02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í C-deild Alþingistíðinda. (2179)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Pjetur Jónsson:

Jeg ætlaði að mæla nokkur orð með brtt. minni, en hv. þm. Stranda. (M. P.) hefir nú mælt með sinni brtt. á þann hátt, að það getur átt við mína, af því þær eru sömu stefnu, og get jeg því skírskotað til þess, er hann sagði.

Að eins vil jeg geta þess, að ef athuguð er hækkunin í launatill. fjárveitinganefndar af hundraði hverju, þá er sú uppbót þetta 15—20% á launum flestra embættismanna, sumstaðar minna, en sumstaðar að vísu nokkuð meira. En ef maður tekur laun póstmanna, þá eru þeim áætlaðar í fjárlögunum nú ca. 45 þús. kr., og er þá viðbótin eftir till. minni rúmlega 20% til jafnaðar. En það er nú ekki ætlun mín, að þessu fje skuli úthluta „procentvis“, heldur eftir ástæðum. Jeg hefi ekki gert ráð fyrir því, að farið yrði að skifta sjer af brjefhirðingum, sem eru mest í höndum presta og bænda úti um land, en auðvitað er á valdi póstmeistara að gera það, ef honum sýnist svo, í einstökum tilfellum.