28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (2143)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Einar Arnórsson:

Mig langaði til að gera nokkrar athugasemdir við frv. á þingskj. 391, sem nú liggur fyrir til umræðu. Við höfðum nokkrar greinar af því til meðferðar í allsherjarnefnd fyr á þinginu. Það var frv. til laga um hækkun á launum yfirdómendanna, skrifstofustjóranna og hagstofustjórans. Nefndin gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, og var því að lokum vísað til fjárveitinganefndar, eins og öðrum málum um launahækkun, sem komið höfðu fyrir deildina. það kom til umræðu í allsherjarnefndinni, hvort ekki væri hægt að bæta úr brýnustu þörf embættismannanna með hækkaðri dýrtíðaruppbót. Mjer kemur það því á óvart, þegar einn af meðnefndarmönnum mínum, hv. þm. Borgf. (P. O.), lýsir nú yfir því, að hann vildi fara þá leið, fyrst hvorki hann nje aðrir nefndarmenn vildu við henni líta þegar hún kom til umræðu í nefndinni. (P. O.: Fyrst eitthvað á endilega að gera í þessum málum, þá vildi jeg heldur þá leiðina, með vissum takmörkunum, heldur en launahækkun, en helst vildi jeg, að ekkert hefði verið við það átt). — Það kemur auðvitað ekki til tals að fullnægja þeim rjettlætiskröfum, sem embættismenn (landsins þurfa að gera, þegar litið er til tímanna. Það má með sanni segja, að landið borgi starfsmönnum sínum með sviknum gjaldeyri. Við skulum t. d. líta á laun embættismanns, sem hefir 3.000 kr. Hvers virði voru þau eftir verðlagi peninga árið 1875? Þó við förum ekki lengra en að árinu 1900, eru 3.000 kr. nú ekki meira virði en 800—900 kr. þá. Þegar á þetta er litið, er það augljóst, að landið borgar sínum mönnum með sviknum gjaldeyri. Bæði aukaþingið 1916—1917 og þingið 1917 hafa gert þá játningu, að peningarnir sjeu ekki eins mikils virði og þegar launin voru ákveðin, með því að setja lög um dýrtíðaruppbót til embættismanna. Jeg hefi altaf litið svo á, að ekki ætti að skoða þessa dýrtíðaruppbót sem styrk, heldur sem lögmæta uppbót fyrir unnið verk, sem nú er vanborgað í samanburði við það, sem fyrir það var greitt fyrir nokkrum árum.

Þetta frv. fer fram á ofurlitla bót á kjörum embættismanna, en fullnægir ekki nándarnærri rjettmætum kröfum þeirra. Annað mál er það, þó að mönnum finnist, að starfsmenn landssjóðs eigi að taka einhvern þátt í dýrtíðinni, með því að gefa eftir nokkuð af rjettmætum launum sínum, sem þeir geta gert kröfu til — það getur mælt nokkur sanngirni með því. En það gera þeir fyllilega, þó að þetta spor sje stigið, sem frv. fer fram á.

Þegar jeg lít yfir frv., sakna jeg nokkurra starfsmanna, sem þar ættu vitanlega að standa. Er þar fyrst að nefna undirbókaverðina við landsbókasafnið og þjóðskjalasafnið. Þá eru dýralæknarnir ekki nefndir, og veit jeg ekki, hvort það er með vilja gert. Póstmeistara hefir einnig verið slept. Vonandi getur nefndin gefið skýringar á því, hvers vegna þessir menn eru ekki teknir með. Hún hefir fært ástæður fyrir því, hvers vegna sýslumönnum og prestum er ekki ætluð nein hækkun. Skal jeg ekkert um þær ástæður segja; þær geta verið góðar og gildar, þó að hins vegar sje ekki ólíklegt, að eitthvað megi við þær athuga.

