28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í C-deild Alþingistíðinda. (2142)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Sigurður Stefánsson:

Jeg á hjer brtt., á þgskj. 406, við brtt. hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra, á þgskj. 400. Fer sú brtt. mín fram á, að þingmenn utan Reykjavíkur verði einir aðnjótandi dýrtíðaruppbótarinnar, 50%, sem brtt. hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra vill veita öllum þm. Jeg skal fúslega játa það, sje litið til tímanna, sem yfir standa, að kaup þingmanna ætti ef til vill að vera töluvert hærra en það er, eftir lögum þeim, sem nú gilda. En af ástæðum, sem jeg nú skal drepa á, finst mjer það fullmikil einurð af hæstv. forsætisráðherra að fara fram á, að þingfararkaup verði hækkað um 50%.

Í sambandi við þessa till. og þetta mál, sem fyrir liggur, vildi jeg leyfa mjer að benda á það, að þessi uppbót hefði komið flestum þm. að miklu betri notum í annari mynd. Jeg hefi áður vakið máls á því á þessu þingi, að það hafi að ófyrirsynju verið kallað alt of snemma saman. Það hefði getað unnið eins vel og getað afkastað jafnmiklu á 6 vikum eins og það nú er búið að gera á nærfelt 12 vikum, sem það er búið að sitja. Jeg geng ekki gruflandi að því, að langmestur hluti landsmanna muni líta á það sömu augum og jeg. Þetta verður auðvitað langdýrasta þingið, sem háð hefir verið á þessu landi. En við því er ekkert að segja, ef árangurinn af starfi þess yrði í einhverju hlutfalli við kostnaðinn, en þess er nú ekki að vænta. Og mjer dettur ekki í hug að gefa þingmönnum það að sök, þó afrek þingsins verði lítilfjörleg. Það er hreint og beint stjórninni að kenna og samvinnuleysi hennar við þingið.

Þegar það varð fyrir sjeð, fyrir 5—6 vikum, að erindi það, sem okkur var stefnt saman til að reka, mundi ekki geta komið á dagskrá fyr en reynd er á orðin, —og jeg spáði því þá strax, að það mundi alls ekki geta orðið fyr, — þá fóru nokkrir þm. þess á leit við stjórnina, hvort ekki væri rjettast, að við, sem heima eigum úti um landið og fórum frá heimilum okkar óráðstöfuðum, fengjum að skreppa heim í bili, meðan ekkert yrði að gert í þinginu í sambandsmálinu. Hæstv. stjórn tók nú svo í þessar málaleitanir, sem kunnugt er, að hún synjaði okkur heimfararleyfis, enda þótt jeg hafi það fyrir satt, að frestunartill. væri í fyrstu frá henni komin. Hvort stjórnin hafi verið einráð um þessa synjun skal jeg láta ósagt. En hafi hún felt þennan úrskurð með ráði og samþykki einhverra þingmanna, þá hafa það tæplega verið þingmenn utan af landi, heldur miklu fremur einhverjir þeirra, sem heima eiga hjer í Reykjavík.

Jeg held mjer sje óhætt að fullyrða, að ef sá vegur hefði verið farinn, þá hefði engum þm. utan af landi dottið í hug að fara fram á dýrtíðaruppbót. Þessi till. er því beinlínis afleiðing þess, að stjórnin hafði hvorki vit nje vilja til að verða við rjettmætum kröfum þingmanna utan Reykjavíkur. Þó þingmönnum verði nú borguð 50% af þingfararkaupi sínu í dýrtíðaruppbót, þá fer samt ekki hjá því, að flestir þeirra biði fjárhagslegt tjón af þingsetunni. Sú dýrtíðaruppbót, að fresta þingi og veita þingmönnum heimfararleyfi um hríð, hefði komið sjer margfalt betur fyrir þá heldur en þetta, sem virðist vera gert til þess að reyna að blíðka þá fyrir þá óbilgirni, sem þeim var sýnd með synjun þingfrestunarinnar, Jeg veit það með vissu, að stjórnin, — þegar hún hefir hugsað um þetta mál til hlítar, þá sjer hún, hvílíkt glapræði hún hefir framið með því að láta ekki verða af þingfrestuninni. Ef sá kostur hefði verið upp tekinn, þá hefði sú útgjaldabyrði, sem þingið hefir bakað landssjóði, orðið svo hundruðum þúsunda kr. skiftir minni, en nú hefir orðið, þegar því var nauðgað til að vera hjer samankomnu í marga mánuði við lítil störf. Hefði þinginu verið frestað, þá hefði ekki verið dembt á landssjóðinn þeim útgjöldum, sem þessi langa þingseta hefir bakað honum. Og jeg þori að segja, að flestar af þeim fjárveitingum, sem hjer hafa verið samþyktar, hefðu vel mátt bíða næsta reglulegs fjárlagaþings, án þess að landinu hefði stafað nokkur hætta eða tjón af. pað er því nokkurn veginn víst, að þessi 3—4 mánaða seta þingsins að þessu sinni verður hvorki fyr nje síðar talin með því, sem hyggilega hafi verið ráðið í þjóðarbúskapnum. Og þó þessi 50% dýrtíðaruppbót verði samþykt, þá verð jeg að segja, að hún verður ekki til að blíðka mig, eða til þess að dylja fyrir mjer þau skakkaföll og þau afglöp, sem vart hefir orðið í fari stjórnarinnar og lítillega hefir verið minst á hjer í deildinni áður.

