28.05.1918
Neðri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2068)

69. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Pjetur Jónsson:

Jeg verð að segja, að mjer þykir það enginn búhnykkur, að felt var frv. það, er fram kom frá fjárveitinganefnd, um hækkun læknataxtans. En nú er fram komið annað frv., sem bætir engu betur úr fyrir læknum, en kemur niður þar, sem síst skyldi. Það fer fram á hækkun fastra launa lækna, og dembir því uppbótinni á landssjóð.

Jeg hefi skoðað laun lækna sem einskonar styrk til þess að halda uppi lækningum, og þess vegna lít jeg svo á þetta mál, að verðfall taxtagjaldsins hafi þá afleiðingu í för með sjer, að taxtinn verði hækkaður, engu síður en að uppbót sje veitt á þennan styrk, eins og gert er með dýrtíðaruppbótinni.

Jeg hefi fátt lagt til launamálanna yfirleitt, og skal ekki heldur gera þetta atriði sjerstaklega að umtalsefni, en þykir frv. þetta þó horfa dálítið kynlega við. Jeg óttast sem sje, að ef læknum verður veitt launauppbót, og það svona há, muni fleiri embættismenn sigla í sama kjölfarið, og heimta uppbót á launum sínum. Nú liggja fyrir þinginu launauppbótabeiðnir frá ýmsum embættismönnum, og eru litlar horfur á enn, að þingið sinni þeim að þessu sinni. Skal jeg nefna þar til dæmis uppbótabeiðni frá kennurum mentaskólans og mjög rækilegt skjal frá háskólakennurunum. Alt liggur þetta þannig á döf- inni og þvælist á milli nefnda, án þess að nokkur þeirra vilji taka það upp. Ef læknum verður nú veitt uppbót þessi á launum sínum, getur þingið ekki látið hin erindin reka svona á reiðanum.

Jeg er nú þeirrar skoðunar, að þingið geti orðið við öllum slíkum beiðnum embættismanna. En jeg álít hins vegar, að það verði eitthvað að aðhafast, til þess að hrinda máli þessu í betra horf. Jeg hefi orðið þess var, að þó að menn hafi greitt atkvæði móti samskonar kröfum og hjer um ræðir, þá hefir það ekki stafað af því, að þeir væru mótfallnir kröfunum í sjálfu sjer; en þeir hafa ekki viljað rífa einstaka liði út úr samhengi. Og þetta var víst einmitt aðalástæðan fyrir því, að allsherjarnefnd lagðist á móti launahækkun dómaranna o. fl. á dögunum.

Ef þingið vill ekki taka launamálið í heild sinni til rækilegrar íhugunar, verður það að vinna hjer einhverja bót á. Og mjer virðist eðlilegast, að kosin verði sjerstök nefnd til að athuga kröfu læknanna, og síðan sje öllum launamálum, sem fyrir þinginu liggja, vísað til þessarar nefndar. Margir una því illa, að málin sjeu látin velkjast svona í óreiðu, látin þvælast nefnd frá nefnd. Sumum er vísað til fjárveitinganefndar, sumum til bjargráðanefndar og öðrum til allsherjarnefndar. Jeg hygg því rjettast að fela einhverri ákveðinni nefnd að íhuga launamálið, eða að kosin verði sjerstök nefnd til þess, og að til hennar verði síðan vísað þeim öðrum launamálum, sem fyrir þinginu liggja.