Svo gætu líklega verið fleiri starfsmenn, sem ástæða væri til að taka upp í frv. Jeg sje ekki heldur símastjórann. Ef til vill þykir hann vera svo hátt launaður, að ekki sje þörf á að hækka laun hans. Eða er ástæðan til þess, að honum er slept, ef til vill sú, að komin er fram tillaga til þingsályktunar um hækkun á launum handa símamönnum, og að nefndin ætlist til, að hann fái launauppbót af þeirri upphæð. En það getur ekki verið ætlun nefndarinnar að brjóta lögin um ritsíma og talsíma með þingsályktun. Landssímastjórinn hefir lögákveðin laun, og þeim verður ekki breytt nema með lögum. Einnig er svo að orði komist í till., að launauppbót símamanna eigi að útbýta eftir tillögum landssímastjóra. Nú er það ekki venja, að menn útbýti sjálfum sjer launum eftir sínum eigin tillögum. — Jeg álít ekki ósanngjarnt, að þessi maður fái einhverja hækkun, þó hann sje með hærra launuðum mönnum hjer á landi. En það er rjett að veita honum hækkun með lagafrv., en ekki með þingsályktunartill.

Ýmislegt fleira er athugavert við frv. Jeg álít, að það sje rjettilega athugað hjá hv. þm. Borgf. (P. O.), er hann nefndi til menn, sem hafa auk launa sinna ókeypis húsnæði, ljós og hita. Sje það metið í peningum, sem þessi hlunnindi gefa á þessum tímum, þá verða þeir menn hæst launaðir allra embættismanna. Þá eru og nokkrir gallar á frv., sem nefndin hefir sjeð og komið með brtt. við, eins og t. d. orðalagið á síðustu greininni. En það er nú leiðrjett með brtt. hv. þm. Stranda. (M. P.).

Þá eru og komnar fram nokkrar brtt. við frv. Þær, sem skifta mestu máli, eru brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Það virðist vaka fyrir honum að koma meiri jöfnuði á launakjör embættismanna með till. sínum. Hann vill, að dýrtíðaruppbótin sje reiknuð af föstum launum embættismannanna, að viðbættri þeirri upphæð, sem frv. fer fram á. Hv. þm. (Sv. Ó.) heldur, að meiri jöfnuður verði á laununum með því. peir, sem hafi lægri launin, verði betur settir en eftir frv. nefndarinnar, en hinir þá að líkindum eitthvað ver settir. Jeg held nú, að þetta byggist að nokkru leyti á misskilningi hjá hv. þm. (Sv. Ó.). Það þarf ekki annað en ganga í gegnum einstaka liði í frv., í samanburði við brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Læknarnir fengju að vísu nokkru hærri dýrtíðaruppbót en þeir hafa nú. Nú hafa þeir 1.500 kr. laun og fá af þeim 40% dýrtíðaruppbót, eða 600 kr. Eftir till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fá þeir dýrtíðaruppbót af 2.000 kr., sem er 675 kr., svo að læknarnir græða þá 75 kr., ef till. verða samþyktar, það er að segja ef þeir eru fjölskyldumenn. Einhleypir læknar græða töluvert minna.

Það voru aðallega lægra launuðu mennimir, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) virtist bera fyrir brjósti. Næstir læknunum koma aukakennararnir við mentaskólann. Það skiftir nú litlu máli með annan, því að hann er ógiftur, svo að það er þá að eins hinn.

Ef till. nefndarinnar yrðu samþyktar, fengi sá maður fyrst 2.000 kr., sem áskildar eru í gildandi fjárlögum, auk þess dýrtíðaruppbót af þeirri upphæð, sem er 675 kr., og 500 kr. launaviðbót eftir þessum lögum, eða alls 3.175 kr., auk uppbótar þeirrar, sem hann fengi ef hann ætti börn á ómagaaldri. En eftir till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fengi hann 2.500 kr. í laun og dýrtíðaruppbót af þeirri upphæð, kr. 677,50, eða alls kr. 3.177,50. Þá myndi þessi kennari og þeir, sem líkt stendur á um, græða 2 kr. 50 au. á till. hv. þm. (Sv. Ó.). Það er mjög virðingarverð viðleitni að gera þeim rjett, er fyrir órjetti hafa orðið áður, og kr. 2,50 er þó altaf alt að því 5 mjólkurpotta virði nú í dýrtíðinni.

Þá skal jeg taka til dæmis mann, er hefir 3.000 kr. laun, svo sem prófessor með byrjunarlaunum. Afstaða hans yrði þannig, að eftir till. nefndarinnar fengi hann 3.000 kr. þ 637,50 kr. + dýrtíðaruppbót + 500 kr. launaviðbót, eða alls kr. 4.137,50. Eftir till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fengi hann 3.500 kr. + 525 kr. dýrtíðaruppbót, eða alls kr. 4.025. Hann tapaði þá kr. 112,50 á till. hv. þm. (Sv. Ó.).

