28.05.1918
Neðri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (2074)

69. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Gísli Sveinsson:

Jeg get þegar í stað gefið þá yfirlýsingu, að mjer er ekki vel við þetta frv., ekki af því, að jeg sje ekki samdóma hv. flm. (E. A.) og öðrum þm., er talað hafa, um það, að kjör lækna sjeu nú lítt viðunandi, heldur af því, að jeg álít, að hjer sje farið inn á ranga braut, og er það að kenna þeirri vitleysu, liggur mjer við að segja, er varð ofan á hjer í hv. deild á dögunum, er felt var frv. frá fjárveitinga- nefnd um að hækka ferðataxta og verkalaun lækna. Þetta var auðvitað þeim að kenna, sem sjerstaklega vilja spara alla hluti, en mjer er með öllu óskiljanlegt, að einmitt þeir skyldu verða til þess að drepa það frv., sem var þó óneitanlega heppilegasta leiðin út úr málinu um kröfurnar til endurbóta á kjörum lækna. Og þessi leið var ekki að eins fundin hjer í þinginu, heldur höfðu læknar sjálfir kosið hana, því að þeir fóru aldrei fram á hækkun á föstum launum. Mjer er það óskiljanlegt, hversu sumir hv. þm. eru hörundsárir út af slíkri taxtahækkun, þar sem þó öllum er kunnugt, að allir verða að borga tvöfalt meira fyrir öll verk, sem nú eru gerð, en áður. Það mætti auðvitað segja sem svo, þótt með því væri ekki nema hálfsögð sagan, að ekki bæri að íþyngja fátæklingum, sem verða sjúkir, en þó er þess að gæta, að þeir ríku geta líka orðið sjúkir, því að veikindin fara ekki altjent í manngreinarálit, og svo þarf ekki endilega sú að verða afleiðing sjúkdóma, að þeir, sem í því böli lenda, verði þar fyrir fátækir. Jeg held, að það sje rjett, sem jeg hefi heyrt hjer í deildinni, að sjaldan eða aldrei heyrist menn kvarta undan þeirri borgun, sem gengið hefir til góðra lækna eða í læknishjálp, heldur munu menn miklu fremur heyra fólk tala um það, að verk lækna sjeu óskiljanlega illa borguð, saman borið við aðra. Mjer er því nær að halda, að hv. þm., sem feldu frv. um taxtahækkunina, hafi ekki með því gert kjósendum sínum verulegan greiða, og sjerstaklega ef þeir nú ætla sjer að fara að hækka föst laun þeirra, landssjóðslaunin, sem hlýtur að hafa í för með sjer hækkun á launum embættismanna yfirleitt, því að þeir hafa þá beinlínis kröfu á hendur þinginu um það að hækka laun sín líka.

Jeg held, að það geti nú svo farið, að menn út úr vandræðum verði að samþykkja þetta frv., eða eitthvað því líkt, en þá er það líka alleinkennilegt að verða ef til vill að neita öðrum, sem eiga heimtingu á því, að þingið sýni þeim sama rjettlæti.

Ef nú hugsað er til að hækka föst laun lækna og hækka ekki taxtann, þá mega þm. hafa það á samviskunni, að allir læknar fá uppbót á launum sínum. En þess er að gæta, að föst laun lækna eru ekki vinnulaun þeirra, heldur er það að eins þóknun fyrir að vera í þjónustu hins opinbera. En nú fá allir læknar, hvort sem þeir eru ljelegir eða góðir, sömu launabæturnar, og hvort sem þeir hafa nokkuð að gera eða ekki. En með taxtahækkuninni hefðu þeir einir fengið uppbót, sem mikið eru sóttir og eru góðir læknar, og hefðu því fengið uppbót vinnu sinnar, en þá hefðu hinir ljelegri, sem ekkert eru sóttir, ekki fengið neina uppbót fyrir vinnu, sem þeir hefðu ekki int af höndum; en það fá þeir, ef föstu launin eru hækkuð.

Helsta röksemdin, sem jeg fann í ræðu hv. 2. þm. Rang. (E. J.) var sú, að læknar þyrftu að lifa sómasamlegu lífi á kostnað landsmanna, en þetta gildir þá ekki um læknana eina, heldur um alla opinbera starfsmenn, og ætli hv. þm. (E. J.) vildi þá ekki ganga inn á, að best væri að slá þessari reglu fastri og fylgja henni svo fram hjer á þingi? En þessi hv. þm. (E. J.) var einn af þeim, er greiddu atkv. móti taxtafrv., og var því kominn í óþægilega klípu nú, og úr þessari klípu þurfti hann einhvern veginn að smeygja sjer, og ætlar nú að velja til þess launahækkunarleiðina á kostnað landssjóðs.