14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Matthías Ólafsson:

Jeg ætla að eins að gera grein fyrir atkv. mínu. Jeg hefi ekki getað sjeð það, að hjer sje komin nokkur veruleg neyð; jeg veit ekki annað en að gjaldþol manna sje ekkert minna en fyrir ófriðinn, jafnvel heldur meira; ef það er rjett, að menn hjer hafi grætt svo, að hundruðum þúsunda skiftir, þá er það vitanlegt, að það getur ekki verið mikið dýrtíðarhljóð í mönnum, því að ef þjóðarauðurinn eykst, þá eykst líka gjaldþolið að sama skapi.

Það hefir verið sagt hjer, að lánaleiðin væri ófær. Hin leiðin hefir ekki verið farin. Jeg skal ekkert segja um það, hvort það hefir verið vanrækslu stjórnarinnar að kenna, að hún hafi ekki lagt nóga skatta á þjóðina; en ef landssjóð vantar fje, en gjaldþol er í landinu, verðum við að hafa það svo, að einhver leið verði til að bjarga úr neyðinni. Þá verður það best, að hvert sveitar- eða bæjarfjelag sjái fyrir sjer sjálft, en leiti ekki fyr til landssjóðs en alt þrýtur. Ef mikill gróði er kominn í landið, þá ætti að vera hægt að liðsinna þeim mönnum, sem orðið hafa harðara úti, enda er þetta gert alstaðar annarsstaðar, ef þjóðarauðurinn eykst, og því held jeg að best væri, að hvert sveitarfjelag eða bæjarfjelag fari með sín mál eins og því sýnist, svo að þegar það getur ekki staðist lengur, þá er hægt að flýja til landssjóðs, en þangað til er rjettast, að lítið sje gert að því að veita lán eða beinan styrk.

Það hefir oft verið tekið fram hjer, að það sje sama fyrir mann, sem er í neyð, hvort hann fái lán eða honurn sje gefið. Lánið bjargar manninum í svipinn, engu siður en gjöfin, en líkurnar eru miklar til þess, að maðurinn geti greitt lánið aftur, þegar um hægist, og þá er það bæði manninum sjálfum og landssjóði fyrir bestu. Verði maðurinn hins vegar aldrei fær um að endurborga lánið, þá er ekki verra að gefa það upp seinna, en það er ekki víst, að það hafi svo heppileg áhrif á hugsunarhátt fólksins, ef það þarf ekki annað en að hrúgast á landssjóðinn til þess að fá gjafir, og þess vegna á styrkurinn heldur að vera fólginn í lánum en gjöfum. Jeg hefði því helst viljað, að einstaklingum væri alls ekki lánað, heldur bæjar- eða sveitarfjelögum, og að þau væru ein til eftirlits með það.