28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í C-deild Alþingistíðinda. (2152)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Magnús Pjetursson:

Þar sem jeg á brtt. á þgskj. 411, þá finst mjer skylt að láta fylgja henni nokkur orð, þar sem nú þar við bætist, að fyrir liggur brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) við sömu grein, eða um það, hve nær lögin skuli öðlast gildi. Eftir frv. nefndarinnar eiga þau að öðlast gildi þegar í stað, en það sjá allir, að það getur ekki verið fyr en í næsta mánuði. Eftir því, sem um talað var í nefndinni, var ætlunin sú, að launabótin fjelli á helming þessa árs, enda er það þægilegra og viðkunnanlegra að reikna af hálfu ári heldur en af hálfum mánuði eða hluta úr mánuði. Mjer finst það því harla ankanalegt, ef brtt. hv. 1. þm. S.M. (Sv. Ó.) verður samþykt, þar sem þar er gert ráð fyrir, að lögin öðlist ekki gildi fyr en 1. jan. 1919. Þessar endurbætur á kjörum embættismanna eru til þess gerðar að bæta úr ástandinu eins og það er nú, og það úr bráðri nauðsyn, og úr þeirri neyð, sem af því leiðir, en um framtíðina er minna hugsað, því enginn veit, hvernig úr henni kann að rætast. þessi till. er því mjög varhugaverð, og mundi að eins bera vott um hið mesta kák, ef hún yrði samþykt. Annars ætla jeg ekki að blanda mjer mikið inn í umr. manna, en þó vil jeg láta þess getið, þar sem jeg er meðflutningsmaður að annari till., sem fer í þá átt að hækka meira laun lækna heldur en frv. vill gera ráð fyrir, að hjá fjárveitinganefnd liggur fyrir till. um það, að veita læknum dýrtíðaruppbót af aukatekjum, og vil jeg því mælast til þess, að meðflm. mínir taki þessa till. aftur til 3. umr.

Jeg hefi heyrt á mönnum, að þeir vilji heldur fara þá leið, að veita dýrtíðaruppbót af aukatekjunum, heldur en að hækka föstu launin, og er það því besta leiðin til þess að sjá hug þm. að taka brtt. okkar aftur í bili. þeir geta þá ekki borið því við, að þeir hafi ekki fengið að greiða atkv. um þá till., sem þeir helst hefðu kosið.

Það hefur ekki verið svarað einu atriði, sem kom fram hjá hv. 1. þm. (Sv. Ó.), en það var sú einkennilega skoðun, að hann kvaðst ekki vilja binda laun embættismanna landsins við það, að þeir ættu að verja öllum kröftum sínum í þarfir starfs síns, heldur ætti að gera ráð fyrir því, að þeir hefðu tekjur af annari atvinnu. Þetta er svo nýstárleg skoðun, að jeg álít, að hún alls ekki megi vera ómótmælt hjer í þinginu. Það má vera, að í einstökum atriðum þurfi þetta ekki að koma að sök. En sumar embættismannastjettir hafa áreiðanlega svo vandasamt starf, að það væri beinlínis skaðlegt fyrir þjóðfjelagið að launa þeim svo lágt, að þeir neyddust til þess að fara að gefa sig við öðrum störfum óskyldum. Slíkt er ráðið til þess að skapa hálfa menn, menn sem ekki má treysta til neins, og ekki leggja alúð við sitt starf, af því að þeir verða að vinna sjer inn fje á annan hátt. Þessi skoðun hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er því að mínu áliti hættuleg þjóðfjelaginu, og þeir menn, sem halda þessari skoðun fram, eru hættulegir fyrir þjóðfjelagið.