12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í C-deild Alþingistíðinda. (2235)

95. mál, dýrtíðarvinna

Forsætisráðherra (J. M.):

Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) vildi ekki láta athuga mál þetta í nefnd. Þetta getur verið eðlilegt frá hans sjónarmiði, þar sem hann álítur, að slík ráðstöfun, sem till. þessi fjallar um, geti ekki komið til nokkurra mála. Ef það væri rjett, væri auðvitað tilgangslaust að tefja málið í nefnd.

En hv. þm. (Þór. J.) fór ekki alveg rjett með mín ummæli. Hann kvað mig hafa sagt, að verkið yrði ekki miklu ódýrara eftir ófriðinn. Þetta er ekki rjett haft eftir. Jeg sagði, að verkið yrði þá ekki mjög miklu ódýrara. (Þór. J.: Af hverju?). Af því að mestur hluti kostnaðarins er fólginn í verkkaupi, og það verður líklega ekki mun minna eftir ófriðinn. Jeg hygg, að hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hafi eigi skilið hugsunina, sem fyrir fjelaginu vakti, er það bauð landsstjórninni vinnuna til umráða. En það hugsaði á þessa leið: Við skulum láta verk þetta af hendi til landsstjórnarinnar, ef hún vill kosta dálitlu til, til þess að hún hafi verkefni handa atvinnulausu fólki.

Jeg vil samt ekki hjer með beint segja, að rjett sje að ráðast í fyrirtækið. En jeg tel rjett, að nefnd sje látin athuga málið. Jeg gæti vel hugsað mjer, að atvinnulausu fólki á Eyrarbakka og Stokkseyri kæmi vel að fá þessa vinnu. Vitanlega yrði ekki unnið að vetrarlagi, heldur að eins haust og vor, en þá er oft lítið um vinnu.

Jeg tel óþarft að orðlengja frekar um þetta. Hjer er eigi um annað að ræða en hvort athuga skuli málið í nefnd. Og jeg verð að segja, að margri till., sem minna hefir haft sjer til ágætis, hefir verið vísað í nefnd orðalaust.