03.06.1918
Neðri deild: 38. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (2050)

12. mál, tekjuskattur og lóðargjöld í Reykjavík

Pjetur Jónsson:

Jeg tel mál þetta, sem nú er til umræðu, mjög mikilsvert. Álít frv. óefað spor í rjetta átt, og gæti það ef til vill orðið til þess að brjóta ísinn fyrir öðru og betra skipulagi á skattalöggjöf hjer á landi.

En þó hefði áður þurft að setja almenn lög fyrir bæjar- og sveitarfjelög, eins og var hugsun skattamálanefndarinnar 1908, lög, sem kveða nánar á um skattstofnana, setja hæfilegar skorður fyrir því, að misboðið verði ekki gjaldþoli einstaklinganna, og koma í veg fyrir, að ekki verði of mjög þrengt sviðið fyrir landssjóð til almennrar skattaálögu. Og loks ættu þau lög að mæla nákvæmlega fyrir um eðlilega Og sanngjarna skiftingu gjaldþolsins á milli hinna einstöku bæjar- og sveitarfjelaga, þegar sami gjaldþegn geldur útsvar á fleiri en einum stað, annaðhvort beint, eða þá óbeint sem þátttakandi í fyrirtækjum. Þetta sem þau frumatriði, sem hefði átt að slá föstum, áður en þessu máli var hreyft.

En engin von er, að Reykjavík geti beðið eftir slíkum allsherjarlögum, ekki lengra en málið er á veg komið. Enda býst jeg við, að hún þoli illa biðina.

En þá er þeim mun meiri vandi fyrir oss nú, er þetta frv. á að gera úr garði, að gæta þess, að það riði eigi í bág við ákvæði nje anda gildandi laga. Af því myndi skapast hið mesta misrjetti og ruglingur. Og jafnframt verður að gjalda varhuga við því, að slík lög riði bág við frumtök þau, sem jeg drap á að allsherjarskattalög fyrir bæjar- og sveitarstjórnir þyrftu að hafa.

Þetta frv. felst jeg á í höfuðatriðunum, að leggja tekjuskatt á í bænum og heimta gott og ábyggilegt tekjuframtal og leggja lóðargjald á eftir því, sem lóðirnar eru virtar með hæfilega löngu millibili. Að þessu leyti er jeg samþykkur frv. En í sumum smærri atriðum, sem þó eru allveruleg, tel jeg frv. athugavert frá því sjónarmiði, sem jeg hefi þegar lýst, einkum þar sem það hefir ekki að baki sjer tilsvarandi almenn skattalög.

Mun jeg nú nefna nokkur atriði, sem jeg hefi rekið augun í. Jeg hefi átt tal við einn hv. nefndarmann um þau. En nefndin vildi eigi sinna því, er jeg fór fram á að breytt yrði. Hefi jeg því neyðst til að kynna mjer málið rækilegar en jeg hefði gert ella. Jeg hefi ekki fengist við þessi mál síðan 1908, er jeg átti sæti í skattamálanefndinni, og eru nú talsvert farnar að ryðga í þeim efnum þær upplýsingar, er jeg fjekk þá, voru að vísu altaf litlar, og helst um skattalöggjöf í öðrum löndum og þá einkum Norðurlöndum. (G. Sv.: Skattalöggjöfinni í þeim löndum hefir verið breytt síðan). Þær breytingar voru líka að fara fram um þær mundir, og var það eigi síst þær, sem við kyntum okkur.

Skal jeg nú víkja að skatti á hlutafjelögum. Eftir frv. eiga þau að greiða skatt af öllum ágóða sínum, að frádregnum lágmarkspeningavöxtum. Þetta kemur strax í bága við núgildandi skattalög fyrir landið. Í 8. gr. laganna frá 14. des. 1877, um tekjuskatt, segir svo:

„Hlutafjelög, verslunarfjelög og önnur slík fjelög skulu talin sem sjerstæðir gjaldendur, að svo miklu leyti sem arðurinn allur eigi rennur til einstakra manna, sem búsettir eru á Íslandi.“

Ef frumv. ríður ekki beint í bága við ákvæði laganna, þá er þó áreiðanlega farið í bága við anda þeirra, þar sem ekki má samkvæmt þeim leggja skatt á þann hluta af ágóða fjelaganna, sem greiddur er í arð til hluthafa. En hjer er og tvöföld gjaldálaga á sama gjaldstofn, og með því gengið á rjett annara sveitar- og bæjarfjelaga.

