01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í C-deild Alþingistíðinda. (2165)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil að eins leyfa mjer að leiðrjetta dálítið hjá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Jeg sagði, að það væri gert ráð fyrir því, að það kæmi till. frá hæstv. fjármálaráðherra í hv. Ed. um sýslumennina, og að hann hefði búist við að geta ekki verið við hjer í dag, en jeg sagði ekki, að hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki haft tíma til að gera þetta, en það er reyndar fyrst fyrir skömmu, að þetta mál hefir komið til orða milli stjórnarinnar og eins hv. þm. úr fjárveitinganefndinni. En annars hafa þessar till. ekki komið frá stjórninni, og því eðlilegra, að þessi till. líka hefði komið frá fjárveitinganefnd. En svo vil jeg líka geta þess, að stjórnin hefir ekki ráðið þeirri uppbót til sýslumanna, sem komið hefir frá landsversluninni. Forstjórarnir hafa ráðið henni. Þess vegna voru þessi ummæli hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) algerlega ástæðulaus.