01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Sveinn Ólafsson:

Af því að jeg er meðflutningsmaður þessarar till., get jeg eigi leitt hjá mjer að segja nokkur orð.

Eins og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram, hafa orðið allmiklar breytingar á þessu máli síðan till. þessi kom fram, þar sem nú eru líkur til, að læknar fái til jafnaðaruppbótar 500 kr. hver. Þess vegna efast jeg um, að till. eigi nú við.

Við 2. umr. launabótamáls embættismanna, sem nýlega er afstaðin, kom það í ljós, að menn vildu eigi aðhyllast dýrtíðaruppbót, sem væri miðuð við laun læknanna uppbætt og því aukin. Jafnvel hv. þm. Stranda. (M. P.) var svo hlálegur, að vilja eigi þiggja fyrir læknanna hönd 75 kr. hækkun á dýrtíðaruppbótinni, sem till. mín í því máli laut að. Jeg get vel skilið, að honum þyki þetta lítil uppbót. En 20 kr. uppbót eftir þessari till. er þó minni. Hann hefir sem sje gefið þá upplýsingu, að aukatekjur margra lækna sjeu 50—500 kr. Af 50 kr. aukatekjum mundi uppbótin eftir þessari till. verða 20 kr., af 100 kr. 40 kr., af 200 kr. 80 kr. Það er álíka upphæð og áður stóð til boða, og tekur varla máli að bjóða það, fremur fyrnefndum 75 kr. Jeg get þess vegna ekki felt mig við að fylgja þessari till., eins og hún nú er. Jeg vil ekki móðga hv. frsm. (M. P.) með því að bjóða stjettarbræðrum hans þessa uppbót, úr því að jeg var svo óheppinn að styggja hann með 75 kr. uppbótartilboðinu.

Jeg veit vel, að lækna, sem hafa mikil störf — um 2.000 kr. aukatekjur — munar um uppbótina. En um slíka dýrtíðaruppbót er það að segja, að hún kemur niður þar, sem síst skyldi; því þeir, sem hafa rýrustu embættin, þurfa helst á uppbótinni að halda. Jeg sje þess vegna ekki til neins að bjóða 20 til 200 kr. uppbót þeim, sem mesta hafa þörfina; þeim getur engin styrkur í því verið, að vel stæðir stjettarbræður þeirra fái þrefalda til fjórfalda uppbót.

Jeg mun því ekki fylgja till. úr því, sem nú er komið, og líkt mun vera um suma meðflutningsmenn mína.

Jeg fæ ekki sjeð, að uppbót af 50 kr. geti komið í veg fyrir það, að læknar segi af sjer, eins og hv. frsm. (M. P.) og hv.þm.V.-Sk. (G.Sv.)óttuðust svo mjög, því að þeir læknar, sem ekki hafa meiri aukatekjur, hafa mesta þörf fyrir að segja af sjer, og ef sá er vilji þeirra, trúi jeg ekki, að þeir spekist við 20—40 kr. uppbót, jafnvel ekki þótt hún næði 200 kr.