29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (2084)

70. mál, siglingaráð

Flm. (Matthías Ólafsson):

Þegar farið var að breyta útgerð hjer á landi og menn tóku að nota þilskip í stað smábáta, bjuggust menn við, að manntjón myndi minna við fiskiveiðar. Þetta reyndist og svo í upphafi, því að skipin voru allsæmilega útbúin og skipstjórar reyndir og ábyggilegir menn. En síðan vjelbátar fóru að tíðkast hjer hefir manntjón jafnvel aukist. Hættan hefir vaxið við það, að vjelbátar hafa hætt sjer lengra út á haf en opnir bátar gerðu áður, og auk þess er útbúnaður þeirra ekki góður. Það er alkunna, að menn hafa treyst vjelunum of vel og því vanrækt allan útbúnað annan, en vjelbátar þurfa nauðsynlega að hafa því nær sama seglabúnað sem seglskip. Auk þess vantar flestalla vjelbáta björgunartæki.

Á umliðnum árum hefir Fiskifjelag Íslands gert það, sem í þess valdi stóð, til að ráða bót á þessu. Það hefir sent menn víðs vegar um landið, til þess að áminna menn og brýna fyrir þeim, hve afar áríðandi er, að alt slíkt sje í lagi. Menn hafa tekið þessu vel og kannast við það, sem ábótavant er, en efndirnar hafa ekki verið að sama skapi. Það hefir t. d. komið í ljós síðar, að þessir menn hafa haft segl sín í megnasta ólagi, hafa látið þau liggja og jafnvel ekki notað þau í blásandi byr; en þegar segl eru sjaldan notuð, fúna þau og ónýtast.

Menn kannast fúslega við, að nauðsyn beri til að hafa umbúðir utan um segl, en svo vanrækja þeir það samt sem áður.

Til eru þó heiðarlegar undantekningar. Einn mann vil jeg nefna, sem er fyrirmynd í þessum efnum, en hann er því miður ekki Íslendingur, heldur norskur maður, Stangeland að nafni. Hjá honum hefi jeg sjeð segl og annan útbúnað í snildarlegustu lagi.

Auk þess hafa formenn þessara báta oft og tíðum ekki sæmilega sjómannsþekkingu. Einnig vill það brenna við á seglskipum. Þeir hafa að vísu eitthvert málamyndapróf, en oft eru teknir þeir menn, er enga sjómannsæfingu hafa. En með sjómannsæfingunni komast menn lengra en þótt þeir hafi náð einhverri prófmynd.

Nú er engin stofnun, er hefir eftirlit með þessu. En enginn vafi er á því, að brýn þörf er á einhverri stofnun, er hefir ekki einungis það hlutverk, að leiðbeina mönnum og áminna, heldur og vald til þess að taka í taumana. Því er þetta frv. komið fram.

Skipstjórafjelagið „Aldan“ hjer í bænum hefir glögglega skilið, hve megnt ólag er á öllu þessu, og hefir því leitast við að ráða nokkra bót á því. Árangurinn af viðleitni fjelagsins er þetta frv., sem hjer er flutt því nær orðrjett eins og fjelagið gekk frá því.

Mönnum mun ekki blandast hugur um, að það er landsstjórnin, sem ætti að setja lög sem þessi, með aðstoð þeirra manna, er best hafa vit á málinu. Er því leitt, að svo skuli ekki hafa orðið, og að frv. þetta skuli ekki vera flutt af stjórninni. En fjelagið hefir nú kosið að fara þessa leið. Það mun þó hafa sent stjórninni frv. þetta til athugunar, en stjórnin leitaði aftur álits Fiskifjelagsins, og hefir líklega búist við, að það fjelag myndi senda þinginu frv. En það hefir Fiskifjelagið ekki gert, sennilega af þeirri ástæðu, að því þykir þetta frv. ná út fyrir starfsvið sitt, er einungis lýtur að fiskiútveg, en ekki að almennum siglingum.

Að undanförnu hefir talsvert verið gert að því að nota fiskibáta til mannflutninga. Hefir svo óhæfilega mörgu fólki verið hrúgað í þessa báta, að það myndi hvergi nokkursstaðar viðgangast meðal siðaðra þjóða. Í þessum bátum eru engin þægindi fyrir farþega, jafnvel ekki sæti, og menn verða að þola vosbúð og kulda alla ferðina. Þannig heyrði jeg sagt frá, að í vetur hafi verið hjer bátur frá Vestmannaeyjum. Tók hann fyrst fullfermi hjer og því næst var þilfarið fylt af farangri. Þar á ofan tók hann um 30 farþega, auk skipshafnarinnar. Þetta var um hávetur. Er þá sagt, að skipstjórafjelagið „Aldan“ hafi brugðið við og farið fram á það við bæjarfógeta, að hann bannaði bátnum að fara þannig fyltum. En bæjarfógetinn, sem þá var Vigfús Einarsson, kvaðst ekki hafa vald til að taka í taumana, það væri enginn lagastafur fyrir því. Ekki er mjer kunnugt, hvort þetta er rjett, en hefði jeg verið í hans sporum, hefði jeg látið kylfu ráða kasti og sett blátt bann fyrir, að báturinn færi. — Báturinn komst út í flóa, lenti þar í hrakningum og misti talsvert af farangrinum af þilfari, en sem betur fór varð þó ekkert manntjón. Kom hann síðan inn aftur eftir sólarhring, með farþegana aðfram komna af vosbúð og hrakningum.

