28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Pjetur Ottesen:

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir þegar tekið fram ýmislegt alment um þetta mál, sem jeg hafði ætlað mjer að drepa á, og því get jeg verið stuttorður.

Hæstv. forsætisráðherra hefir, sem vænta mátti, þakkað fjárveitinganefnd fyrir aðgerðir hennar í þessu máli, og þetta er ofur skiljanlegt, því þetta er ávöxturinn af frv. því, sem stjórnin kom þegar fram með á öndverðu þinginu, um hækkun á launum yfirdómaranna, ásamt skrifstofustjórum stjórnarráðsins og hagstofustjórans.

Þetta þarf svo sem engum að koma á óvart, því það var það, sem altaf mátti búast við, eftir því sem á undan var gengið.

Hv. fjárveitinganefnd siglir líka rækilega í kjölfar hæstv. stjórnar, að hækka við þá, sem hæst eru launaðir áður og best standa að vígi með að njóta góðs af bitlingum og aukastörfum, sem nóg er af hjer í Reykjavík, en setja þá alveg hjá, sem lægra eru launaðir, beint eða óbeint. Það er með öðrum orðum, úr því nokkuð var farið að fást við þetta launahækkunar eða uppbótarmál á þessu aukaþingi, sem jeg hefði helst óskað að ekki hefði verið gert, byrjað á öfugum enda, alveg eins og hjá hæstvirtri stjórn.

Hv. frsm. (M. Ó.) sagði, að fjárveitinganefnd hefði lagt til grundvallar þörf manna fyrir uppbót, ástæður landssjóðs og hvað fram mundi ganga. Hvað fyrsta liðinn snertir, þörf manna, þá held jeg, að nefndin hafi, í öllum aðalatriðum, mistekist hrapallega. Um hag landssjóðs þarf ekki að fjölyrða. Úrræðin einustu auðvitað þau, að taka lán, meðan lánstraustið hrekkur til, því þó nú sje með nýjum og nýjum álögum verið að pressa út fje, undan blóðugum nöglum alþýðu þessa lands, þá eru lítil líkindi til, að það, sem á þann hátt önglast saman, hrökkvi langt, eins og nú er spilað og útlit alt er með atvinnuvegi landsmanna.

En hvað því viðvíkur, hvað fram muni ganga, þá er ekkert hægt um það að segja; það getur vel verið, að það gangi helst fram, sem ólíklegast er og síst skyldi.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, álít jeg, að nefndinni hafi mjög mistekist í þessu máli, úr því hún fór að koma fram með nokkrar tillögur, sem jeg hefði helst óskað að hún hefði ekki gert, nema um læknana, sem nokkurn veginn var vissa fyrir að deildin vildi sinna, og það einmitt á þann hátt, sem nefndin leggur til í þessu frv. Eins og jeg hefi þegar tekið fram, get jeg engan veginn sætt mig við þetta frv., og vil jeg benda á nokkur dæmi, sem sýna ósamræmið og þau rangindi, sem hinir lægra launuðu embættis- og sýslunarmenn eru beittir.

Áður en jeg geng lengra inn á frv. skal jeg fyrst minnast á breytingartillögu mína á þgskj. 405, við 3. gr. frumvarpsins, um það að færa hækkunina á launum dómstjóra úr 1.200 kr. niður í 700 kr. og meðdómendalaun í yfirrjettinum úr 1.000 kr. niður í 700 kr. Hv. frsm. (M. Ó.) sagði, að þessi upphæð, sem hjer væri um að ræða, væri svo lítil, að það tæki því naumast að vera að tala um það, en jeg vildi leyfa mjer að benda honum á, að margt smátt gerir eitt stórt, og til að sanna honum þetta, sem reyndar ætti ekki að vera þörf, má benda honum á, að þessar 500 kr. hækkanir, sem frv. gerir ráð fyrir að bætt verði við þá, sem þar eru tilnefndir og fundið hafa náð fyrir augum nefndarinnar, nema nú þegar um 60.000 kr.

