04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í C-deild Alþingistíðinda. (2208)

82. mál, landsverslunin

Frsm. (Pjetur Jónsson):

Þessi till. er ekki komin fram beint fyrir tilverknað eða hvatir forstjóra landsverslunarinnar. Þó á hún að verða til að styrkja þeirra vilja og tilgang með verslunina, sem sje að færa hana í það horf, sem till. fjallar um, að hafa viðskiftin beinni við kaupmenn og kaupfjelög en verið hefir. Við höfum rætt þetta mál við verslunarforstjórana, og þar sem nefndin, eða að minsta kosti meiri hl. hennar, hefir orðið þeirrar skoðunar, að æskilegt væri, að verslunin færðist sem mest í þessa átt, þá álítur hún rjett, að þingið láti vilja sinn í ljós, ef það óskar, að eitthvað sje gert að því, að breyta til í þessa átt. þess vegna er till. komin fram að því er fyrri liðinn snertir.

Það er kunnugt, að landsverslunin verður aðallega að hafa aðsetur fyrir vörubirgðir úti um landið hjá kaupmönnum og kaupfjelögum. Til þeirra verður að leita með húsnæði fyrir vörurnar. þeir eiga báta og önnur uppskipunartæki o. fl. Líka er lánstraustið mest hjá þeim. Þó það geti líka bilað, ef veruleg óáran kemur yfir, þá standa þeir samt betur að vígi en flestar aðrar stofnanir. — Aftur á móti get jeg búist við því, að menn verði hræddir við framfærslu á vörunum ef kaupmenn verði einráðir. En það er ekki ætlun tillögumanna, að svo verði. Forstjórar landsverslunarinnar eiga að sjá um, að vörurnar verði ekki seldar með óeðlilegri framfærslu. Með till. er ekki stigið spor í þá átt að hækka verð á vörunum. Við hyggjum, að landsversluninni verði ekki ofvaxið að sjá um verðlagið eftir sem áður.

Nefndin hefir ekki vilja orða till. svo, að kaupmenn og kaupfjelög skuli ein hafa útsölu á vörunum. Það getur verið æskilegt að hafa undantekningar, þegar sveitar- eða bæjarstjórnir, — t.d. bæjarstjórnin hjer í Reykjavík, vilja kaupa vörur í stærri stíl, til þess að úthluta þeim meðal fátækra manna, sem ekki hafa borgunarmöguleika til að fá vöru sína hjá kaupmönnum. Nefndin vildi því ekki orða till. svo, að ekki mætti víkja frá því að skifta við kaupmenn og kaupfjelög, þó það verði meginreglan.

Þá kem jeg að 2. lið till. Nefndin hefir athugað, hvernig varið er lánum þeim, sem landsverslunin hefir fengið til rekstrarfjár. Því mikið er undir því komið, að verslunin hafi nóg fje með höndum, sjerstaklega eins og nú horfir við, þegar alt útlit er fyrir, að verslunin verði að taka á sínar herðar innkaup á öllum matvörum, kolum, salti og steinolíu. Það getur farið svo, að til þess skorti veltufje. Sum lánin, sem fengin hafa verið handa versluninni, eru tekin til svo skamms tíma, að fáist þau ekki framlengd, þá getur orðið tilfinnanlegur skortur á veltufje. Nefndin efast ekki um, að stjórnin fari eins langt og hægt er í því að fá lán handa versluninni, en hún taldi þó rjett,að þingið hvetti stjórnina til að gera það, sem hún gæti, til þess að fá varanleg lán.

Óhætt mun vera að fullyrða, að þetta sje eitt af mestu áhyggjuefnum nú sem stendur, þar sem það gæti komið í veg fyrir, að landsverslunin gæti starfað eins og með þarf. Lögin um ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum heimila tæplega meira en að taka bráðabirgðalán til landsverslunarinnar. Gæti því verið ástæða að heimila stjórninni með sjerstökum lögum að taka lengri lán til verslunarinnar. Nefndin hefir þó ekki farið þá leið; þótti henni nægilegt að fela heimildina til þess í þingsályktunartill.

Einnig gæti það komið til mála, að stjórnin tæki lán innanlands til landsverslunarinnar. Sumum nefndarmönnum hefir dottið í hug, að þetta væri hægt. Auðvitað yrði það lán „obligation“-lán, er yrði endurgoldið á löngum tíma. Þetta lán myndi ekki auka fjármagn landsins eða þjóðarinnar, sem heildar, en landsverslunin hefði þó um frjálsara höfuð að strjúka heldur en ef lán væri tekið erlendis.

Nefndin getur ekki fallist á brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.) á þgskj. 281. Nefndin vill alls ekki hlynna að því, að farið sje sjerstaklega að beina versluninni í hendur sveitarfjelaga. Hún álítur nægilegt, að landsverslunin versli einungis við sveitarfjelögin ef brýn nauðsyn ber til, en að öðru leyti eigi meginreglan að vera sú, að vörurnar gangi í gegnum hendur kaupmanna og kaupfjelaga.

Hinn liðinn í brtt. hv. þm. (P. O.) getur nefndin ekki heldur fallist á, sem sje að afskifti sýslumanna af landsversluninni skuli með öllu hverfa. Í því atriði yrði að haga svo til, sem landsstjórn og landsverslun álíta heppilegast í hvert skifti. Stjórnin á að hafa heimild til að láta sýslumenn annast þessi störf, eins og nauðsynin krefur, þótt það hins vegar sje ekki rjett að gera slíkt að nauðsynjalausu. þetta er skoðun meiri hl. nefndarinnar, en verið getur, að sumir nefndarmenn sjeu dálítið á öðru máli.