04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í C-deild Alþingistíðinda. (2220)

82. mál, landsverslunin

Björn Kristjánsson:

Jeg þarf fáu að svara, því að andsvörin gegn mjer snertu harla lítið mitt mál.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gat þess, að kaupmenn hefðu fengið og mundu framvegis fá vörur hjá landsversluninni, þótt till. þessi yrði ekki samþykt. Þetta er rjett. En það var alls ekki þetta, sem jeg átti við, heldur var jeg að benda á leið til þess, að kaupmenn sæktust eftir vörunum og legðu eigið fje sitt og lánstraust til þess að kaupa þær og selja, svo að landið þyrfti ekki að taka það fje að láni erlendis, sem þeir hefðu yfir að ráða; og jeg benti á, að þingið mætti ekki gera neitt til þess að hindra kaupmenn í þessu efni. Þetta átti jeg við. En allir, sem gegn mjer hafa talað, hafa misskilið orð mín, og þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði, að jeg álíti fjármálavoða stafa af verslunarrekstrinum. Þetta er heldur ekki rjett. En jeg sagði, að stjórnin hefði ekki nægilegt veltufje til þess að versla með, að minsta kosti ekki án veltufjár kaupmanna og kaupfjelaga. Og úr því að fjeð er ekki til, verður landið að taka það að láni, ef það hugsar sjer að reka verslunina framvegis með þessu fyrirkomulagi. Jeg benti á, að þingið ætti að gera kaupmönnum og kaupfjelögum fært, og hvetja þau meira að segja til þess, að taka þátt í versluninni. En hjer tjáir litt að segja eins og karlinn, sem rak öfuga ausuna ofan í baunapottinn: „Hangið þið við, ef þið viljið vera með“.

Hæstv. fjármálaráðherra og ýmsir hv. þm. sögðu, að forstjórar landsverslunarinnar eigi að stjórna þessu. En hafa menn athugað, að hjer er að ræða um fjárhag landsins, og það, sem hjer um ræðir, stendur fyrir utan þeirra verkahring, verslunarstjóranna? Því að ekki á stjórn landsverslunarinnar að vera ráðandi þess, hvort kaupmönnum og kaupfjelögum er gert mögulegt að leggja fje sitt fram, eða hvort landið tekur margra miljóna kr. lán í þess stað. Því málefni á vitanlega stjórn og þing að ráða.

Jeg bið afsökunar á því, að jeg hefi tekið þetta fram. Það er eigi af því, að mjer sje þetta mál hið minsta kappsmál, heldur vildi jeg skýra hvernig í málinu liggur. En jeg heyri á umr., að mjer hefir því miður ekki tekist það.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) kvað stefnuna kynlega. En jeg er annarar skoðunar. Jeg lýsti stefnunni áðan og sýndi þá fram á, hversu nauðsynlegt væri, að landið tæki hana upp, eins og nú á stendur. Og ef þetta er sama stefnan og stjórnin hafði hugsað sjer í málinu, hvað er þá til fyrirstöðu ?

Hv. sami þm. (B. Sv.) kvað kaupmenn geta neitað að hafa verslunina á hendi, ef þeim byði svo við að horfa. Þetta er að vísu rjett. En ef slíkt kæmi fyrir, er heimilt samkvæmt till. að versla við hvern sem vill. En ef stjórnin og kaupmenn geta ekki komið sjer saman, þá er það stjórninni að kenna, en ekki verslunarstjettinni.

Hv. sami þm. (B. Sv.) gat þess og, að hjer væri ekki um að ræða venjulega útlánsverslun, heldur að eins úthlutun vara. En alt kemur í sama stað niður. Ef landið vantar fje til þess að kaupa vöruna, verður það að taka lán. Það er auðvitað rjett, að peningamir em jafngóðir frá hreppsfjelögum sem frá kaupmönnum, ef þau hefðu þá á takteinum. (Fjármálaráðh.: Vörurnar verða goldnar við afhendingu). En hreppsfjelög hafa ekki veltufje, nema það, sem þau fá í bönkum að láni.

Hæstv. fjármálaráðherra fann að því, sem jeg sagði, að vjer hefðum hvergi lánstraust nema í Danmörku. Hann sagði, að vjer mundum hafa það víðar en þar. En jeg hefi aldrei orðið þess var. Eða hvers vegna hefir stjórnin þá ekki notað sjer það?

Jeg vildi óska, að það reyndist sannspá, að ófriðnum yrði lokið svo snemma, að landið gæti greitt skuld sína um áramót 1920. En vjer verðum samt að gera ráð fyrir hinu versta. Þess vegna vil jeg, að vjer notum oss af fremsta megni vort eigið fjámagn, og þá er að færa sjer í nyt verslunarveltufjeð, og ákveða kaupmönnum verslunararðinn sjálfir. Það tel jeg miklu hyggilegra en að leita að óþörfu láns hjá erlendri þjóð, sem vjer eigum í höggi við um sjálfstæðismál vor.

Þó jeg geri þetta ekki að neinu kappsmáli, fanst mjer mig bera skylda til að benda hv. deild á þessi úrræði.