Hv. frsm. (M. Ó.) vildi fóðra það, að hækkunin til þessara manna væri svona há vegna þess, að það væru svo miklar virðingastöður, sem þeir gegndu. Jú, svo er nú það, og mjer dettur ekki í hug að hafa á móti því, að það sjeu virðingarstöður, sem þeir skipa, en þrátt fyrir það verð jeg að álíta, að hvorki háyfirdómarar eða t. d. biskup landsins eða hverjir sem eru sjeu meiri virðingarmenn en hverjir aðrir borgarar þjóðfjelagsins, sem leysa starf sitt vel og trúlega af hendi, og því finst mjer, að slíkt hjegómatildur og yfir höfuð alt manngreinarálit í þessum skilningi ætti að vera með öllu útilokað og ætti alls ekki að heyrast hjer í þessum sal.

Þá vil jeg með nokkrum orðum minnast á 7. gr. frv. Þar eru meðal annara, sem uppbót eiga að fá, taldir upp skólastjórarnir við landsskólana. Þessir menn eiga að fá alveg sömu upphæð og fastir kennarar og aukakennarar við þessa sömu skóla, sem fyrst og fremst hafa miklu lægri laun og engin fríðindi. En auk föstu launanna hafa skólastjórarnir við þessa skóla frían bústað, ljós og hita, og eru slík þægindi ekki lítils virði á þessum tímum. T. d. mætti sennilega reikna laun rektors mentaskólans með öllu og öllu fullar 7.000 kr., en hinna nokkuð minna. En þetta misrjetti er auðvitað bygt á þessum virðingarstöðum, sem eru svo ofarlega í hálsi sumra hv. þm., þó einkum hv. frsm. (M. Ó.). En ef svo væri nú, þá verð jeg að álíta, að nefndin hafi ekki haft neina ástæðu til þess að setja biskupinn skör lægra heldur en t. d. háyfirdómarann, því eftir þessum mælikvarða nefndarinnar get jeg ekki sjeð annað en að þeir hefðu átt að vera jafnir að minsta kosti. Jeg vil ekki segja með þessum orðum, að biskupsembættið sje, frá mínu sjónarmiði, svo ýkja þarflegt, því í raun og veru fæ jeg ekki sjeð, að þessi biskupsstaða sje til svo mikils gagns, að guðs kristni hjer á landi væri nein hætta búin, þó það embætti hefði verið sameinað öðru embætti, eins og komið hefir til tals hjer á þingi áður.

Annars vil jeg lýsa yfir því, að úr því farið var að ganga inn á þetta launamál, þá hefði heldur átt að gera það á sama grundvelli og í fyrra, kann ske með frekari undantekningum en þá var, eða með öðrum orðum með því að veita þeim mönnum hækkun á dýrtíðaruppbótinni, sem lægst eru launaðir, og eiga við erfiðust kjör að búa, en alls ekki að fara þá leið, sem hjer er farin. En það mun auðvitað ekki reynast auðvelt að kippa í liðinn úr því sem komið er, en þess geng jeg ekki dulinn, að þó þetta frv. nái fram að ganga, þá muni sumir hverjir, sem ljá því atkvæði sitt, ekki gera það með ljúfu geði. En jeg mun, hvað sem öðrum líður, greiða atkvæði á móti því.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um frv. að svo komnu, þó benda mætti á margt svipað þessu, en jeg vil taka það fram, í sambandi við þetta frv., að mjer þótti framsetning hv. frsm. (M. Ó.) í gær nokkuð hranaleg, og verð jeg að segja, að jeg tel það mjög illa viðeigandi að bera þm. á brýn lævísi og ódrengskap, þó þeir komi fram með brtt., en þetta ljet hv. frsm. (M. Ó.) sjer sæma að bera hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á brýn. Eða lítur hv. frsm. (M. Ó.) ef til vill svo á, að enginn hafi tillögurjett í þeim málum, sem hann. hefir framsögu í?

Þá vil jeg leyfa mjer að minnast á till. á þgskj. 400, frá dóms- og kirkjumálaráðherra. Annars hefir sá hæstv. ráðherra hingað til gengið undir nafninu forsætisráðherra hjer á þingi, og veit jeg ekki, hvað veldur breytingunni á titlinum, nema ef það á að skína út úr þessu einhver kirkjulegur kærleikur til þm. Nú jæja, það er nú svo margt undarlegt sem skeður. Það er nú líka dálítið undarlegt, að vera að klastra þessari fjárveitingu inn í þetta frv. En það er eins og þessari þingfararkaupsuppbót sje alstaðar ofaukið, — og það er henni nú í raun og veru.

