01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Við 2. umr. þessa máls komu fram ýmsar till. til breytinga, og lofaði fjárveitinganefnd að taka þær til athugunar. Það hefir hún gert að svo miklu leyti, sem till. komu svo snemma fram, að hún gæti rætt þær. Nefndin hefir því borið fram nokkrar brtt. á þgskj. 423. Þar leggur hún í fyrsta lagi til, að 1.500 kr. verði úthlutað sem uppbót til 1. og 2. bókavarðar við landsbókasafnið og aðstoðarskjalavarðar, samkvæmt till., er komu fram í hv. deild við 2. umr. En svo hefir hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) borið fram brtt. við þennan lið, á þgskj. 431. Fer hann fram á, að uppbótin til þessara manna verði hækkuð úr 1.500 kr. upp í 2.000 kr., og skrásetjaranum við landsbókasafnið verði bætt við. Nefndin hefir ekki fengið tóm til að athuga þessa brtt. og taka afstöðu til hennar, og hafa nefndarmenn óbundnar hendur um hana.

Í öðru lagi leggur nefndin til, að sú breyting verði gerð á 4. gr., að aðstoðarlæknar og dýralæknarnir í Stykkishólmi og á Akureyri fái sömu uppbót sem aðrir læknar.

Þá hefir komið fram brtt. við 6. gr., sem nefndinni var að vísu kunnugt um, en meiri hl. hennar gat ekki fallist á. Það er till. á þgskj. 422, sem einn nefndarmaður hefir flutt. Um hana hafa nefndarmenn því óbundnar hendur. Það hefir litla þýðingu að skýra ástæðumar fyrir því, að meiri hl. nefndarinnar getur ekki fallist á þessa till., enda var þess nokkuð getið í framsögunni við 2. umr., hvers vegna nefndin hefði ekki lagt til að veita kennaranum í gotnesku og engilsaxnesku sömu uppbót sem öðrum kennurum háskólans.

Þá hafði nefndin ekki tekið póstmeistara með í 8 gr. Var henni bent á, að ranglátt væri, að hann fengi ekki uppbót, og hefir nefndin því orðið ásátt um að leggja það til, og sömuleiðis breytt orðalagi greinarinnar, svo að rjett mál yrði.

Þá hefir nefndin flutt brtt. við 11. gr. Þá grein hefði mátt skilja svo, að forsetum væri einungis heimilt að greiða þingmönnum 40% af þingfararkaupi þeirra, og vildi nefndin orða þetta skýrara, þannig, að það kæmi skýrt fram, að átt væri við 40% uppbót af þingfararkaupinu, en ekki að þingmenn ættu einungis að fá 40% af þeirri upphæð, sem er lögákveðin.

Þá er að minnast á brtt. á þgskj. 432. Því miður hefir tillögumaður ekki sýnt nefndinni brtt., svo að hún hefir ekki haft tækifæri til að athuga hana. Að eins hafa nokkrir nefndarmenn átt tal um till.; eru þeir að vísu meiri hl. nefndarinnar, en geta þó ekki talað fyrir hönd nefndarinnar. Meiri hl. nefndarinnar getur ekki fallist á till.; þykir honum upphæðin — 15.000 kr. — óhæfilega há, þegar þess er gætt, að kjör póstmanna voru bætt í fyrra. Laun póstmanna í Reykjavík voru þá hækkuð úr 9.100 kr. í 13.100 kr., og utan Reykjavíkur um 8.900 kr. Þykir nefndinni því farið fram á of háa upphæð hjer. Fyrir nefndinni liggur brjef frá póstmeistara, þar sem hann segir, að hann vilji ekki fara fram á launabætur nema á reglulegum þingum, og hafi hann því ekki ætlað að biðja núverandi þing um neina uppbót. En er hann sá, að þingið hafði tekið launamálið til meðferðar, áleit hann sjer ekki fært að láta hjá líða að biðja þingið um einhverja úrbót, þar sem póstmenn væru mjög æjelega launaðir. Nefndin mun senda hv. fjárveitinganefnd í Ed. þetta brjef, svo að hún geti athugað þetta atriði og gert till. um það, en mun greiða atkv. gegn brtt. á þgskj. 432 af þeirri ástæðu, að henni þykir sú upphæð, sem þar er farið fram á, mikils til of há. það er ekki af því, að hún sje mótfallin því að veita póstmönnum einhverja uppbót, en hún hefir sem sagt ekki getað rætt þetta atriði á fundi, og því ekki getað komið sjer saman um aðra upphæð.

Nefndin væntir þess, að þar sem flestar till. hennar eru bornar fram eftir tilmælum og bendingum ýmsra hv. deildarmanna, þá muni þeir álíta, að þær sjeu heldur til bóta og í rjettlætisáttina, og leggur málið undir atkv. hv. deildar.