04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2211)

82. mál, landsverslunin

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Eftir því, sem mjer er kunnugt, hefir hv. þm. Borgf. (P. O.) haft sannar spurnir af innheimtulaunum sýslumanna af þeim vörum, sem þeim er beinlínis ætlað að úthluta. En um hitt hefir hann ekki verið rjettilega fræddur, að sýslumenn fái einnig innheimtulaun af þeim vörum, sem eru ekki bókfærðar hjá þeim. Þeir fá einungis innheimtulaun af því, sem gengur í gegnum þeirra hendur og þeir standa skil á.

Jeg verð enn á ný að taka það fram, að jeg tel alls ekki að rjett sje að banna sýslumönnum öll afskifti af landsversluninni.

Hv. þm. (P. O.) hlýtur að skilja, að það er tvent ólíkt að útiloka sýslumenn frá versluninni að einhverju leyti eða þá öllu leyti. Hv. þm. (P. O.) getur ekki hugsað sjer neinn milliveg, en þó er oft bráðnauðsynlegt að fara milliveginn, svo í þessu máli sem mörgum öðrum.

Jeg hefi þegar tekið fram, að jeg sje ekki brýna þörf á þessari þingsályktunartill. Og bendi umr. í þá átt, að forstjórn landsverslunarinnar eigi að vera mjög bundin við hana, álít jeg, að hún eigi ekki að ná fram að ganga.