Kem jeg þá að launum yfirdómara. Ef till. nefndarinnar yrðu samþyktar, yrði hlutskifti yfirdómara þannig, að hann fengi 3.500 kr. + 525 kr. dýrtíðaruppbót + 1.000 kr. eftir frv. þessu, eða samtals 5.025 kr. En ef brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) næðu fram að ganga, fengi hann 4.500 kr. + kr. 112,50 dýrtíðaruppbót af þeim launum, eða samtals kr. 4.612,50. Þá myndi hann tapa á till. hv. þm. (Sv. Ó.) kr. 413,50. En þar með er auðvitað ekki talið, að verið getur, að hann eigi börn á ómagaaldri, og myndi hann þá tapa 70 kr. uppbót fyrir hvert barn. Uppbót fyrir þau er sem sje bundin við, að menn hafi ekki 4.000 kr. eða meira í árslaun.

Víst er um, að skrifstofustjórar myndu tapa tiltölulega meiru, ef brtt. hv. þm. (Sv. Ó.) næðu samþykki. Eftir tillögum nefndarinnar fengju þeir alls 4.525 kr., að viðbættri uppbót fyrir börn sín, en eftir till. hv. þm. (Sv. Ó.) kr. 4.350,00. Mismunurinn yrði því l75kr., að því viðbæltu, er þeir af þeim kynnu að missa, er ættu börn undir 14 ára aldri. Hjá einum er mjer kunnugt um, að sá styrkur nemur 210 kr., og myndi hann þá tapa 385 kr. á till. hv. þm. (Sv. Ó.).

Því víkur þá svo við, að þeir, sem lægst eru launaðir, græða ofurlítið á till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.); læknar græða t. d. 75 kr. á ári. Þeir, sem hafa 2.000 kr. laun, en í þeim flokki mun að eins vera einn aukakennari, græða kr. 2,50. Hinir allir, sem þar eru fyrir ofan, tapa á till. hv. þm. (Sv. Ó.). Sá, er nú hefir 3.000 kr. laun, tapar kr. 112,50, sá, sem hefir 2.800 kr. laun, tapar kr. 87,50 o. s. frv. En auðvitað verður tapið lægra eftir því, sem tekjurnar lækka, þar til launin verða svo lág, að menn græða á brtt. hv. þm. (Sv. Ó.), eins og áður er getið; sá, sem hefir 2.000 kr. laun, græðir kr. 2,50, og sá, sem hefir 1.500 kr. laun, græðir 75 kr. Það er því vafamál, hvort ekki muni það rjett, er hv. frsm. (M. Ó.) sagði, að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tæki það með annari hendinni, er hann gæfi með hinni. Hann gefur læknum 75 kr. árlega, en sparar aftur miklu meira við aðra. Auðvitað má segja, að altaf sje virðingarvert að spara sem mest fyrir landssjóð.

Það gæti í fljótu bragði litið svo út, sem till. hv. þm. (Sv. Ó.) væru hagkvæmari í garð embættismanna. Ekki er víst, að allir átti sig á því, að uppbótin lækkar eftir því, sem launin verða hærri, uns hún hverfur alveg, og styrkurinn fyrir börn á ómagaaldri hverfur þegar launin nema 4.000 kr. Ástæðan, sem liggur til þess, að menn greiði brtt. hv. þm. (Sv. Ó.) atkv., getur þess vegna ekki verið sú, að þeir vilji hjálpa læknum og bæta kjör þeirra, því að læknar græða harla lítið á þeim till. Nei, þeir hljóta að álíta, að till. fjárveitinganefndar sjeu of háar. Og þá væri miklu hreinlegra að fella suma menn alveg í burtu eða bera fram till. um það, að þessi uppbót verði lækkuð, t. d. niður í 200 eða 300 kr. Það hefði verið einstaklega hreint og auðvelt fyrir menn að átta sig á því.

