01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í C-deild Alþingistíðinda. (2169)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Sigurður Stefánsson:

Hæstv. forsætisráðherra taldi ummæli mín um afskifti stjórnarinnar af þessu máli ástæðulaus. Það getur verið, að svo sje, frá hans sjónarmiði. En betra hefði þó verið, ef hann hefði fært einhver rök fyrir því. Hann taldi, að fjárveitinganefnd hefði verið innan handar að snúa sjer til forstöðumanna landsverslunarinnar, til þess að fá að vita, hve miklum tekjum sýslumenn gætu búist við fyrir störf sín viðvíkjandi versluninni. En jeg verð að segja, að jeg þekki engan lið framkvæmdarvaldsins á landi hjer, sem þingnefndir eigi að sjálfsögðu að snúa sjer til, annan en hæstv. landsstjórn. Það getur engin nefnd verið skyldug til að hlaupa út um borg og bý, til hinna og þessara stofnana, til þess að safna skýrslum og upplýsingum um störf og tekjur embættismanna landsins. Hitt verð jeg að álíta, að þar sem hæstv. forsætisráðherra lýsir nú yfir því, að koma muni brtt. frá stjórninni, um launauppbót handa sýslumönnunum, að honum hafi snúist hugur síðan málið var hjer til 2. umr. Þá fór hann mjög lofsamlegum orðum um frv., eins og það kom frá nefndinni. Hann varaði menn þá við að snerta mikið við gerðum nefndarinnar og virtist vera á sama máli og hún í öllum atriðum. En jeg álít, að nefndir ættu ekki að þurfa að ganga eftir stjórninni um upplýsingar, sem þær þykjast þurfa að fá. Stjórnin ætti að telja það skyldu sína að gefa öllum nefndum þær upplýsingar, sem hún getur, svo að gerðir þeirra geti orðið sem rjettastar og nákvæmastar.

Nú veit jeg ekki enn þá, hvernig er varið með þessa fyrirhuguðu uppbót sýslumannanna. Jeg hefi jafnvel heyrt, að ef til vill eigi að bæta þeim kjör sín á einhvern annan hátt en þingið leggur til að gert verði við aðra embættismenn, landsverslunin eigi þar að hlaupa undir bagga með landssjóðnum. Jeg skal játa, að mjer þykir óviðkunnanlegt að hafa landsverslunina til að bæta upp kjör sýslumannanna, auk þess sem þær tekjur hljóta altaf að verða ærið óvissar. — Jeg segi þetta ekki af því, að mjer sje nokkurt kappsmál með launauppbót handa sýslumönnunum. En fyrst farið var að káka við launauppbót handa embættismönnum yfirleitt, þá var auðvitað engin ástæða til að skilja sýslumennina eftir. Nú heyrir maður, að eigi að taka þá, — ekki til bænar, heldur til meðferðar í hv. Ed., og verður það að teljast vel farið.

Jeg hefi aldrei setið á þingi, sem jafnlítil samvinna hefir verið á milli stjórnar og þings, eins og á þessu þingi. Það lítur helst út fyrir, að það sje markmið stjórnarinnar að skifta sjer sem minst af þeim málum, sem á dagskrá eru. Manni virðist helst, sem hún telji sig eiga að vera aðgerðalausan áhorfanda að öllu saman. Það getur verið holt fyrir þessa stjórn að fara þannig að ráði sínu, þar sem hver limur hennar hefir ekki meira en 5—10 atkvæði í þinginu að styðjast við. En parlamentariskt er það ekki. Það er að sjálfsögðu hagfelt fyrir stjórnina að geta sagt eftir á við þingið, ef eitthvað fer öðruvísi en til var ætlast: Þetta hafið þið samþykt. Jeg ber enga ábyrgð á því. — Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta. Mjer finst sjálfsagt, að launauppbót til sýslumannanna sje eðlileg afleiðing af launauppbót annara embættismanna.

Eftir að jeg heyrði tillögu hv. þm. Dala. (B. J.), um að borga embættismönnum landsins eftir verðlagsskrá, þá hefi jeg haft töluverða tilhneigingu til að fylgja henni. En það verður aldrei úr, að slíkt greiðslufyrirkomulag komist á, ef þingið á að „organisera“ það upp á sitt eindæmi. Ef nokkuð á úr því að verða, þá er það stjórnin, sem verður að undirbúa það og leggja það fyrir þingið. Jeg sakna þess stórlega, ef landaurareikningi á alveg að verðá útrýmt úr íslenskri löggjöf. En nú er það að komast á, eins og kunnugt er. Þó jeg vilji síst bera brigður á það, að nú á tímum sitji vitrir menn á þingi, þá dettur mjer ekki í hug að halda, að við eða samtíðarmenn vorir reynumst í þessu efni djúpsærri eða framsýnni en forfeður vorir, sem lögðu landauragrundvöllinn undir íslenska skattalöggjöf, er staðið hefir óhaggaður að mestu leyti um allar þær aldir, sem þetta land hefir lögum lotið, — alt fram á síðustu áratugi. Jeg fyrir mitt leyti teldi það ærna rjettarbót, ef það kæmist á, að landaurar yrðu aftur upp teknir. En til þess að beitast fyrir því að koma því á er enginn rjettkjörnari en landsstjórnin. Nú getur vel verið, að sú stjórn, sem nú situr að völdum, sje á öðru máli um þetta efni, og er henni þá vorkunn, þó hún beiti sjer ekki fyrir því. En jeg álít, að það sje ekki skylda þingsins að hafa frumkvæði í slíkum málum, heldur stjórnarinnar, og það þing, sem ekki nýtur meiri samvinnu frá stjórnarinnar hálfu en þetta þing, í þeim vandamálum, sem fyrir liggja, það er að mínu áliti stjórnarlaust. Það vantar þá samvinnu, sem á að vera milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Það er t. d. ekki þingið, sem á að segja stjórninni, hvar hún eigi að taka tekjur fyrir landssjóð, heldur á þingið að heimila stjórninni að taka fje úr þeim tekjulindum, sem hún sjálf hefir fundið. Svona er um öll stórmál, sem koma á dagskrá þings og þjóðar. Það er ekki hægt að búast við því, að þingið geti, á þeim stutta tíma, sem því er ætlaður til setu, leyst af hendi eins fullkominn undirbúning stórra mála eins og stjórnin, ef hún er stjórn sem til nokkurs dugir. Jeg skal svo ekki lengja meira umræður um þetta mál.