28.05.1918
Efri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

77. mál, dýrtíðaruppbót handa Sigurgeiri Gíslasyni

Flm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg hefi flutt till. þessa eftir ósk sýslunefndar Gullbringu- og Kjósarsýslu, og vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp nokkrar línur úr gerðabók sýslunefndarinnar:

„Sýslunefndin álítur, að vegaverkstjóri Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði, sem staðið hefir fyrir vegagerð Keflavíkur og Grindavíkurvegarins, sem kostaðir eru að hálfu leyti úr landssjóði, hafi eigi með rjettu verið afskiftur, að því er snertir úthlutun dýrtíðaruppbótar árin 1916 og 1917, og skorar sýslunefndin á Alþingi að leiðrjetta þetta.“

Þetta erindi hefir nú legið frammi á þinginu, frá sýslunefndinni. En ástæðan fyrir þyí, að ;þessi maður hefir ekki fengið dýrtíðaruppbót, eins og aðrir vegagerðarstjórar, er að líkindum sú, að hann er ráðinn til vinnunnar af sýslunefnd, enda þótt hann hafi unnið í landssjóðs þarfir, þar eð landssjóður hefir kostað veginn að hálfu leyti.

Jeg vil geta þess líka, að vegur þessi hefði að rjettu lagi átt að vera í þjóðvegatölu, en sýslunefndin sótti það ekki fast; vildi hún heldur vinna til að leggja fje til hans að hálfu, til þess að fá hann fyr, því eins og kunnugt er, var leið þessi illfær og því þörf á, að fá veginn lagðan sem fyrst.

Til nánari skýringar vil jeg geta þess, að maður þessi, Sigurgeir Gíslason, hefir unnið að vegagerð í 25 ár og þar af verið vegagerðarstjóri í 19 ár, fyrst 4 ár í þjónustu landssjóðs, en síðan í 14—15 ár við þennan veg, og þykja vegir hans vel gerðir í alla staði, og bera af flestum öðrum nýlögðum vegum.

Jeg skal svo ekki eyða fleiri orðum í framsögu þessa máls, en vona, að hv. deild líti svo á, að þessi maður eigi eins mikinn rjett á dýrtíðaruppbót sem aðrir menn af hans flokki.

Vil jeg.svo leggja það til, að till. verði vísað til fjárveitinganefndar.