04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (2094)

83. mál, sjótjónsmenn

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þetta frv., eftir áeggjan þeirra manna, sem fengist hafa við sjótjónsmál undanfarið. Jeg hygg, að þau ákvæði, sem tekin eru upp í frv., sjeu til bóta frá því, sem nú gildir um þau efni. Í raun og veru er frv. ekki annað en breyting á 2 gr. í siglingalögunum frá 1914. pað er breyting á 218. og 223. gr. þessara laga. í þeim greinum eru ákvæði um það, hverjir meta skuli skemdir, sem verða á skipi eða farmi, án þess að fullkomið tjón verði að, eða hið sameiginlega sjótjón. Svo er ákveðið í þeim lögum, að skipa skuli tvo dómkvadda menn til að meta skaðann, sem verður á skipum eða varningi. Þetta hefir verið gert hjer undanfarið, en í reyndinni hefir svo farið, að flest — og öll stærstu — sameiginlegu sjótjónin hafa verið metin utanlands. Ábyrgðarfjelögin, sem flest eru útlend, virðast ekki hafa treyst íslensku matsmönnunum til þess.

Það má því segja, að ákvæði siglingalaganna hafi enn að litlu liði komið, og er það reyndar skiljanlegt, þegar þess er gætt, að hjá nágrannaþjóðunum eru miklu frekari kröfur gerðar til dómhæfileika þessara manna en hjá oss, enda veitir dómkvaðning sú, sem siglingalögin gera ráð fyrir af einhverjum lögreglustjóra, eigi það álit í augum útlendinga, sem löggilding af hendi stjórnarinnar. Enn mun og sú ástæða til þess, að útlendingar skirrast við að nota íslenska sjótjónsmenn, að hjer eru tveir menn til þess skipaðir, en hjá grannþjóðunum að eins einn á hverjum stað. Hjer verður því sennilega matið dýrara og vafningameira en nauðsynlegt er. Danmörk hefir að eins tvo sjótjónsmenn og sinn á hvorum stað. Noregur hefir 20, sem dreifðir eru um landið.

Til skýringar því, hve freklega er gengið á svig við íslenska sjótjónsmenn, má geta þess, að sameiginlega sjótjónið, sem varð á „Sterling“ s. 1. vetur, við strandið á Sauðárkróki, var metið í Kaupmannahöfn. Eins var farið með skipið „Köbenhavn“, sem rakst hjer á Gróttu-grynninguna í vetur og hjer var síðan affermt og bætt. Öll sjótjónsskjöl þess voru send til Kaupmannahafnar og matið framkvæmt þar.

Með frv. þessu er nú gert ráð fyrir, að sjótjónsmaður — auk þess að vera lögfróður — fullnægi ákveðnum kunnáttuskilyrðum, sem stjórnarráðið ákveður með reglugerð.

Verið getur, að hv. þm. þyki nafnið sjótjónsmaður óeðlilegt og tvírætt, en það mun geta unnið sjer festu í málinu, eins og önnur nýyrði, ef engum hugkvæmist annað betra. Það skýrir að minsta kosti hugmyndina eins vel og útlenda orðið „Dispacheur“, sem þýðir afgreiðandi. Og þótt sjótjónsmaður geti skilist á tvo vegu eða fleiri, þá er því svo farið um mörg önnur orð. Mætti þar til nefna orðið skipstjóri, sem fyrst mun koma fyrir í íslensku lagamáli um 1870 og var þá deilt um, hvort brúklegt væri, og bent til þess, að skipstjóri gæti líka rjettilega heitið dreki sá, sem skipið lægi við, og yrði þá samnefni á akkeri og skipstjórnarmanni. Nýyrði þessu til stuðnings má nú geta þess, að það hefir verið notað undanfarin ár til að tákna þessa starfsmenn.

Ekki þarf frv. þetta að mæta mótspyrnu vegna þess, að það baki landssjóði gjöld, því að ekki eru sjótjónsmönnum ætluð önnur laun en þau, sem þeir fá fyrir starf sitt hjá þeim, sem þeir meta fyrir.

Jeg sje eigi ástæðu til að fjölyrða frekar um frv., en geri ráð fyrir, að því verði vísað til nefndar. Vil jeg leggja til, að því verði vísað til allsherjarnefndar, með því að hún er skipuð vel lögfróðum mönnum, en þetta mál þarf sjerstaklega að athugast af þeim. Það snertir að vísu á einn veg sjóferðir og siglingar, en þekking á þeim atvinnuvegi vorum, sem byggist á sjóferðum, veitir engan hæfileika sjerstakan til þess að dæma um þetta mál. Það er fremur lögfræðilegt í eðli sínu, og þess vegna óska jeg því eigi vísað til sjávarútvegsnefndar, heldur allsherjarnefndar.