12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (2233)

95. mál, dýrtíðarvinna

Þórarinn Jónsson:

Hv. flm. (S. S.) taldi það sínu máli til stuðnings, að þessi þingsál.till. væri til að afstýra vandræðum meðal fólks. Mjer skilst nú svo, að vinnuvandræði fólks geti ekki komið til mála fyr en eftir að vetur er genginn í garð, og getur því ekki verið um atvinnuleysi að ræða hjer, en þegar að því kemur, getur maður nokkuð gert sjer í hugarlund, hvernig það verður að senda menn hjeðan úr Reykjavík og annarsstaðar af landinu austur í Flóa, til þess að vinná þar að jarðabótum um hávetur, ef til vill í 30 stiga frosti, liggja þar við í tjöldum o. s. frv., og hve miklu þeir myndu afkasta. Þess utan er það athugavert, að öll verkfæri, sem nú þyrfti að kaupa til þessarar vinnu, eru í afarverði og yrði á þessum tíma alls ekki notuð. Jeg sje því ekki, að þessi till. geti komið til nokkurra mála. En svo er annað, sem till. tekur fram. Það er að landssjóður eigi að bera allan þann halla, sem verða kunni af þessum vinnubrögðum. En mundi ekki hallinn geta orðið nokkuð mikill, ef afurðir vinnunnar yrðu sama sem engar, en landssjóðurinn borgaði alt saman? Jeg sje þess vegna ekki, hvers vegna málið á að fara í nefnd. Mjer finst ekki annað við það að gera en fella það þegar í stað. Hæstv. forsætisráðherra sagði, að tillagan væri ekki svo afleit; hann talaði um einhverja tilraun, sem gera þyrfti. Mjer er ekki ljóst, hvernig sú tilraun á að vera, ef frekar er hægt að gera hana að vetrarlagi en á öðrum tíma. Hœstvirtur forsætisráðherra áleit líka, að verkið mundi ekki verða miklu ódýrara, eftir stríðið, og nefndi þá um leið aðalatriðið, verkfærakaupin. Ekki fæ jeg skilið þetta, því bæði er það, að verkfærin myndu verða ódýrari, og svo hitt, að verkið myndi verða framkvæmt á hentugum tíma, en ekki með neinni málamyndavinnu.