04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

82. mál, landsverslunin

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal að eins tala mjög stutt, því að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og fleiri hafa tekið ýmislegt fram af því, sem jeg vildi segja. Jeg vil leggja mikla áherslu á, að það er búið að skipa landsverslunina svo góðum mönnum, sem kunnugt er, og því rjettast að láta þá hafa sem óbundnastar hendur um fyrirkomulag verslunarinnar, því vitaskuld verður að beina versluninni inn á þær brautir, sem reynslan bendir á að verði hagkvæmastar. þingið ætti sem minst að blanda sjer inn í þær hreint verslunarlegu framkvæmdir. Jeg teldi mjög illa farið, ef þingályktunartillagan yrði samþykt og skilin svo á þá leið, að landsverslunin gæti ekki skift við sveitarfjelögin. Jeg skil ekki þá röksemdaleiðslu hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að verslunin verði auðreknari, þó viðskiftin hættu við sveitarfjelögin, því aðalatriðið virðist mjer vera, að verslunin hafi nóg fje, en hvort það kemur frá sveitarfjelagi eða kaupmanni skilst mjer að verslunarlega sjeð hafi sömu þýðingu.

Þar sem hv. þm. (B. K.) var að tala um þennan ímugust, sem kæmi fram til kaupmanna, þá verð jeg að segja, að það er hrein og bein ímyndun. Þegar litið er á þær ýmsu nefndir, sem skipaðar eru til að fara með verslunina, svo sem forstjórn landsversluninnar, útflutningsnefnd og innflutningsnefnd, þá sjest, að meiri hluti þeirra eru kaupmenn. Ekki kemur ímugustur mikill fram í þessum nefndarskipunum, en hitt er annað mál, þó menn hafi ímugust á þeim hinum mikla gróða, sem sumir, sjerstaklega stórkaupmennirnir, áreiðanlega hafa haft.

Síðan jeg kom í stjórnina hefir einmitt verið lögð áhersla á að ná í menn með sem bestri verslunarþekkingu, en hitt er satt, að þegar háttv. þm. (B. K.) fór úr stjórninni, þá var lítið af verslunarfróðum mönnum, eða nær enginn, í landsversluninni.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) málaði fjárhaginn með dökkum litum. Það er að vísu rjett, að fjárhagurinn er ekki glæsilegur. En hitt fanst mjer fulldjúpt tekið í árinni, er hann sagði, að vjer gætum ekki leitað annara en Dana um lán. Jeg hygg, að vjer getum sannarlega fengið lán annarsstaðar. Og að sjálfstæði landsins sje undir því komið, að fjárhagur landsins sje í höndum kaupmanna, það kunna nú að vera dálítið skiftar skoðanir um það.

Hv. þm. sagði, að landið þyrfti að gjalda mikið af lánum um áramót 1920. þetta er að vísu satt, en jeg hygg, að sjeð verði fyrir, að ný lán komi í staðinn.

Hv.þm. (B.K.)sagði, að landið þyrfti að lánin. Lánin eru 3 milj., og hv. þm. (B. K.) hjelt, að þeirra yrði krafist um áramót 1920. En ef svo verður, að lánanna verði krafist þá, stafar það af því, að ófriðnum verði lokið. Því að ef ófriðnum heldur þá áfram, eru litlar líkur til, að nýir togarar yrðu keyptir; en fyr þarf ekki að greiða lán þetta.

Jeg vona, að hv. þingm. bindi ekki um of hendur verslunarforstjóranna. Á þessum tímum verður að gefa þeim mönnum, er vjer treystum, mikið vald, og mjer skilst, að þingið alt beri fult traust til forstjóra landsverslunarinnar.