03.06.1918
Neðri deild: 38. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (2052)

12. mál, tekjuskattur og lóðargjöld í Reykjavík

Pjetur Jónsson:

Jeg verð að segja fáein orð í sambandi við ræðu hv. frsm. (E. A.).

Jeg skal þegar geta þess, að jeg hefði aldrei farið að kafa niður í mál þetta, ef jeg hefði ekki fremur viljað greiða fyrir því en hefta það. En jeg hefi hvorki haft tíma, tök nje kunnáttu til þess að búa brtt. við frv. svo vel úr garði, sem þyrfti og jeg hefði óskað. Jeg viðurkenni því, að brtt. mínar kunni að ná of skamt til lagfæringar og vera gallaðar, þótt þær sjeu rjettar að efni.

Jeg hygg, að hv. frsm. (E. A.) hafi misskilið það, sem jeg sagði um almenn skattalög fyrir bæjar- og sveitarfjelög. Það var alls ekki mælt frv. þessu til foráttu, heldur til þess að benda á, að áður en slík lög sem þessi væru sett væri nauðsynlegt að setja almenn bæjar- og sveitarlög, eins og t. d. í Noregi og Danmörku og sjálfsagt annarsstaðar. (E. A.: Hv. þm. kvaðst ekki þekkja þau). Jeg þekki þau ekki í þeim skilningi, í öllum atriðum, að jeg geti dregið út úr þeim skattafræði. En jeg hefi kynt mjer sjerstaklega undirbúning norsku laganna. Þar var kosin milliþinganefnd til þess að undirbúa málið, og starfaði hún að því í mörg ár. Nefndarálit hennar hefi jeg lesið. Hugsun skattanefndar 1908 var, að samin yrðu allsherjar skattalög fyrir sveitir og bæi. Hún útbjó skattafrv. fyrir sveitirnar, og ef það frv. hefði náð samþykki, mundi skattamálið ekki vera eins óákveðið og í lausu lofti og nú er raun á.

Þar sem hv. frsm. (E. A.) mintist á, að þessi gjaldstigi væri ekki eins hár og jeg sagði, þá skal jeg taka það fram, að svo getur orðið í framkvæmdinni. Dæmi mitt er rjett, því að jeg talaði um gjaldstigann, eins og hann getur hæstur orðið, án þess þó, að til samþykkis stjórnarráðsins komi, og þetta gerði jeg til þess að sýna, hve ósanngjarnt það er að hafa stighækkandi skatt á hlutafjelögum og samvinnufjelögum.

Hv. frsm. (E. A.) áleit ósamræmi milli brtt. 1 b. og 2 c., þar sem jeg felli niður part úr 3. gr. frv. En þetta er ekki rjett. Jeg skal skýra, hvað fyrir mjer vakti. Jeg átti við það, að ekki væri rjett að undanskilja þau fjelög skatti, sem að eins kölluðu sig samvinnufjelög eða kaupfjelög. Þau gætu þann veg verið vaxin, að þeim bæri að greiða skatt í sveitarsjóð að rjettu lagi. Jeg áleit ekki heldur nauðsynlegt að gera leit eftir þeim arði hjá fjelögum, sem eigi er bókfærður hjá þeim. Jeg álít eigi rjett að leggja á slíkan arð (sbr. 7. gr., 6. málsgr.), nema að því leyti, sem hann er einstakra manna eign innanbæjar. Þess vegna geti ekki komið til mála að hafa þetta ákvæði í lögunum.

Þá skal jeg líka minnast á það atriði, sem jeg vildi fella burt úr 3. gr., sem sje ákvæðið: „og það eins þótt afrakstur sá, sem verða kann af starfseminni, sje eigi allur eða að hluta talinn fjelagi sem slíku til tekna, samkvæmt fyrirkomulagi því, sem er á starfsemi þess og reikningsfærslu“. Þetta ákvæði vil jeg fella burtu, af því að það er beinlínis miðað við þennan óbókfærða arð. Jeg álít sem sje, að gagnvart þessum fjelagsskap sem öðrum verði að fara eftir því, sem rjett bókfærsla sýnir. Jeg held því líka fram, að ef arðurinn er einungis fólginn í vöruafslætti, þá eigi ekki að skattskylda hann. Jeg skal taka til dæmis Kaupfjelag Eyfirðinga. Allar vörur, sem það verslar með, eru seldar við álíka verði og kaupmenn selja; en síðan skilar það að ári liðnu til fjelagsmanna vinningnum af versluninni. Þetta er einungis vöruafsláttur, svipaður þeim, sem kaupmenn oft gefa, þó í smærri stil sje, og er sá afsláttur kaupmanna ekki talinn með verslunararði þeirra.

Jeg get með engu móti sjeð, að sanngirni mæli með því, að þessi „arður“ sje gerður skattskyldur. Og því síður get jeg álitið rjett að skattskylda þann hagnað, sem fjelagsmenn, t. d. í Kaupfjelagi Þingeyinga, hafa borið úr býtum, í samanburði við að hafa verslað annarsstaðar, t. d. á Húsavík eða Akureyri, þennan hagnað, sem jeg viðurkenni að hafi verið, en enginn getur sýnt nje sannað hve mikill er.

Hv. frsm. (E. A.) vjek að því, hve miklir erfiðleikar væru á að ná í hlutafjárarðinn hjá hluthöfum sjálfum, því að óvíst væri, í hvaða höndum hann lenti, og að hann gæti verið eign útlendinga. Þetta athugaði jeg. En jeg treysti mjer ekki til að finna í svip ákvæði til þess að bæta úr þessu. En jeg býst þó við, að þetta mætti lagfæra. Það mætti ákveða, að þessi undanþága hjá hverju fjelagi næði að eins til þess arðs, sem útborgaður væri til innlendra manna. Eða það mætti orða liðinn svo: „Um þau fjelög, sem heima eiga í bænum og nefnd eru í 3. gr. 3. lið, ber að draga frá tekjunum þá upphæð, sem greidd er í arð af hlutdeildum nafngreindra fjelagsmanna innlendra“. Þá er ekki lengur unt að villast. Þá er hægt að ná í þá, sem arðinn fá, og þá sleppur ekki útlent fje undan.