær geta ekki haft neitt á móti því að greiða þær skuldir, sem nú verða til, því að þeir, sem þá lifa, eiga það þó okkur að þakka, að þeir verða til. Og þeir munu líka þakka okkur fyrir það, ef við getum fleytt þjóðinni óskemdri gegnum þessa erfiðu tíma, þótt þeir verði eitthvað að borga fyrir það. Jeg tel því algerlega rangt að koma fram með nokkur tekjuaukafrv., eins og stendur.