Það getur vel verið, eftir hinu núverandi fyrirkomulagi á aukaútsvörum hjer í bæ og víðar, að sjálfsagt þyki að leggja skatt á þann arð, er fjelög greiða hluthöfum, hjá fjelögunum sjálfum. En það er á móti anda laganna, að löggjafarvaldið heimili sveitar-og bæjarfjelögum þá skattálöguaðferð, sem það leyfir ekki landssjóði.

Mjer virðist nú hart að gengið að leggja tvöfalt gjald á sama gjaldstofninn. Jeg skal taka lítið dæmi. Setjum svo, að jeg eigi t. d. 1.000 kr. hlut í einhverju fjelagi. Fjelagið hefir í ágóða 10 af hundraði, umfram peningavexti, og falla þá 100 kr. í minn hlut, áður en bæjarskatturinn er dreginn frá. Eftir þessu frv. getur sá skattur orðið nærri því 14 af hundraði, en eftir till. nefndarinnar um 20 af hundraði — jeg tek hjer í dæminu hámark skattsins. Jeg fæ því að eins 80 eða 86 kr. í arð, en hitt gengur til bæjarins, — sá skattur, sem fjelögin greiða í bæjarsjóð, dregst sem sje frá arði hluthafanna. En svo geld jeg á Húsavík, segjum 10% af hreinum tekjum í útsvar, og þá einnig af þessum tekjum. Jeg er því í rauninni skattskyldur á tveim stöðum af sama gróðanum.

Þetta mun löggjafarvaldið hafa sjeð á sínum tíma, og því hefir það eigi leyft landssjóði að leggja skatt á greiddan arð hlutafjelaga, þar sem þær sveitir, sem hlutaðeigandi menn væru búsettir í, ættu þennan gjaldstofn. En á þá að leyfa það sveitar- eða bæjarfjelagi?

Tekjuskatturinn er einhver hinn fullkomnasti skattur til þess að hitta sannarlegt gjaldþol manna; en það er og ljóst, að hann er einhver nærgöngulasti persónuskatturinn. Því verður hann að binda sig sem mest við heimilisfang hins eiginlega gjaldanda, því að þar, sem gjaldandinn á heima, er hann bundinn mestum fjelagskvöðum, og þar ber maður helst eitthvað upp í staðinn fyrir þá skatta, sem hann leggur fram til bæjar- eða sveitarþarfa. Því virðist það eigi rjett af einu sveitar- eða bæjarfjelagi að sölsa undir sig sem mest til álagningar þann gróða, er dreifist hingað og þangað um landið. Þess vegna er sú aðferðin, sem gildandi tekjuskattalöggjöf bendir til, rjettlátust.

En þótt nú hin aðferðin sje höfð, að leggja skatt til bæjar- eða sveitarsjóðs á hlutafjárarðinn óskiftan hjá fjelaginu sjálfu, eins og gert er í Noregi og Danmörku, og líklega viðar, þá virðist sjálfsagt að hafa hann vægari, vegna þess, að menn verða að viðurkenna, að það sje eðlilegra, áð lagt sje á gróðann hjá þeirri persónu, er nýtur hans, heldur en á ópersónulegt fjelag, sem nýtur hans ekki sem slíkt, heldur dreifir honum.

