01.06.1918
Efri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

77. mál, dýrtíðaruppbót handa Sigurgeiri Gíslasyni

Fjármálaráðherra (S. E.):

Mjer virðist rökstudda dagskráin mjög hyggileg, því jeg get ekki betur sjeð en að þessi þingsáltill. stríði algerlega á móti því „principi“, sem fylgt hefir verið af landsstjórninni og þinginu í því, að veita dýrtíðaruppbót, ef landsstjórnin á nú að fara að veita uppbót fyrir vinnu, sem sýslunefnd lætur vinna. Svo held jeg líka, að þetta gæti orðið öðrum fordæmi. Jeg veit t. d. ekki betur en að eins mætti álíta ástatt um veginn frá Akranesi; það er sýsluvegur, sem fje er veitt til úr landssjóði; það gæti því farið eins um þann vegagerðarstjóra, að hann vildi fá dýrtíðaruppbót úr landssjóði. Jeg álít því sjálfsagt að samþykkja þessa rökstuddu dagskrá nefndarinnar.