15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í C-deild Alþingistíðinda. (2105)

96. mál, verðlag á vörum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafi gleymt því í svipinn, að hann er ekki lengur málaflutningsmaður, heldur þingmaður. Honum hefir nú fundist, að hann yrði að fara að verja aðra. En jeg held, að hann hafi ekki hjálpað hv. flm. (P. O.) neitt með ræðu sinni, enda þarf hann varla hjálpar með, því hann mun vera maður til að svara fyrir sig sjálfur.

Jeg vítti það ekki, þótt hv. flm. (P. O.) finnist hann þurfa að finna að ýmsu við stjórnina, og ekki heldur þótt hann óski skýringa um þetta mál, heldur vítti jeg það, að hann skyldi koma með það í umr. um óskylt mál og að fjarverandi þeim ráðherra, sem við þetta er riðinn. Hvað sem sagt er um þau mál, sem eru á dagskrá, þá er það óhrekjandi, að bæði þetta mál, og sjerstaklega það, sem er á dagskrá í Ed., heyra undir atvinnumálaráðherra.

Jeg stend við það, að þetta atriði hafi alveg að ófyrirsynju verið tekið fyrir hjer í deildinni í dag. Hitt má rjett vera, úr því málinu hefir einu sinni verið hreyft, að rjett sje að taka það fyrir sjerstaklega og skýra nánar, og býst jeg við, að atvinnumálaráðherrann athugi það.