Í Danmörku er hámarkið á svona skatti að jeg hygg 3%, og er hann jafnaðarskattur, sem fer ekki hækkandi. En í þessu frv. er hann stighækkandi upp í 14%, og eftir till. nefndarinnar, sem jeg fellst á að „skalanum“ til, upp í 21%, sem getur komið niður á stórum fjelögum. Með öðrum orðum, það gerir stighækkunin á skattinum, að hann kemur svo óþyrmilega niður á hlutafjelögunum og öðrum fjelögum. Hann verður tiltölulega meiri á fjelögunum, því að umsetningin er svo stór, heldur en á einstökum mönnum, er fá að eins hlut af arðinum og lenda neðarlega í skattstiganum. Jeg fellst á stighækkunarskatt á einstökum mönnum, hækkun, sem vex eftir því, sem tekjurnar fara meira fram úr sæmilegum þurftartekjum. En stighækkun, sem fer vaxandi eftir arðsumsetningu fjelagsstofnana. tel jeg ranga. Litlu fjelögin geta gefið hverjum hluthafa eins mikinn arð og stóru fjelögin. Tökum dæmi, tvö fjelög, annað lítið, en hitt stórt. Litla fjelagið hefir 1.000 kr. í skattskyldan arð á ári, en gefur þó 20% arð af hlutafjenu, áður en skatturinn er dreginn frá, til sinna hluthafa. Þetta fjelag myndi greiða eftir frv. í skatt kr. 1,50 af hverjum 100 kr. arðsins. Aftur hefir stærra fjelagið 100.000 kr. í arð á ári, fyrir utan vexti af hlutafje, en gefur þó ekki nema 10% í ágóða. Jeg tek t. d. Eimskipafjelag Íslands. En þetta fjelag borgar í skatt alt að 14 kr. af hverjum 100 kr. arðsins. Nú er það auðvitað, að þessi skattur er sama sem skattur á hluthafa, þar sem hann er tekinn af þeirra ágóðahlut.

Nú á jeg 1.000 kr. hlut í litla fjelaginu, fæ ca. 200 kr. í arð, og á mig fellur sem svarar 3 kr. af bæjarskattinum. En nái ungi minn á 1.000 kr. í stærra fjelaginu, og fær því ca. 100 kr. í ágóða. Á hann falla 14 kr. í skatt til bæjarins. En þarna fyrir utan er skattur sá, sem fellur beint persónulega á þá fyrir þessar tekjur. Það er þess vegna auðsætt, að tekjuskattur, hækkandi eftir arðsumsetningu fjelaga getur ekki átt sjer stað og er auðsætt ranglæti. En annað mál væri um stighækkun eftir arðsprocentu, sem fjelagsmenn fá, og er hún þó ástæðulaus að mínu áliti.

Nú dettur mjer í hug, ef Eimskipaf jelag Íslands skyldi nú hafa talsverðan arð umfram peningavexti. Eftir frv. færi fullur sjöundi partur arðsins í skatt til Reykjavíkurbæjar, og eftir till. nefndarinnar fullur fimti partur. Jeg álít, að þetta nái engri átt, og býst við, að margir yrðu óánægðir yfir slíku.

Skattur þessi getur vitanlega færst niður fyrir það ákvæði, sem tiltekið er í frv., en líka upp fyrir það, en það er hámarksskatturinn, sem jeg hefi hjer talað um. En það hefir nú ekki í sjálfu sjer neina úrslitaþýðingu í þessu sambandi.

Er jeg nú búinn að minnast á hlutafjelögin, og þá kem jeg að samvinnufjelögunum, og má í mörgu sama um þau segja. Eftir frv. á að leggja skatt á þann hundraðshluta af viðskiftaveltu fjelagsins það ár, sem skatturinn er miðaður við, sem telja má að samsvari hagnaði þeim, er fjelagsmenn hafi haft af starfsemi fjelagsins. En þetta er þó takmarkað svo, að þessi hundraðshluti má aldrei fara fram úr 10% af viðskiftaveltunni. (E. A.: Það getur verið of hátt, og vill nefndin taka það til athugunar). Þetta er enn fjarstæðara en skattur á hlutafjárarðinn, enda kemur það algerlega í bág við gildandi sveitarstjórnarlög, frá 10. nóv. 1905. Þar stendur þetta, sem jeg vil lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig má leggja aukaútsvar á kaupfjelög og pöntunarfjelög, ef þau hafa leyst borgarabrjef, hafa sölubúð og vörur til sölu, svo sem hæfa þykir eftir árlegri veltu og arði í söludeild fjelagsins.“