Jeg mun sýna það með atkv. mínu, hvað mjer sýnist um þessa hækkun þingfararkaups yfirleitt, og skál jeg ekki fara frekari orðum um það. En jeg ætla þá að snúa mjet að brtt. minni á þingskj. 406. — Þegar litið er á afstöðu þeirra þingmanna, sem heima eiga í Reykjavík, og hinna, sem þing sækja utan af landi, þá vildi jeg miklu heldur vera þingmaður kauplaust sem Reykvíkingur heldur en sem þingmaður utan af landi fyrir 10 kr. á dag. En ekki er nú samt farið fram á þetta í minni tillögu, heldur einungis fram á það, hvort hv. þingmönnum gæti ekki virst tilhlýðilegt, að Reykvíkingar fengju ekki að þessu sinni neina dýrtíðaruppbót. Það verður fljótt ljóst hverjum, sem um það hugsar, að munurinn á aðstöðunni er æðimikill. Þingmenn úr Reykjavík þurfa engu, eða því nær engu, að slökkva niður af sinni atvinnu eða þeim störfum, sem þeir hafa á hendi. En þeir, sem utan af landinu koma, verða að slökkva niður allri sinni vinnu, bæði stjórn búa sinna og öllum störfum, sem þeir kunna að hafa á hendi. Þetta eitt er svo mikilvægt, að ekki ætti að þurfa að leiða fleiri rök til þess, að liggja mætti í augum uppi, að ekki er rjettmætt, að dýrtíðaruppbótin sje jöfn hjá öllum þingmönnum.

Mjer dettur alls ekki í hug að bera þingmönnum, sem heima eiga í Reykjavík, það á brýn, að þeir sjeu ekki eins nýtir og duglegir eins og hinir. Það er auðvitað upp og niður og alveg eins á báða bóga. Sumir þeirra þingmanna, sem hjer eiga heima, eru að allra dómi mestu nytsemdar- og dugnaðarmenn; um aðra getur aftur á móti orkað tvímælis, eins og gengur og gerist. Að sjálfsögðu má segja alveg það sama um þá, sem utan af landinu eru komnir. Það verður því alls ekki gert upp á milli þingmanna í því efni. En jeg vil endurtaka það, sem jeg vjek að áðan, að hafi það verið nokkrum af þingmönnum að kenna, að við þingmenn utan af landinu fengum ekki bestu dýrtíðaruppbótina, sem við gátum fengið, þingfrestunina, þá munu þeir fremur hafa verið úr flokki Reykjavíkurþingmanna en úr flokki hinna aðkomnu.

Jeg verð að álíta, eins og bæði jeg og aðrir hjer í deildinni hafa syo oft drepið á, að eins og fjárhag landssjóðs er nú komið, sje öllum þingmönnum skylt að reyna til að stuðla að því, að útgjöld landssjóðs verði sem minst að auðið er. Það getur nú að vísu verið fallegt að vera altaf með sparnaðinn á vörunum, — eins og jeg hefi fengið orð fyrir að gera fullmikið að, en jeg skammast mín ekkert fyrir það, heldur tel mig mann að meiri — en það er betra að sýna hann þá í verkinu við og við, ekki síst í því, að vera ekki sem harðastur í fjárkröfunum sjálfum sjer til handa.

Jeg skal nú ekki fara frekar út í þá sálma. En jeg álít, að nóg sje að gert, þó ekki sje gengið lengra með þessa dýrtíðaruppbót en gert var á síðasta þingi. Og jeg verð að lofa það, að uppbótina á nú ekki að veita með sama laumuspilinu og þá var gert. Sannast að segja finst mjer það eiga best við að koma hreint til dyranna, eins í þessu máli og öðrum.

Um mig get jeg sagt það, að jeg er í raun og veru hlyntur hækkun á dagkaupi þingmanna. En þegar jeg lít til þess, að enginn starfsmaður landssjóðs fær hærra en 40% dýrtíðaruppbót, þá finst mjer ekki ástæða til að setja oss þingmenn hærra en þá. Þeir vinna í þarfir landsins alt árið, en við sitjum hjer að eins tíma úr árinu, og að þessu sinni sitjum vjer hjer til lítils gagns og í lítilli þökk þjóðarinnar. Mjer fyndist hæfilegt, fyrst farið er að gera nokkra samþykt um dýrtíðaruppbót þingmanna, að ekki sje farið upp úr 40%, sem er hámark dýrtíðaruppbótar hjá öðrum starfsmönnum landssjóðs. Mjer þykir síst ástæða til fyrir þingmenn að færa sig lengra upp á skaftið á þessum tímum, þegar landssjóður þarf allra sinna muna með, og ótal útgjöld hlaðast á hann úr öllum áttum.

Jeg skal ekki að neinu leyti fara að verja fjárveitinganefnd, fyrir þeim aðköstum, sem til hennar er beint. Hv. frsm. (M. Ó.) hefir skýrt hennar málstað og mun halda uppi vörnum fyrir hana. Jeg var töluvert efablandinn um það í nefndinni, hvað ætti að gera í þessu efni. Mjer duldist það ekki, að eitthvað varð að gera til að bæta úr fyrir embættismönnunum, og mjer er það ljóst, að mikið meira hefði þurft að gera, hefði vel átt að vera. En hitt er mjer líka ljóst, að það eru ekki einungis ,þeir menn, sem nefndir eru í frv., sem þarf að bæta upp launin, heldur töluvert fleiri. Þess er að vænta, að sama verði að ganga yfir alla embættismenn, því það er mikill vandi fyrir þingið að „sortera“ suma úr og skilja þá eftir.

Jeg get lýst yfir því, áður en jeg lýk máli mínu, að jeg ætla við atkvgr. að vera á móti allri hækkun til þingmanna. Ekki fyrir það, að mjer þyki kaup þingmanna nógu hátt, heldur af hinu, að mjer finst við illa geta aukið við það syndaregistur, með kauphækkun til sjálfra vor, sem við berum fram fyrir þjóðina að loknu þessu þingi.