01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Hákon Kristófersson:

Jeg kann betur við að lýsa yfir afstöðu minni til frv. þessa og gera grein fyrir atkv. mínu. Jeg greiddi atkv. móti því við 2. umr., af því að mjer líkaði það ekki, og það hefir síst skánað síðan, og líkur til, að það batni ekki að þessari umr. lokinni.

Það mun mega fullyrða, að þegar þing þetta var kallað saman, munu flestir hafa haldið, að það væri gert í tilefni af tveim stórmálum, sem voru á döfinni, því margir munu hafa litið svo á, að brýn nauðsyn bæri til þingsamanköllunar, því annars mundi hún ekki hafa átt sjer stað, allra síst á þeim tíma, er raun varð á. Hygg jeg, að hið fyrra stórmálið hafi verið fánamálið og samband okkar við Dani, en hitt hafi verið bresku samningarnir, sem nú eru kallaðir breskt valdboð, og önnur mál, sem stæðu í sambandi við þá; og enn fremur hafi þingið átt að gera ráðstafanir til þess að sjá landinu fyrir vörum. Jeg hygg, að jeg megi fullyrða, að almenningur hafi litið svo á, að þetta væru aðalmálin, sem þetta þing ætti að hafa með höndum, og að þeim mundi það alleina snúa sjer.

Hitt mun öllum hafa komið á óvart, að þingið hyrfi að því að taka til meðferðar mál, sem hefðu stórútgjöld í för með sjer, svo framarlega sem þau gætu þolað bið til næsta reglulegs þings, sem saman kemur væntanlega að sumri. Við vitum, að slík mál tilheyra fremur reglulegu fjárlagaþingi heldur en aukaþingi. Og mjer er óhætt að fullyrða, að mál það, sem nú er til umr., hefði mátt biða næsta þings. En að það hefir orðið ofan á, að farið var að hreyfa þessu máli nú, mun vera afleiðing þess, hve þingið hefir lengi setið, og má því með sanni segja, að það hafi ekki til einkis verið.

Þingið 1917 samþykti lög um dýrtíðaruppbót embættismanna landssjóðs. Og býst jeg við, að hvorki einstakir þm. eða þær nefndir, sem um þessi mál fjölluðu þá, hafi gert ráð fyrir, að óveruleg breyting yrði gerð á lögunum á þessu þingi. Hinu mun allur þorri þm. og sennilega alþjóð hafa gengið út frá, að engin veruleg breyting yrði á þeim gerð, fyr en ef þurfa þætti á væntanlegu fjárlagaþingi 1919.

Þegar maður lítur á frv. það, er hjer liggur fyrir, sjer maður, að alt annað hefir orðið ofan á. Nú á að gera stórvægilega breytingu á þessari lagasmíði. Það virðist með allmiklum rökum mega slá því föstu, að frv. þetta sje verk hv. fjárveitinganefndar, og að þar komi fram skýrt álit hennar um það, hverjir sjeu ófærastir til að bera afleiðingar dýrtíðarinnar. Þó jeg þykist þess vís, að þeir mætu menn, er sitja í þeirri hv. nefnd, hafi talið sig bæta þar úr, er mest var þörfin, þá get jeg ekki betur sjeð en að sú viðleitni hafi algerlega mishepnast, og má með sanni segja, að það veki almenna undrun, hve óheppilega leið hv. nefnd hefir farið í þessu máli. Þó er ekki svo að skilja, að jeg telji ekki víst, að meiri hl. nefndarinnar telji ekki þessa leið ákjósanlegasta. En þeir hafa farið þá leiðina, sem þeir álitu þá í svipinn færasta. En þar sem svona er af stað farið, vona jeg, að nefndin taki það ekki illa upp fyrir mjer, þó að jeg sje á gagnstæðri skoðun, því að í sumum atriðum er sýnilegt, að nefndin er ekki sjálfri sjer samkvæm. Það er ef til vill rjett, að laun sumra embættismanna eru of lág, t. d. margra presta, ýmsra kennara o. fl. Það hefði því átt að vera hlutverk nefndarinnar að bæta þar úr, er skórinn þrengdi mest að. En jeg get ekki fallist á, að nefndin hafi gert þetta. Sem dæmi vil jeg geta þess, að nefndin tekur það fram í greinargerðinni, að prestar beri einna best dýrtíðina. Þetta er rökstutt með því, að þessir embættismenn hafi framleiðslu, sem gefi allmikinn arð, arð, sem er auðvitað sýnilegri hv. fjárveitingan. en mjer og mörgum öðrum, sem rekum landbúnað. En gerum nú ráð fyrir, að þetta sje á rjettum rökum bygt. En þá bæri eins að líta á ástæður þeirra embættismanna, sem ekki hafa svo umsvifamiklum embættisverkum að gegna, að þeir geti ekki helgað krafta sína að nokkru leyti öðrum störfum; þó að þeir hafi ekki framleiðslu, þá er sama hvaðan peningamir koma. Eins má geta þess, að í 7. gr. er svo ákveðið, að forstöðumenn skóla fái ókeypis húsnæði, ljós og hita. Þessi fríðindi eru svo mikil, að laun þessara embættismanna verða nálega eins há, ef ekki hærri, og ráðherralaun.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) nefndi rektor mentaskólans í þessu sambandi. Eftir því, er mjer tókst eftir, slepti hann úr nokkru af tekjum hans. Þær hefi jeg áætlað, eftir þeim upplýsingum, er jeg

