02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg þykist vita, ef hv. þingdm. vantar ekki of marga á fund, að frv. muni sigla beggja skauta byr út úr deildinni, og mun því gagnslítið deila um það. Samt vildi jeg lýsa yfir því, að þótt jeg greiði atkv. gegn frv. í heild sinni, þá er það ekki af því, að jeg álíti ekki brýna þörf á einhverri launaviðbót til sumra starfsmanna landsins. En jeg á ekki kost á að greiða atkv. með uppbót til þessarar manna, án þess að jeg verði um leið neyddur til að leggja lið hinu mesta misrjetti, sem fram hefir komið á síðustu þingum í þessu launabóta- og dýrtíðarmáli.

Jeg er því samþykkur að veita læknum í útkjálkahjeruðum uppbót. Sömuleiðis eiga prestar, og þó einkanlega bændurnir, að fá einhverja frekari uppbót, póstmenn og ýmsir aðrir starfsmenn, sem við sultarkjör sitja. En þegar ekki er hægt að samþykkja þetta án afarkosta, sem jeg tel vera, þá hlýt jeg að setja mig móti öllu málinu, enda er frv. þetta það skrípi, sem ekki á stuðning skilið, eins og áður hefir nógsamlega verið tekið fram. Þetta er þá greinargerð fyrir afstöðu minni og atkv., og vildi jeg um leið mælast til þess, að hæstv. forseti láti fara fram nafnakall um frv.

Loks vil jeg víkja örfáum orðum að hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Jeg veit ekki, nema hann hafi „skuldskrifað“ mig fyrir þeim 115 kr., er við deildum hjer um við 2. umr. og hann staðhæfði að væri raunveruleg uppbót þess manns, sem fengi laun sín nú hækkuð úr 3.500 kr. í 4.000 kr., en í stað þess að fá dýrtíðaruppbót af 3.500 kr., eins og áður, fengi uppbót eftir minni till. af 4.000 kr.

Jeg þarf nú tæplega að endurtaka það, að þetta er allsendis rangt. Dýrtíðaruppbót eftir lögum nr. 59, 26. okt. 1917, er 525 kr. af 3.500 kr. og 350 kr. af 4.000 kr. Þess vegna verður hinn sami munur, ef till. mín hefði fram gengið, 325 kr., en ekki 115 kr. En hitt er annað mál, að með því að breyta dæminu og gera ráð fyrir, að hlutaðeigandi maður ætti börn, jafnvel 6 börn, eins og hv. þm. (E. A.) gerði, þá gæti uppbótin orðið minni og maðurinn jafnvel tapað á henni. Þetta þurfti jeg ekki að láta segja mjer; það lá í augum uppi, og var þó alt að einu vinningur meiri en 115 kr., þótt kaupþegi hefði 2 börn. Þetta var því að eins gert til þess að breiða yfir skekkjuna hjá hv. þm. (E. A.), og er þessi barnareikningur því algerlega fyrir utan efnið, alveg úti á þekju. Mætti segja, að hv. þm. (E. A.) hefði „barnað fyrir mjer söguna“, ekki einu sinni, heldur 6 sinnum, og það er sitthvað en að hnekkja hárrjettum reikningi.