Þá er umtalsverð ein till., er gengur í sömu átt sem till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Það er brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.), á þgskj. 405, um laun yfirdómara. Þessi hv. þm. (P. O.) vill láta dómstjóra fá 700 kr. viðbót og spara með því 500 kr. á ári, og á hvorum yfirdómaranna um sig vill hann spara 300 kr. árlega. Þessi sparnaður myndi nema 1.100 kr. á ári. Það er í sjálfu sjer virðingarverð viðleitni, en þeim, sem vilja spara sem mest, vil jeg ráða til að sameina þessa till. hv. þm. Borgf. (P. O.) við till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Þá fengju menn mestan sparnað. Með því móti hefðu yfirdómarar að eins 4.200 kr. í föst laun, þá sparaðist styrkur til barna þeirra, ef þeir ættu nokkur, og í annan stað yrði dýrtíðaruppbótin lægri. Það er því hið mesta snjallræði í sparnaðaráttina að sameina þessar tvær till. (Sv. Ó.: Hugsast gæti, að báðar till. yrðu samþyktar). Það er rjett, en vel gæti svo farið, að till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) yrðu samþyktar, en till. hv. þm. Borgf. (P. O.) feld. Því vildi jeg ráða hv. þm. til að sameina till., til þess að komast sem ljettast út úr þessu. Ef báðar till. yrðu samþyktar, yrðu laun yfirdómara 3500 + 700 kr., eða 4.200 kr., að viðbættri dýrtíðaruppbót af þeim launum, |kr. 262,50, eða samtals kr. 4.462,50. En eftir till. nefndarinnar fengju yfirdómararnir 5.025 kr. Mismunurinn yrði þá kr. 262,50, eða samtals kr. 4.462,50. En 1.100 kr. sparnaður á báðum yfirdómurunum, auk þess sem ómagauppbótin sparaðist. Ef menn álíta því yfirdómarana of vel setta með till. nefndarinnar, þá er hægurinn hjá að samþykkja þessar till. og spara kr. 552,50 árlega á hvorum um sig.

Jeg þarf líklega ekki að benda á, hver laun yfirdómara hjer eru, í samanburði við laun yfirdómara í nágrannalöndunum, t. d. Danmörku og Noregi. Það mun víst flestum hv. þm. kunnugt þó get jeg greint hjer nokkrar tölur til samanburðar. Í yfirdóminum í Kristíaníu hefir dómstjóri 8.000 kr. laun og yfirdómarar 7.000 kr. í Danmörku hafa dómstjórar 6.000 kr. að byrjunarlaunum, og hækka þau upp í 7.200 kr. Auk þess fá þeir 25% hækkun af byrjunarlaunum sínum, eftir lögum frá 1909, og verða þá hæstu laun dómstjóra þar 8.800 kr., en lægstu laun 6.000 kr. Yfirdómarar í Danmörku byrja að vísu með lágum launum. Byrjunarlaun þeirra eru 3.200 kr., en þeir fá strax 25% uppbót af þeim, eða 4.000 kr. byrjunarlaun. Eftir 12 ár hafa þeir 4.800 kr. laun, að viðbættum 25%, eða 6,000 kr., sem eru hæstu laun þeirra.

Ekki þarf heldur að minna á í þessu sambandi, að landsyfirdómurinn hjer er í raun rjettri hæstirjettur hjer á landi. Það eru að eins nauðafá mál, sem áfrýjað er til Danmerkur, venjulega um 6—7% af þeim málum, sem landsyfirdómur dæmir. Um það hefir verið rætt, að dómararnir í landsyfirdóminum þurfi að vera sem allra óháðastir og með öllu lausir við önnur störf. Og skamt er á að minnast, að með stjórnarskrárbreytingu þeirri, er samþykt var 1913 og 1914, var kjörgengi tekið af þessari stjett manna. (P. O.: Ekki af þessum dómendum, er nú sitja). Það er rjett, sem hv. þm. Borgf. (P. O.) tekur fram. Kjörgengi er ekki tekið af þessum mönnum persónulega, enda höfðu þeir veitingu fyrir embættum sínum áður en stjórnarskrárbreytingin var samþykt. En myndi það ekki litið óhýru auga, ef þessir menn tækju að fást við stjórnmál og byðu sig fram til þings? Jeg efast ekki um, að flestir myndu svara því játandi.

