01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (2091)

79. mál, almenn sjúkrasamlög

Flm. (Björn R. Stefánsson):

Jeg held, að efni þessa frv. sje svo ljóst, að jeg þurfi ekki að halda langa ræðu um það, en af því að svo er áliðið þingtímann, að það verður að eiga undir náð þessarar hv. deildar, hvort frumvarpið kemst að, ætla jeg að láta fylgja því nokkur orð.

Það, sem aðallega kom mjer til að bera fram þetta frv., var það, að bæta launakjör læknanna, því jeg þykist nú sjá fram á, að ekki verði á móti því staðið, að það verði gert nú þegar á þessu þingi í einhverri mynd. Það hafa komið fram uppástungur um það í ýmsum myndum, en jeg gat ekki, eins og jeg hefi áður tekið fram við þær umr, verið neinni þeirra fylgjandi. Jeg viðurkenni, að kröfur læknanna sjeu á rökum bygðar, því að jeg játa, að það er sú stjett embættismanna, sem erfiðustum störfum hefir að gegna og ófrjálsust er, og sje því illa hægt að daufheyrast við óskum þeirra. Læknarnir hafa þegar skýrt frá, að þeir geti illa lifuð af launum sínum og vilji ekki við þau una.

Svo er það að vísu með fleiri, að þeir eiga erfitt uppdráttar. En um læknana verður tæplega sagt, að þeir eigi sitt eigið líf, heldur eru þeir skyldugir, hve nær sem er, að leggja það í hættu, almenningi til bjargar; þess vegna er almenningi kann ske skyldari við þá, en aðra embættismenn, að láta þá ekki hafa við mjög þröng kjör að búa.

Jafnskjótt sem dýrtíðin hófst kom það í ljós, að mörgum mundi verða erfitt um lífsframfærsluna, og að ekki yrði hjá því komist að veita æði mörgum einhverja dýrtíðaruppbót eða dýrtíðarhjálp. En af því að það var sjáanlegt, að landssjóði hlyti að verða langt um megn að veita þessa hjálp, svo almenna og svo ríflega, að kjör manna yrðu engu erfiðari en áður, þá var líka sjálfsagt að veita hana helst þeim, sem dýrtíðin kæmi harðast niður á og þyrftu hennar því helst með.

þingið byrjaði á embættismönnunum. Jeg er ekki þar með að segja, að byrjað hafi verið þar, sem þörfin var mest, en hins vegar má kann ske segja, að byrjað hafi verið á þeim, sem staðið hafa næst því að eiga kröfurjett á landssjóðinn.

Næst var svo farið að hugsa um almenning, eða kaupstaðabúa rjettara sagt. En þá má heita, að strandað hafi verið. Ekki þó fyrir það, að þm. sæju ekki og viðurkendu, að eitthvað þurfti fyrir þá að gera, heldur af hinu, að landssjóði er það ofurefli að veita þeim dýrtíðarhjálp, svo nokkru verulegu nemi. Hann hefir ekki úr svo miklu að moða.

Nú hafa læknar gert háværar kröfur á þessu þingi, og þingið treystir sjer auðsjáanlega ekki til að vísa þeim á bug.

Jeg hefi ekki getað aðhylst þær leiðir, sem enn hefir verið stungið upp á. Með frv. þessu er ný leið farin. Með henni er kröfum lækna fullnægt og jafnframt tekinn annar flokkur manna og veitt dýrtíðarhjálp, og það sá flokkur, sjúklingarnir, sem jeg álít að flestum öðrum fremur þurfi hennar með.

Jeg hefi altaf haldið því fram, og held því fram enn, að hvað sem öllum rjettmætum eða ímynduðum kröfum líður, þá getum við ekki hjálpað eða borgað dýrtíðarstyrk til annara en þeirra, sem í raun og veru þurfa hans með. Það, sem við getum látið af hendi rakna, verðum við því að láta koma þar niður, sem þörfin er mest, en það hygg jeg að sje hjá sjúklingunum.