hefi fengið, þannig:

Laun ……………………………………………………………. kr. 3.600

Dýrtíðaruppbót f. á. ………………………………………………. — 495

Hiti og ljós ……………………………………………………….. — 2.000

Húsnæði ………………………………………………………….. — 1.200

Launauppbót samþ. á seinasta þingi …………………………… — 400

Alls kr. 7.695

Þessum manni ætlar hv. nefnd 500 kr. launaviðbót samkvæmt frv. það er ekki meining mín, að jeg sjái eftir launum þessa mæta manns, heldur bendi jeg á þetta samræmisins vegna. Því gegnir það furðu, að nefndin skuli ekki hafa sjeð sjer fært að leggja það til, að laun þeirra manna, sem eru í virðingarmestu trúnaðarstöðunum, hækki að sama skapi, t. d. ráðherranna.

Jeg hygg mikinn mun á því t. d., hversu dýralæknirinn í Reykjavík hefir miklu hærri laun en aðrir læknar. Út á það er í raun og veru ekkert að setja.

En fyrst svo er, þá er ekkert samræmi í því, að hann fái jafnháa viðbót og aðrir læknar, ef litið er til 5. gr., þar sem hjeraðslæknar fá ekki jafna hækkun. (B. J.: Viðbót dýralæknis er 100 kr., en annara lækna 500). Þetta getur verið rjett, en jeg fór eftir því, er kom fram í ræðu hv. frsm. (M. Ó.). Þingskjalið um þetta hefir ekki borist mjer í hendur

Það er aldrei vinsælt að þurfa að nefna nöfn manna í sambandi við mál sem þetta er, en þó getur það oft verið nauðsynlegt. En jeg verð nú samt, auk þess er jeg hefi áður getið, að nefna nafn eins manns, sem er í hárri trúnaðarstöðu. Þessi maður er landlæknirinn. Hann mun hafa 4.500 kr. árslaun, og þar að auki bætti síðasta þing við hann 1.000 kr. í skrifstofufje. Enn fremur hefir hann verið skipaður í nefnd, sem gefur allmiklar tekjur af sjer. Jeg áætla þær tekjur ekki hærri en 4.000 kr.; en menn úr nefndinni hafa þó skýrt mjer frá, að þessar tekjur verði töluvert hærri, líklega um 5.000 kr. Eigi er svo að skilja, að jeg telji þessar tekjur eftir. En úr því að þessi embættismaður missir ekkert af launum sínum fyrir að sitja í nefndinni, má telja þetta allverulega dýrtíðaruppbót. Jeg býst og við, að hann hafi það að auki ýmsar aukatekjur, svo sem af setu í verðlagsnefnd o. fl. o. fl. Kunnugir telja tekjur hans um 15 þús. kr. Sömuleiðis er hann þingmaður, og þó að það sje ekki mikils virði, þá nemur þingkaupið þó nokkrum hundruðum króna, og ef menn eru búsettir hjer og sleppa engum störfum fyrir þingsetuna, eru það þó að minsta kosti vasapeningar. En hvað sem um það er að segja, þá virðist tæplega ástæða til 500 kr. viðbótar við þennan heiðursmann.

