16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

37. mál, hækkun á vörutolli

Einar Arnórsson:

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um frv. við þessa umr. Í fyrradag var samþykt frv. um að leggja almenningi dýrtíðarstyrk. Átti það að vera til hjálpar almenningi til að lifa af dýrtíðina. Þessi hugmynd var, að mínu viti, í alla staði góð. En með þessu frv. er það tekið með annari hendinni, sem gefið var með hinni. Vörutollurinn kemur niður á öllum, eins þeim, sem minna hafa kaupþolið, og hinum, sem eiga nóg fyrir sig að leggja. Harðast kemur hann þó niður á menn í kauptúnum og við sjávarsíðuna. Jeg segi nú ekki, að það muni mjög mikið um það á hverju búi, þótt látinn sje af hendi einn blóðmörskeppur í sláturtíðinni. En það er „princip“-laust að leggja almennan toll á nauðsynjavöru, um leið og ástæða þykir til að leggja almenningi fje til að kaupa þessa sömu vöru.

Það liggur ekki fyrir að ræða tollinn sjálfan. Menn geta sagt, að það muni ekki mikið um þessa hækkun í samanburði við verðið. Það má líka segja, að fólk „spekúleri“ í að fyrirlíta peninga. Þeir eru alment orðnir svo lítils virði, að mönnum finst ekkert til um að láta þá úti. En út frá þessu má ekki ganga við álögur skatta og tolla.

Eins og háttv. framsm. (M. G.) tók fram, munar það litlu, hvort hækkunin lendir á fáum flokkum vörutegunda eða öllum. í 6. flokki, sem er rjett nefndur ruslakista laganna, lendir margt, bæði þarft og óþarft, sem ekki verður heimfært undir neinn annan flokk í lögunum, svo að hækkun á honum fer alls ekki fram hjá því, sem talist getur til nauðsynjavöru. Í hinum flokkunum, þar sem stjórnarfrv. vill hækka toll, er skýlaus nauðsynjavara.

Það er ekki hægt að bera á móti því, að vefnaðarvörur sjeu skýlaus nauðsynjavara. Það er því „princip“-brot, sem stjórnarfrv. fer fram á, og get jeg því ekki verið því fylgjandi.