24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

37. mál, hækkun á vörutolli

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg get verið háttv. nefnd þakklátur fyrir undirtektirnar undir þetta mál. Hinu gat jeg altaf búist við, að öllum sje ekki um að samþ. frv. — í fyrstu fór stjórnin að eins fram á hækkun á 3. og 6. lið vörutollslaganna, þar sem er að ræða um ýmislegan glysvarning, sem t. d. í Danmörku er lagður sjerstakur skattur á. En tekjuþörfin er mikil, og mönnum gengur illa að koma með eitthvað til að fullnægja henni. Fjárhagsnefnd Nd. vildi láta hækka allan vörutoll um helming, og gat stjórnin ekki verið á móti því, eins og á stóð.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) sagði, þá vil jeg geta þess, að jeg býst við, að þessi vörutollur lendi ekki síður á verkalýð en öðrum stjettum. Þeir, sem eitthvað framleiða, geta þó fremur búið að sínu en hinir, sem ekkert framleiða.

Um hitt atriðið, hve nær þessi lög falli úr gild, er þess að geta, að vörutollslögin falla úr gildi í árslok 1919, og sama gildir þá auðvitað um þetta frv. ef það verður að lögum.