Á síðasta þingi þótti nú ekki ómaksins vert að bera þetta undir þingið opinberlega, heldur ákváðu forsetarnir að greiða mönnum þingfararkaupsuppbótina, og menn vissu því ekki.sumirhverjir, fyr en þessi uppbót var rjett að þeim. Þá var alt, sem að þessu laut, gert í pukri. Sú aðferð var auðvitað allsendis óþingleg, þar sem þingfararkaup er ákveðið með lögum. Sú leið hefir heldur ekki talist fær aftur. En í staðinn hefir þessi leið verið valin, og er það því ætlun dóms- og kirkjumálaráðherrans að kuðla þessari útborgun inn í þetta frv. Eftir því, sem jeg hefi haft spurnir af, mun það hafa upphaflega verið tilætlun þessa hæstv. ráðherra að koma því yfir á fjárveitinganefnd að flytja frv. eða till. um þingfararkaupshækkunina. En fjárveitinganefnd mun hafa þakkað fyrir gott boð, og neitað því. En jeg veit nú ekki, hvernig hv. fjárveitinganefnd tekur því, að láta barna sitt frv. með þessum viðauka, og nú heyrðist mjer á hv. frsm. (M. Ó.), að skoðanir nefndarmanna væru skiftar um það. Sje hún sjálfri sjer samkvæm, vill hún auðvitað ekkert hafa með þetta að gera. Hvað þessa þingfararkaupshækkun snertir, þá er mín skoðun sú, að þm. eigi í lengstu lög að komast hjá því að hækka kaup sitt. Dagkaup þm. var þá ekki heldur svo skorið við neglur sjer, þar sem það er 10 kr. á dag, en vitanlega kemur dýrtíðin niður á þeim eins og öðrum.

Þing og stjórn hefðu átt, á þessum voðalega erfiðu tímum, að ganga á undan með góðu eftirdæmi fyrir einstaklinga þjóðfjelagsins í því að fara vel og hyggilega með fje landsins og halda því til sparnaðar og reyna að komast hjá því í lengstu lög að stofna sjálfstæði landsins í voða með því að rígbinda það á skuldaklafann. En því miður verður það alls ekki sagt, að það hafi verið gert. Þvert á móti hafa fjárveitingar — og það margt óþarfar fjárveitingar —- aldrei verið eins stjórnlausar eins og einmitt á þessum síðustu og verstu tímum. Um hæstv. stjórn er það alkunnugt, að hún kann sjer, vægast sagt, miðlungi ,vel hóf í fjárveitingum.

Till. þessi fer fram á, að 50% verði goldnar af þingfararkaupi, en þó sýnist mjer, að hæstv. stjórn hefði getað látið sjer nægja með 40%, svo að það væri í samræmi við þá uppbót, er hæst er greidd til embættismanna. En nú virðist hugsað um það eitt, að safna skuldum á skuldir ofan, og jeg held, að trúin á skuldirnar sje að verða æðsta og helsta boðorðið.

Nú hefir þingið staðið í fullar 11 vikur, og hvað langt er liðið á þingtímann, ja, það veit jeg ekki, en það veit jeg, að það þarf ekki að standa lengi enn til þess, að kosnaðurinn við það, þegar öll kurl koma til grafar, fari fram úr 150 þús. kr. Um það hefi jeg aflað mjer ábyggilegra upplýsinga. Mjer er það fullljóst, að með þinghaldi nú er að vissu leyti stefnt að ákveðnu og mjög mikilsverðu takmarki. En því takmarki var alveg eins hægt að ná með að minsta kosti helmingi styttri þingsetu og vinna margt að auki. — Jeg skal svo ekki fara lengra út í þá sálma, enda hefir áður verið á það minst. Jeg greiði hiklaust atkv. móti þessari brtt., og það þótt hún sje frá hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra. Um aðrar brtt. skal jeg ekki fjölyrða, og mun jeg sýna með atkv. mínu, hvernig jeg lít á þær.