Reyndar veit jeg það, að það eru ekki allir sjúklingar fátækir, en þegar við lítum á sjúklinga og heilbrigða, upp og niður, eins og þeir koma fyrir, verðum við þó að viðurkenna, að hagur sjúklinganna sje stórum verri, og þung byrði eru sjúkdómar altaf, jafnvel fyrir þá ríku. Hliðstætt mun vera að benda á það, að dýrtíðaruppbót embættismanna er alls ekki reiknuð eða goldin eftir efnahag þeirra, heldur eftir launaupphæð. Þeir eru ekki allir fátækir, embættismennimir, sem goldin er dýrtíðaruppbót.

Jeg játa það að vísu, að með frv. þessu er ekki stórum grynnra þreifað í landsjóðinn en með frv. því um hækkun á læknalaunum, sem liggur fyrir þessari hv. deild. Munurinn er ekki nema um 8.000 kr. Hitt frv. mundi kosta landssjóð um 43 þús., en þetta nálega 35 þús. En með þessu frv. eru slegnar tvær flugur í einu höggi, læknunum fullnægt, og jafnframt allríflega hjálpað þeim, sem yfirleitt eru mest hjálparþurfar. En það kostar líka nýjan skatt á landsmenn, en jeg held, að hann verði ekki talinn eftir. Um það vísa jeg til ummæla minna í greinargerðinni.

Eitthvað verð jeg sjerstaklega að benda á, og það er, að með þessu frv. er ætlast til, að nýr nefskattur sje lagður á þjóðina. Nefskattar hafa áður verið lagðir á í ýmsum myndum, eins og t. d. vörutollur og sykurtollur. Þannig lagaða neysluskatta tel jeg rangláta og er illa við þá, enda eru þeir óvinsælir. Þó get jeg bent á einn nefskatt, sem er ekki mjög óvinsæll, en það er prests- og kirkjugjald. Þessum skatti finst mjer mega líkja við þann nefskatt, og vona, að honum verði ekki ver tekið, því jeg held, að menn hugsi, nú orðið, engu minna um tímanlega velferð en um sálartetrið.

Jeg hefi getið þess í niðurlagi greinargerðarinnar, að mjer sje það ljóst, að ýms missmíði sjeu á frv. Jafnvel í einum stað er ósamræmi milli frv.og greinargerðarinnar.

Í greinargerðinni stendur, að tíundi hluti af föstum tekjum sjóðanna leggist í söfnunarsjóðinn. Þetta er ritvilla. Þar átti að standa ¼ af landssjóðstillagi, í staðinn fyrir tíundi hluti af föstum tekjum. Þetta stafar af því, að í uppkastinu að frv., sem jeg fyrst skrifaði, ráðgerði jeg lægra tillag úr landssjóði og áætlaði dálítið aðra fólkstölu, en eftir þeirri áætlun stóð það heima, að ¼ af landssjóðstillaginu var nákvæmlega sama og tíundi hluti af öllum föstum árstekjum. (E. A.: En neðanmálsgreinin, er hún athugasemd?). Hún er skýring. Má vera, að hún sje ekki fullnægjandi, en ef ekki þykir fara vel á því, að „sveitarfjelag“ tákni bæði hreppsfjelag og bæjarfjelag, þá vona jeg, að nefnd sú, sem hv. deild væntanlega vísar frv. til, lagi það og aðrar misfellur.

Ef til vill má segja, að ósamræmi sje einnig milli 9. og 10. gr. í 9. gr. stendur, að lyfin endurborgist ekki, en í 10. gr. er þó gert ráð fyrir þeim möguleika. Um einstakar greinar skal jeg svo ekki fara fleiri orðum.

Leyfi jeg mjer svo að mælast til þess, að frv. verði vísað til allsherjarnefndar að lokinni þessari umræðu.