Þar sem nefndin sleppir engum þessara manna, en setur hins vegar ýmsa lágt launaða embættismenn hjá, má segja, að þar sje hún ekki sjálfri sjer samkvæm. Vitanlega má segja, að gengið hafi verið fram hjá þessum mönnum á síðasta þingi. En jeg lít svo á fyrir mitt leyti, að hlutfallið sje enn óbreytt milli þeirra, sem best eru launaðir, og þeirra starfsmanna landsins, sem lægst eru launaðir. Því er síður en svo, að nokkur ástæða sje til dýrtíðaruppbótar handa mörgum þeim, er hv. nefnd ber nú mesta umhyggju fyrir.

Án þess að jeg vilji gerast málsvari hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem er prófessor ;að nafnbót, nje ámæla nefndinni fyrir, að hún hækkaði ekki við hann, þá fyndist mjer þó, að meira samræmi hefði verið í því, að hækka laun hans, en sumra annara. Embættislaun hans eru ekki 6.000 kr., að því er jeg hygg, heldur eru þau fengin með sjerskildum samningi. En jeg minnist þó ekki á þetta af því, að jeg telji hann vanhaldinn af þeim launum, heldur af því, að svo framarlega, sem ekki eru teknar til greina aukatekjur, er nema mörgum þúsundum, t. d. hjá landlækni o. fl., þá er ekki rjett að gera það hjá öðrum.

Jeg fæ ekki betur sjeð en fjárveitinganefnd hefði getað litið svo á, að dýrtíðaruppbótarlög síðasta þings væru látin standa óhögguð til næsta reglulegs Alþingis, og þetta mál látið liggja milli hluta, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) benti á, til þess tíma.

Eftir því, sem fyrir liggur, er það sýnt, að hv. nefnd hefir gengið alveg fram hjá, ekki einungis mörgum einstaklingum af starfsmönnum hins opinbera, heldur heilum stjettum, t. d. sýslumönnum og prestum. Með þessu er jeg alls ekki að kvarta fyrir hönd þessara manna. Það, sem fyrir mjer vakir, er einkum samræmið. Og það verð jeg að segja, að því er aumkunarlega ábótavant eftir till. nefndarinnar.

Að vísu er prestum eftir frv. áætlaðar 8.000 kr., og við þá upphæð kemur það fram, að launabót á að veita þeim einum, sem mest eru þurfandi. Frá sanngjörnu sjónarmiði sjeð er þetta alveg rjett, en jeg get ekki sjeð, hvers vegna þessi sanngirni hefir verið látin ráða gagnvart þessum mönnum einum. Þessir menn eru engu síður en aðrir embættismenn í þjónustu þjóðfjelagsins, og eiga því bæði lagalegan og sanngjarnan rjett til launauppbótar eins og aðrir starfsmenn hins opinbera, og það þrátt fyrir það þó þeir reki búskap. Og það ber ekki fremur að líta á þá tekjugrein presta frekar en aukaatriði, en að líta á það, að aðrir embættismenn hafa meiri tekjur en aðallaunin af embættinu, af ýmsu öðru.

Jeg hefi ekki komið með brtt. við frv., sem fara ættu í þá átt, að færa niður launauppbótina til sumra embættismanna og yfirleitt að koma á meiri jöfnuði og samræmi, af því að utan um þetta frv. hefir verið slegin svo þjett skjaldborg, að ómögulegt virðist að rjúfa hana, enda er það sýnt, að till., sem færi í þá átt að færa niður uppbót sumra, sem nefndir eru í frv., mundi ekki hafa komist hjer að, hversu rjettlát og sönn sem hún hefði verið. Einhver hv. þm. hvíslaði því að hv. frsm. (M. Ó.), að hann skyldi ekki svara mjer. Jeg var alls ekki að óska eftir því, enda hafa mín orð við svo góð rök að styðjast, að ekki mun gott að hrekja þau. Mín orð eru, nú sem fyr, að jeg vona, bygð á ólíkt meiri sanngirni en orð þess hv. þm., sem með hvíslingarnar fór, hv. 1. þm. N.-M. (J. J.), og það vil jeg segja þeim hv. þm. (J. J.), að skoðun mín er ekki bygð af öðrum, hvorki í þessu eða öðrum málum!

