24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

37. mál, hækkun á vörutolli

Guðjón Guðlaugsson:

Mjer fanst háttv. frsm. (G. Ó.) ekki í fullu samræmi við niðurstöðu nefndarinnar. Þó að hann hafi samþykt nál. fjárhagsnefndar og skrifað undir það, þá virðist hann helst vera á móti nál., því að hann tók það rjettilega fram, að vörutollurinn væri ekki vinsæll og kæmi ranglega niður. Hann gat þess líka rjettilega, að það hefði verið gefið undir fótinn með það, að þetta væru að eins bráðabirgðalög, sem afnumin yrðu sem fyrst. En nú hefir samt nefndin lagt til, að frv. sje samþykt í deildinni og það ekki til bráðabirgða, því að það er hvergi tekið fram í frv. Þau geta því þess vegna gilt um aldur og æfi.

Jeg get fyllilega kannast við þörfina á tekjuauka, eins og nú er ástatt. En jeg get ekki fallist á eins gífurlega hækkun eins og hjer er farið fram á, án þess að tekið sje fram um leið, að hjer sje að eins um bráðabirgðaráðstöf. un að ræða. En hjer er engin bending um það, hve nær skuli nema lögin úr gildi.

Og svo er annað. Þó að það sje vitanlega alveg rjett, að þessi fjárhagsvandræði, sem nú steðja að, stafi af dýrtíðinni, þá er mjer spurn: Er þessi vörutollshækkun rjetta aðferðin til þess að draga úr vandræðunum? Því hvaðan kemur þessi tollur? Einmitt frá þeim sömu mönnum, sem á að reyna að hjálpa fram úr dýrtíðarvandræðunum. Það eru framleiðendurnir, sem tollurinn kemur harðast niður á. En einmitt sú stjettin, sem er einna ófyrirleitnust í því að heimta stöðugt hærra og hærra kaup, verkamannastjettin, hún á að njóta gæðanna af því, sem sogið er út úr þeim, sem eitthvað framleiða.