Hjer er beinlínis miðað við fjelög, sem hafa fasta söludeild, og skal þá skatturinn fara eftir veltu og arði í söludeild fjelagsins. Það er beint tekið fram, að ekki skuli lagt á pöntunarviðskiftin. En hjer er ætlast til, að farið verði að meta þann hagnað, sem ætla má að menn hafi af því að vera í pöntunarfjelagi, sláturfjelagi, mjólkurfjel. o. s. frv. Mjer dettur ekki í hug að neita, að þessi hagnaður sje til. En þessi hagnaður er ekki eins áþreifanlegur og ætla mætti eftir frv. Hann er svo misjafn fyrir hvern einstakling, og kominn undir ýmislegum kringumstæðum; í stuttu máli, hann er alveg óútreiknanlegur. Hann kemur auðvitað fram og hefir komið fram í efnum og ástæðum hvers fjelagsmanns, þar sem hann er búsettur. Þar ber mest á honum, og þar nýtur sveitarfjelagið og landið góðs af honum; þar legst útsvarið á hann, eins og líka er rjett. Jeg hefi allmikið hugleitt þetta efni, því að mjer er það ekkert nýtt að eiga í karpi um útsvarsálögur á kaupfjelög.

Sumir halda því fram, að kaupstaðir og kauptúnahreppar hafi eðlilegan rjett til útsvarsálögu á verslunararðinn, eins þótt hann dragist frá kaupmönnum til hinna einstöku fjelagsmanna. Jeg býst við, að því verði haldið fram, að hjer sje átt við þann arð, og eins þótt þessi ágóði renni til fjelaganna, hvort sem það eru bændur út um hvippinn og hvappinn, eða verkamenn og borgarar hjer í Rvík, er hafa fjelag til að panta nauðsynjar, þá sje sá hagnaður og hljóti að vera sjálfsagður skattstofn fyrir það kauptún eða sveitarfjelag, sem í hlut á. En þetta hygg jeg algerlega rangt, nema auðvitað um þann arð, sem rennur til manna, búsettra í sama kaupstað eða hreppi. Á hann er lagt þar, hvort heldur lagt er á útsvar eftir efnum og ástæðum eða lagt er á „nettó“tekjur manna. Það getur enginn ráðið því, að verslunin og þar með arðurinn sitji föst í vissu kauptúni eða kaupstað, eða neytt menn til að versla þar, til þess að skapa þar samandreginn verslunarágóða. Menn geta verslað hvar sem þeir vilja, og svo getur verslunin fært sig, svo sem t. d. burt úr Reykjavík til Hafnarfjarðar, svo að miklu minna er hægt að leggja á verslunararð til bæjarsjóðs en um nokkurt áraskeið á undan. Dettur engum í hug að eltast við þetta sem nokkurskonar „privilegium“ fyrir Reykjavík, þegar svona stendur á. En alveg er eins, ef verslunararðurinn dreifist út um allar sveitir. það verður að leggja arðinn þar, sem hann er sýnilegur og áþreifanlegur.

Í þessu tilliti get jeg líka bent á, að í Danmörku er ekki lagt á þann ágóða, er fjelagar í samlagsfjelögum hafa af starfsemi fjelagsins, enda þótt það sje ágóði, sem safnað er saman á einn stað, og svo útbýtt á eftir sem ágóða eða „dividende“ af verslun manna. Hann er beinlínis undanþeginn útsvari til bæjar- eða sveitarfjelaga, ef fjelagið verslar ekki við aðra en fjelaga sjálfa.

Um framleiðslufjelög í Danmörku segir t. d. svo í lagagrein:

„Þar á móti hvílir skatturinn ekki á fjelögum, sem hafa að markmiði „Bearbejdelse, Forædling eller Salg“ á framleiðslu fjelagsmanna.“

Jeg hefi haft hjer upp dönsku orðin til að fyrirbyggja, að þau yrðu misþýdd. Með öðrum orðum, að því leyti, sem þessi fjelög, eins og t. d. sláturfjelög, reka starf fyrir fjelagsmenn og með búsafurðum þeirra, þá eru þau ekki skattskyld til bæjar- eða sveitarfjelaga.