Þá vildi jeg drepa á þriðja atriðið í sambandi við yfirdóminn. Við viljum fá æðsta dómstólinn inn í landið, ekki einungis að efni til, heldur og að forminu til. Við höfum lengi unað því illa, að danskur dómstóll, danskir menn, skuli hafa æðsta dómsvald í íslenskum málum, án þess að trygging sje fyrir því, að þeir dæmi eftir íslenskum lögum. Dómarar í hæstarjetti Danmerkur eru auðvitað ágætismenn, en íslenskum lögum og íslenskum högum eru þeir eigi kunnugir. Menn munu nú ef til vill segja, að það skifti engu máli, en sú mótbára liggur þó allnærri, hvernig við ættum að geta launað hæstarjetti, fyrst við tímum ekki að launa yfirdómendum sæmilega. (P. O.: „Guði sje lof, að til er hæstirjettur,“ var sagt nýlega). Jeg get tekið undir þetta og sagt: „Guði sje lof, að til er hæstirjettur,“ það er að segja hjema heima.

Þá skal jeg minnast á uppbótina á þingfararkaupi þingmanna. Mjer stendur nákvæmlega á sama um, hvort hún verður samþ. eða ekki, þó að jeg geti hins vegar ekki neitað því, að hafi 10 kr. og 8 kr. verið hæfilegt kaup árið 1912, sem menn verða að gera ráð fyrir, þá er það vitanlega óhæfilega lágt nú. Jeg geng út frá því, í bili, að þingfararkaup sje kaup fyrir unnið starf, en ekki styrkur til þess að geta setið á þingi. Býst jeg og við, að menn muni mjer sammála um það. En ef það er rjett, þá samsvarar kaupið því, að þingmenn hefðu áskilið sjer 4—5 kr. dagkaup 1912 eða lækkað kaupið frá því, sem það var áður. Frá þessu sjónarmiði fer till. um hækkun þingfararkaupsins í rjetta átt.

En svo er komin fram önnur till., sem byggist ekki á þessu. Hún er bygð á því, að þingfararkaup sje ekki þóknun fyrir unnið verk, heldur styrkur til þingmanna, til þess að geta dregið fram lífið hjer í Reykjavík. Sú till., er miðar að því að láta utanbæjarþingmenn eina fá uppbót, hlýtur að byggjast á því, að þingfararkaupið sje styrkur. Hv. flm. till. (S. St.) tók það fram, að hann vildi ekki gera upp á milli þeirra þingmanna, sem búsettir eru hjer í bæ, og þeirra, sem eiga heima úti um land. Hefði hann ekki tekið þetta fram, hefði jeg álitið, að hann ætlaði Reykjavíkurþingmenn óhæfari til þingsetu og þingvinnu en aðra. En þegar svo er ekki, þá kemst einungis sú skoðun að, að þingfararkaupið sje að eins dvalarstyrkur, en ekki kaup. En úr því að þessi hugsun er lögð til grundvallar, hefði hv. þm. (S. St.) átt að fylgja henni hugsunarrjett úr í ystu æsar og segja, að þeir þingmenn, sem búsettir eru í Reykjavik, ættu ekki að fá neitt kaup. Dvöl þeirra yrði þeim ekkert dýrari um þingtímann en ella. Þetta hefðu menn átt að athuga árið 1912, er þingfararkaupið var ákveðið.

Hitt er auðvitað annað mál, að ferðakostnaður utanbæjarþingmanna brýtur ekki í bág við það, þó að þingfararkaup sje álitið kaup fyrir unnið starf. Það heyrir til kaupinu, að þingmenn eigi að komast kostnaðarlaust á staðinn, þar sem þeir eiga að vinna, alveg eins og bóndi borgar einatt ferðakostnað kaupamanns síns.

Þar sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hlýtur að leggja þessa skoðun til grundvallar, þá er ekkert hægt við því að segja, þó að þessari reglu sje slegið fastri. Auðvitað mun jeg, eftir anda þingskapalaganna, ekki greiða till. hans atkv. Hins vegar mun jeg ekki telja það eftir, þó að dagkaup utanbæjarþingmanna verði hækkað úr 10 kr. upp í 15 kr. Jeg hygg, að þeir muni ekki of sælir af því.