16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

37. mál, hækkun á vörutolli

Framsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg veit, að það er vinsælla að mæla á móti tekjuaukafrv., sem leggja aukin gjöld á landsmenn, en með þeim. En samt verð jeg að svara bæði hæstv. fjármálaráðherra og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.).

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að það væri ekki rjett hugsað að vera fyrst að veita með lögum almenna hjálp vegna dýrtíðar, og hækka svo skatt á þeim vörum, er almenningur brúkar. Þetta lítur nú fallega út, en sje það athugað, er það ekki eins vel hugsað og ætla mætti. Því að þegar búin eru til lög um dýrtíðarhjálp, þá er búist við því, að hennar muni aldrei þurfa nema nokkur hluti landsmanna, og það lítill hluti. Það sjest á því, hve upphæðin er lítil, því að ef menn byggjust við, að meira en helmingur landsmanna þyrfti hjálpar, þá væri til lítils að ætla 15 kr. á mann. Það leiðir af sjálfu sjer, að þeir, er komu með þetta frv., telja það ekki hlægilegt. Vörutollurinn kemur niður á öllum, og þar mundi aurast saman frá þeim, er ekki þurfa hjálpar, til hinna, er hjálparinnar þurfa. Þetta er að vísu krókaleið, en hjá henni er ekki hægt að komast.

Þetta er því að eins „teoretiskt“ rjett sjeð hjá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), en ekki „praktiskt“.

En þar sem sami háttv. þm. (E. A.) talaði um að taka út úr sumar vörur og hækka tollinn á þeim, vil jeg og taka undir það með hæstv. fjármálaráðh., að til þess vantar örugt tolleftirlit. Það er líklegt, að vörurnar yrðu fluttar í sömu umbúðum, og ef á að fara að taka út úr suma flokka, þá kostar það að skoða alla sendinguna.

En það er verið að segja, að í 6. flokki sje mikið af glingri og gullvörum, og silki í 3. flokki. Það er rjett, en í þessum flokkum er engu minna af nauðsynjavörum. Klæðavörur í 3. flokki eru t. d. engu minni nauðsynjavörur en kornvara. Það er ekkert betra að ganga ber en svelta. En í 6. flokki eru allar vjelar og önnur verkfæri, litur, eldspýtur, grænsápa o. fl., sem alt eru nauðsynjavörur. Og jeg held, að það náist einmitt betra samræmi með því að hækka alla flokka en einhvern einstakan flokk. (E. A.: Því var jeg ekki að mótmæla). Jeg er nú að svara hæstv. fjármálaráðherra.

Svo er annað, sem mælir á móti því að fara nú að taka út úr þær einstöku vörur, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) mintist á, og það er það, að þessi lög gilda svo skamt. Þau eru að eins til bráðabirgða, fyrst um sinn í gildi til ársloka 1919, eins og vörutollslögin sjálf.