Jeg býst nú við, að þetta þyki orðið langt mál, en jeg er ekki alveg búinn. Jeg vildi líka víkja að öðrum atriðum í frv., og er þá fyrst ákvæðin í 5. gr. frv., sjerstaklega saman borið við 2. lið 3. greinar. Hjer stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir, tejast allar árstekjur skattgreiðanda til skattskyldra tekna hans, hvort sem þær eru fengnar í bænum eða ekki og hvort sem um er að ræða peninga eða fjármuni, sem metnir verða til peninga, svo sem tekjur o. s. frv.“.

Þetta er formáli 5. gr. frv. Hjer er sagt, að leggja skuli á árstekjur hvers gjaldanda, hvort sem þær eru fengnar í bænum eða ekki. (E. A.: Með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir). Mjer er ómögulegt að koma auga á nokkra undantekningu um þær tekjur, er borgarar, búsettir hjer, afla annarsstaðar og borga þar útsvar af. En mjer er ómögulegt að skilja, að það, sem menn græða á öðrum stað og greiða þar útsvar af, sje skattskylt hjer, og þess vegna hefi jeg komið með brtt. (E. A.: Nefndin kom með brtt. um þetta atriði). Hún fullnægir ekki.

Ætla jeg nú að víkja örlítið að brtt. mínum, hverri um sig.

1. brtt. stafl. a. er reyndar ekki efnisbreyting, heldur að eins til þess að gera þennan lið skiljanlegan. Jeg lít svo á, að orðin „fjelag eða stofnun“ nái yfir alt það, sem meint er í greininni.

2. brtt., við 3. gr., sem er 1. brtt., stafl. b., gengur út á það að fella úr þetta ákvæði um lúsaleit á fjelögunum. Jeg álít, að það geti alls ekki komið til greina að leggja á þennan óbeina arð, eins og jeg hefi áður tekið fram, og því legg jeg til, að feld verði úr greininni þau orð, er þar að lúta. Að öðru leyti orða jeg greinina eins og í stjórnarfrv.

Þá koma brtt. við 7. gr., og þá fyrst brtt. um, að með því, sem beri að draga frá skattskyldum tekjum fjelaga, sem nefnt er í 3. gr. 3. lið, skuli telja útborgaðan arð af hlutdeildum fjelagsmanna, hvort heldur er arður af hlutafje, eða arður af verslunarviðskiftum og vöruinnkaupum kaupfjelaga og framleiðslufjelaga. (E. A.: Þetta á þá líka við hlutafjelögin). Já, það á við útborgaðan arð. Jeg hefi álitið rjettara að undanskilja þann arð, sem útborgaður er fjelagsmönnum skattskyldu, heldur en að undanskilja sjálf fjelögin. Því bæði geta þau haft arð aukreitis, sem þau sjeu eðlilega skattskyld fyrir, og þar að auki væri hægt fyrir einstaklinga og stofnanir að smeygja sjer undir nafn þeirra ranglega, til þess að firra sig skatti.

Þá er 2. brtt., stafl. b., sem ekki fer fram á annað en að fella það burt úr 7. gr., sem beint flýtur af þessu, og c-liður, um að fella burt ákvæðið um að finna út þann hundraðshluta, er ætla má að fjelagsmenn hafi í arð.

Síðasta brtt. er ekki nema sjálfsögð breyting á 15. gr., í sambandi við hinar brtt.

Jeg skal nú játa, að líklega hefði þurft að gera fleiri brtt., til samræmis við þessar brtt. mínar. En þetta er erfitt verk að vinna að, í annríki því, sem jeg hefi haft undanfarna daga. Og hefi jeg hugsað mjer, ef brtt. mínar verða samþyktar, að taka frv. fyrir til athugunar til 3. umr. og nema burtu ósamræmið. Gæti þá ýmislegt fleira komið til álita, til þess að koma á fullu samræmi milli ákvæða frv. En jeg hefi haldið hjer fram því, sem jeg tel höfuðatriði, og þau verður að fá inn í frv., ef á að verða takandi í mál að greiða því atkv. út úr deildinni.

Annars er frv. þetta mjög ófullkomið, í samanburði við það, sem slík lög eru og þurfa að vera. En einstakur þingmaður, þó hann væri miklu færari en jeg, getur ekki í hjáverkum tekið að sjer að laga alla þá vöntun og galla.