Þá er í 11. gr. gert ráð fyrir, að við rekum endahnútinn á alt þetta launamál, með því að samþykkja að veita okkur sjálfum 40% hækkun á dagkaupi okkar. Jeg vil ekki, þegar til margs er litið, neita því, að þetta sje sanngjörn krafa, en margir eru þó þeir meðal þessa þjóðfjelags, sem bágara eiga en við þm., en fá þó enga dýrtíðaruppbót á vinnu sinni. Jeg hefði álitið, ýmsra atvika vegna, best fara á því, að engin dýrtíðaruppbót væri að þessu sinni veitt þm., en ef hún væri nokkur, að hún hækkaði þó ekki frá því í fyrra, en nú hefir þetta ekki getað orðið, og sje jeg því ekki annað en verið sje að ýta undir aðra til þess að æskja launaviðbótar, auk þeirrar, sem þeir hafa þegar fengið. Jeg vil samt engan veginn segja, að þessi upphæð sje of há, en þó hefði jeg kunnað hinu betur, að hafa hana nokkuð lægri, einkanlega vegna þess, að það er mikill þorri manna, sem sjer eftir þessari upphæð til þm., og þar sem vandræði ganga yfir land alt, af mörgum ástæðum, hefði farið vel á því, að þingmenn gengju á undan í því að sýna sem mesta sparnaðarviðleitni. Eins og áður hefir verið tekið fram hjer í hv. deild, þá hefði það verið langbesta dýrtíðaruppbótin, sem þm. hefðu fengið, að þinginu hefði verið frestað í vor. Mig skal síst furða, eftir því sem nú er fram komið, þótt þær raddir heyrðust í sumar, er fresta átti þinginu, að það væru landráð, ef það hefir legið í loftinu, að hækka ætti kaupið. Þeir, sem voru mest á móti þingfrestuninni, voru, að mig minnir, flestir búsettir hjer, enda þeim bagaminst að sitja á þingi um þetta leyti eða yfir sumartímann.

Þá vil jeg minnast á till. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) um það að hækka kaup póstmanna. Eins og jeg hefi þegar lýst yfir, þá er jeg á móti frumvarpsómynd þeirri, er hjer liggur fyrir, en þó sje jeg mjer ekki fært að ganga móti þessari till., svo framarlega sem frv., sem varla þarf að efast um, verður samþykt. Hún sýnist fara í svo sanngjarna átt, sem verða má, borin saman við frv., og stendur meira að segja skör framar en margar till. í frv. Hjer eiga hlut að máli menn, sem eru mjög illa launaðir. Vitanlega má benda á það, að við þessa menn var bætt í fyrra, en sama má segja um marga af þeim, er nú eiga að fá uppbót samkvæmt frumvarpinu. En meðal annars, sem styður ummæli mín um það, að ekki hafi alment verið litið svo á, að launamálið yrði tekið fyrir nú, eru ummæli póstmeistara. Hann lýsir yfir því, að hann hafi gert ráð fyrir, að þetta mál yrði ekki tekið til umræðu eða athugunar á þessu aukaþingi, og því hefði hann ekki komið með tillögur um launabætur handa póstmönnum. Það má virkilega með sanni segja, að þetta mál er að þessu sinni komið inn í þingið fyrir tilstilli margra ágjarnra manna, er sífelt eru viðbúnir að nota öll tækifæri til að afla sjer og skjólstæðingum sínum fjár. Jeg get fallist á, að það hafi verið ilt og óþægilegt verk, sem hv. fjárveitinganefnd hefir haft með höndum, en jeg get ekki heldur neitað því, að hún hefir tekið margt til greina, sem ekki var ástæða til, og enn fremur á hún nokkra sök í ýmsu því ranglæti og ósanngirni, sem felst í þessu frv. Jeg vil, áður en jeg lýk máli mínu, taka fram þá skoðun mína, að samræmisins vegna get jeg ekki sjeð betur en að hv. fjárveitinganefnd langi til að lækka laun læknanna í 5. gr., þar sem hún gerir ráð fyrir, að þeir njóti ekki sömu uppbótar og aðrir menn. Það er sýnt, að þeir heiðursmenn hafa átt minni ítök í hv. fjárveitinganefnd, en sumir af hjer búsettum mönnum. Þar kemst hún þó að þeirri niðurstöðu, sem jeg vildi að hún hefði komist að aftur, að frekar bæri að hækka laun þeirra, sem lægst hafa, heldur en hinna.

Fleiri orðum ætla jeg ekki að fara um frumvarp þetta að sinni. Það á eftir að koma fyrir augu þjóðarinnar og fær þar vonandi sanngjarnan dóm.