Þetta er svo gáskalegur leikur með líf og heilsu manna, að taka verður í taumana. Getur vel verið, að hægt sje að ráða betri bót á þessu ólagi en hjer er farið fram á. En þetta er þó í áttina við það, sem aðrar þjóðir hafa gert. Siglingaráðið ætti að vera einskonar „Board of Trade“, er hefði eftirlit með öllum útbúnaði skipa og gæfi vottorð um þekkingu og hæfileika skipstjóra. Jeg býst ekki við, að við munum finna annað betra ráð en mestu siglingaþjóðir heimsins, og ættum við því að fara að þeirra dæmi, heldur fyr en síðar.

Margt annað er hjer í ólagi, er tæki of langan tíma að tína til. Sumt stafar af vana, en sumt blátt áfram af handvömm. Sem dæmi vil jeg nefna, að eitt skip hefir verið mælt þrisvar hjer á landi, og aldrei haft sömu stærðina. Skipið hefir altaf farið minkandi. Það vildi svo til, að koma þurfti manni að skipinu, er skorti hæfileika til að stýra svo stóru skipi. Var það því mælt upp aftur, og atvikaðist þá svo, að það mældist minna, þannig að maður þessi hafði rjett til að vera skipstjóri á því. Það var kært fyrir nokkrum árum til Fiskifjelagsins, að þetta hefði átt sjer stað. Fjelagið skaut málinu til stjórnarinnar, og spurðist hún fyrir um það hjá lögreglustjóra þeim, er átti hlut að máli. Svaraði lögreglustjóri, að sjer væri ókunnugt um, að þetta hefði átt sjer stað. Eigi að síður var þetta satt, en það var ekki sök lögreglustjóra, og sýnir þetta, hve auðvelt er að fara eftir misjöfnum vottorðum.

Það hefir og komið fyrir, að 3 stýrimenn hafa verið skráðir á skip, sem að eins hefir þurft einn stýrimann á. Tveir þeirra hafa unnið sem hásetar og ekki komið nálægt skipstjórn, en síðan leggja þeir fram plögg sín og skilríki fyrir því, að þeir hafi verið stýrimenn í svo og svo langan tíma.

Hægt væri að koma í veg fyrir þetta, ef komið væri upp stofnun, er rannsakaði plögg manna, hvar þeir hafi siglt áður, hve nær o. s. frv.

Jeg vona, að menn sjái, hve bráðnauðsynlegt er að ráða bót á þessu. Mönnum er innan handar að sannfæra sig um, að dæmin, sem jeg hefi nú tekið, eru sönn í alla staði. Og þetta eru að eins einstök dæmi. Það er alkunna, að flesta báta vantar björgunartæki. En á bátum, sem notaðir eru til fólksflutninga, ættu að sjálfsögðu að vera björgunartæki fyrir alla farþega, auk skipshafnarinnar.

Jeg býst við, að ef slík stofnun kæmist á, sem hjer er farið fram á, þá myndi hún sjá um, að allar nauðsynlegar varúðarreglur verði settar. En þá fyrst, er vel er litið eftir skipum, þess vel gætt að hafa skipstjóra með fullkominni þekkingu, kaupa björgunarbáta, setja upp veðurathuganastöð í landinu og þar fram eftir götunum, þá fyrst getum vjer sagt, að þessi þjóð sje, sem siðuð sjómenskuþjóð, búin að gera það fyrir sjómannastjett sína, sem henni ber.

Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvort málinu er vísað til sjávarútvegsnefndar eða allsherjamefndar. Jeg býst við, að hvor nefndin sem er ráðfæri sig við hina eftir þörfum, og að sjávarútvegsnefndin mætti eiga von á aðstoð lögfræðinganna í allsherjarnefndinni. En þó býst jeg við, að frv. sje þannig vaxið, að ekki sje vanþörf á, að lögfræðingar fjölluðu um það.

Að svo mæltu vil jeg láta þá von í ljós, að frv. fái góðar undirtektir og verði vísað til nefndar, og vildi jeg þá helst kjósa allsherjarnefnd, þótt mjer sje það ekkert kappsmál.